Kraftaverkin gerast enn

Við skötuhjúin erum smám saman að minnka kókneyslu okkar og færa okkur yfir í daufari efni (sódavatn). Hins vegar hefur neyslan aukist nokkuð þessar vikur sem við höfum verið í sumarfríi - enda "má" drekka kók þegar maður er í fríi.

Því hafa afköstin við drykkjuna verið ívið meiri en að var stefnt, og mikið til í smærri umbúðum sem henta til bílneyslu og/eða fylgja sælkeratilboðum íslenskra þjóðvegasjoppa. Þrátt fyrir að hafa þannig spænt okkur í gegnum mikið magn umbúða hafa þó engir vinningar litið dagsins ljós, heldur einungis skipunin "Reyndu aftur".

Sjálfur er ég svo gamall í hettunni að þessi orð minna mig yfirleitt á hendinguna "reyndu a-aaaftur, ég bæði sé og veit..." og þar með á óskalög sjúklinga á laugardagsmorgnum einhverntíman í fyrndinni.

Illar tungur voru farnar að ýja að því að þetta hlyti að vera eitthvað samsæri hinna illu Vífilfellara - en í gær tókum við gleði okkar á ný. Hér var nefnilega í gær tæmd kókflaska og þegar Alex var að fara að skutla hræinu undir vaskinn rak hún augun í að á bakhlið miðans var vinningur!

Nú stendur því tóm tveggja lítra flaska í öndvegi í eldhúsinu og bíður þess að við förum og sækjum vinninginn, hálfs lítra kók!

Vífilfellurum er snarlega fyrirgefið og þeir beðnir velvirðingar á að við skulum nokkurn tíman hafa efast um heilindi þeirra í garð okkar smælingjanna...


< Fyrri færsla:
Besta mögulega prump
Næsta færsla: >
Lagst í klámrannsóknarmennsku
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry