Besta mögulega prump

Síminn auglýsir grimmt að sjónvarpsefni þeirra, t.d. VOD þjónustan sé "í bestu mögulegu gæðum". Sjálfur er ég ekki með sjónvarpsáskrift gegnum þá, en hef töluverða reynslu af því að horfa á efni dreift um ADSL hjá öðrum.

Nokkrar staðreyndir:

  • DVD myndir eru í mun betri gæðum en VOD efni Símans um ADSL
  • Sjónvarpsútsendingar Digital Ísland (um örbylgjuloftnet) er í betri gæðum en ADSL sjónvarp Símans
  • Sjónvarpsútsendingar um gamaldags loftnet er í betri gæðum en ADSL sjónvarp Símans(!)
  • Gæðin á Skjá-Sport voru takmörkuð, en það að horfa á Sýn2 gegnum ADSL sjónvarp Símans er hrein hörmung, minnir helst á YouTube í gæðum

Fræðilega séð eiga stafrænar útsendingar að vera "hreinni" en gamaldags loftnetsútseningar, þar sem ekki er um neitt suð eða snjókomu að ræða. Staðreyndin er hins vegar sú að til að troða þessu gagnamagni um símalínur er myndefninu þjappað það mikið t.d. allir andlitsdrættir verða eins og á ljósmynd sem hefur verið "air-brushuð" og smáatriði hverfa. Reynt virðist að draga athyglina frá þessu með því að ýkja liti, en það kemur ekki í sama stað niður.

Truflanir eru líka tíðar hjá Símanum og (eins og hjá Digital Ísland) lýsa þær sér í því að myndin hjöktir og hikstar, oft þannig að hún birtist sem stórir ferningar.

Á DVD diskum er um að ræða þjöppun frá gæðum upphaflegu kvikmyndarinnar, en hún er gerð þannig að hún er næstum ósýnileg (helst að það sé hægt að sjá þjöppunina í mjög dimmum senum á dæmigerðum DVD spilurum).

Sýn 2 dreift af Símanum er hrein hörmung. Forkastanlega vond gæði, sérstaklega á flötum sem hreyfast - og eðli málsins samkvæmt er töluvert af flötum á hreyfingu í fótbolta. Engu að síður fullyrða þeir sjálfir á vefnum:

Enski boltinn í bestu mögulegu myndgæðum!

Og svo ætlar Síminn að hreykja sér af því að verða fyrstir með háskerpusjónvarp.

Mér er spurn: Hvernig ætlar aðili sem getur ekki einu sinni troðið sambærilegum myndgæðum við gamaldags loftnetsútsendingu gegnum pípurnar sínar að bjóða upp á háskerpu? (Smáa letrið tiltekur að um verði að ræða þjónustu yfir "ADSL2+" en það breytir því ekki að ég er skeptískur).

Er ekki hægt að kæra þetta "bestu mögulegu myndgæði" kjaftæði til Neytendasamtakanna?

Aths. 1: Það er rétt að ítreka að ég er ekki viðskiptavinur Símans (og prísa mig sælan) og að ofantalið gildir um ADSL útsendingar, ég hef ekki reynslu af ljósleiðaradæminu (Breiðbandinu) enda virðist Síminn gera sitt besta til að þagga þá þjónustu sína niður.

Aths. 2: Þessi færsla er að miklu leyti endurtekning færslu minnar frá í apríl, en gæðin á Sýn2 eru margfalt verri en í enska boltanum áður og urðu til þess að ég þurfti að dæsa aftur. Þess má geta að í leit á Google að frasanum bestu mögulegu gæðum birtist gamla færslan mín efst og síðan þar sem Google finnur frasann hjá Símanum er ekki til lengur, en frasinn er enn notaður í auglýsingum fyrir VOD-ið.


< Fyrri færsla:
Komin aftur heim
Næsta færsla: >
Kraftaverkin gerast enn
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry