Strætó.is - vefklúður ársins?

Nýr vefur Strætó er með ólíkindum mikil afturför frá þeim gamla. Lygilegt að af öllum þeim sviðum sem Strætó getur bætt sig á, skuli það sett í forgang að henda vel heppnuðum vef fyrir misheppnaðan.

(Það er rétt að taka fram að Hugsmiðjan, minn núverandi vinnustaður, átti stóran þátt í eldri vefnum sem nú hefur verið lagður niður - en ég hef ekkert komið að því verkefni).

Aðalatriði gamla vefsins var Ráðgjafinn sem gat fundið bestu strætóleið milli tveggja heimilisfanga. Niðurstaðan var kannski ekki alltaf jafn ánægjuleg, en þar var við leiðarkerfið að sakast - ekki forritunina.

Á nýja vefnum er hann hins vegar horfinn með öllu. Þetta hefur vakið athygli víðar, til dæmis var í gær fréttaskot í hádegisfréttum Stöðvar 2 um að meðal annars væru spjallsvæði unglinga (sem eru líklega stærsti notendahópurinn) logandi í umræðum um þetta.

Viðbrögð Strætó virðast hafa verið þau að flytja fréttina um að ráðgjafinn væri í uppfærslu ofar í fréttalistann, þannig að hún er efsta frétt á forsíðu í stað þess að vera fimmta eins og hún var í gærmorgun.

En þetta lyktar töluvert af "throwing the baby out with the bathwater" - skrýtið að opna nýjan vef áður en þeir voru búnir að aðlaga ráðgjafann að nýju vefkerfi...

Af eigin reynslu

Í dag fór ég svo á vefinn þar sem ég ætlaði að taka strætó heim úr vinnunni og þurfti að fletta upp hvenær von væri á honum.

Það kom mér auðvitað ekki á óvart að enginn ráðgjafi væri á forsíðunni, en ég þóttist samt viss um að einhversstaðar gæti ég fundið hvenær heppilegur vagn færi framhjá.

Mitt fyrsta verk var að smella á Kort til að rifja upp hvaða leiðir kæmu til greina og síðan að smella á leiðarkortið fyrir leið 15.

Þar opnaðist PDF kort af leiðinni, en ekkert um tímasetningar. Þannig að ég bakkaði og fór að leita.

Ég prófaði að smella á Leiðarkerfi og þar prófaði ég að opna leiðarkerfið fyrir leið 15 (líka PDF skjal). Við það fraus Firefox hjá mér og ég neyddist til að binda enda á þjáningar hans.

Næst prófaði ég að fara í IE og vista leiðarkerfi leiðar 15 til að tékka á því hvað þetta væri eiginlega stór skrá. Hún reyndist vera 7,3 MB (!).

Þegar ég prófaði að opna hana fékk ég tilkynningu um að "Windows Explorer needs to shut down".

Loks tókst mér að opna þetta skaðræðis PDF skjal með IE og finna þar tímana.

Er til of mikils mælst að birta tímatöflur á vef án þess að maður þurfi að sækja rúmlega 7 megabæta skrá sem drepur vafra og stýrikerfiseiningar til hægri og vinstri?

Guð hjálpi þeim sem reynir að verða sér úti um þessar upplýsingar um módem...

Uppfært: Þeir virðast reyndar vera að vinna í þessu í meðan ég skrái þetta taut, því skráin sem hét xx_Graen_leid_15.pdf um fimmleytið heitir þremur tímum síðar xLeidakerfi_graen15.pdf og er "ekki nema" 4,6 MB. En ég spyr enn, hvað er athugavert við góðar gamaldags textaupplýsingar í html-töflum?


< Fyrri færsla:
Allur í fiktinu
Næsta færsla: >
Enn um Strætó
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry