Þynnka spillir maraþonhvatningu
18. ágúst 2007 | 3 aths.
Þátttaka okkar menningarvitanna í komandi nóttu hófst í gær í þrítugsafmæli Gunna frænda, höldnu að ættaróðalinu í Ystaseli. Þar var vel veitt eins og lenskan er á þeim bæ og færi gáfust til spjalla við jafnt ættingja sem ættlausa, hérlenda sem erlenda.
Eitthvað var fámennt í fulltrúahópi maraþonhlaupara, enda lögðu þeir áherslu á góðan svefn og heilbrigða hegðan í aðdraganda átakanna. Þó voru mættir nokkrir fulltrúar hlaupenda og meðal annars uppi fagnaðarfundir þegar Birna stórfrænka birtist galvösk og skemmti lýðum með sögum af afrekum sínum og annarra.
Við skötuhjúin fylgdum straumnum niður í bæ um eittleytið og enduðum þar á Ölstofunni ásamt Nonna og fleiri boðsgestum. Sú dvöl er svo sem ekki til ítarlegra frásagna færandi, en þegar ég rak augun í að klukkan væri orðin hálf-fjögur hélt ég fyrst að hún hlyti að vera eitthvað biluð. Svo reyndist ekki vera, en við notuðum þessa uppgötvun sem afsökun fyrir því að kveðja Nonnann og rölta niður Laugaveginn.
Eftir sitthvora með öllu nema hráum og snaggaraleg tilþrif í leigubílaflöggun skiluðum við okkur heim á grandann um fjögurleytið.
Það var því strax ljóst að ég myndi tæplega vakna til að hvetja þá sem fengu forstart í maraþoni klukkan átta.
Raunin varð einnig sú að ég skrölti ekki fram úr beði fyrr en búið var að ræsa öll hlaup og eflaust flestir þeirra hlaupara sem mér eru kunnugir löngu komnir í mark.
Ég vil því nota þetta tækifæri til að biðja þá hlaupara afsökunar sem árangurslaust skimuðu með tárin í augum eftir mér og hljómfögrum hvatningarópum mínum af hliðarlínunni. Ég er viss um að þið stóðuð ykkur öll frábærlega.
Svo vaknaði ég líka raddlaus...
Athugasemdir (3)
1.
Elli reit 18. ágúst 2007:
Haugur..
2.
Þórarinn sjálfur reit 18. ágúst 2007:
Guilty as charged.
3.
Jón H reit 19. ágúst 2007:
Þú ert nú meiri djammboltinn. Það er skondið þegar ég hugsa um það þá eru ár og dagar síðan ég var úti lengur til 1.
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry