Enn um Strætó

Eins og fram kom í síðustu færslu tók ég strætó heim úr vinnunni í dag.

Glöggir lesendur muna kannski eftir Stefnuskrá um almenningssamgöngur sem ég setti á blað fyrir einu og hálfu ári. Nú er Strætó langt kominn með að uppfylla fyrstu þrjú atriðin sem ég nefni þar, en framkvæmdin er kannski ekki alveg eins góð og hún gæti verið.

Þegar ég kom að strætóskýlinu "mínu" við Snorrabraut fór ég að spá í hvort hún væri ekki komin með nafn. Það blasti hins vegar ekki við mér gangandi vegfarandanum, enda er nafnið haft ofan á skýlinu og snýr samhliða skýlinu (og þar með götunni).

Það er raunar svo ofarlega að ég (sem ekki er lágvaxnasti maður í heimi) þurfti að stíga nokkur skref út frá skýlinu til að sjá á skiltið.

Við hlið skýlisins er svo kominn staur sem á eru skrúfuð 4 leiðarkerfisskilti, eitt fyrir hverja leið sem stoppar við skýlið. Ég gat reyndar bara lesið á tvö þeirra, því hin tvö sneru að skýlinu en staurinn ekki nema í ca. 30 sentimetra fjarlægð frá því.

Ég gat með herkjum troðið mér milli staurs og skýlis, en gat þá ómögulega lesið á skiltið sem var í bringuhæð á mér. Því þurfti ég að fara aftur inn í skýlið (krækjandi fyrir glervegg) til að lesa á skiltið gegnum skýlisvegginn.

Ekki sérlega vel heppnuð hönnun...

Þetta var líka eitt af fáum skiptum sem ég hef saknað þess að vera ekki með myndavélasíma á mér, því á skiltunum var klár hönnunarvilla sem ég hefði gjarnan viljað taka mynd af.

Á leiðinni heim gerði ég svo hávísindalega rannsókn á því hversu auðvelt væri að lesa nöfn stoppistöðva þegar vagninn æki fram hjá þeim. Ég vissi hvenær væri von á stöðvum og var því tilbúinn þegar vagninn ók framhjá, en vegna þess að skiltin snúa eins og þau gera er ekki hægt að lesa á þau fyrr en rétt áður en maður kemur að stöðinni.

Ef maður situr hægra megin í vagninum, nær stöðvunum (til dæmis ef maður væri sjóndapur eða lágur í lofti) sýndist mér að maður hefði af stærðargráðunni eina strætisvagnalengd til að lesa á skiltið. Það er ekki langur tími þegar vagninn er á fullri ferð.

Mér til mikillar furðu virtust nafnamerkingarnar bara vera á nýjustu tegund skýla, en á gömlu gráu og rauð skýlunum og þar sem bara var staur voru engin nöfn.

Mynddæmi

Þegar heim kom greip ég myndavél og hélt í rannsóknarblaðamennskugírnum út í leit að strætóskýli í grenndinni til að taka nokkrar skýringarmyndir með þessari færslu (sem ég var þegar farinn að semja í huganum).

Fyrsta spurning er, á hvaða stöð er þessi mynd tekin?

Óheppilega hannað strætóskilti

  1. Boðagranda
  2. Hringbraut v/JL húsið
  3. Hofsvallagötu v/Hringbraut

Er ég nokkuð einn um það að lesa þetta sem Hringbraut v/JL húsið?

Óheppilega hannað strætóskilti

Ef maður skoðar hins vegar hvernig endastöðin Öldugrandi er merkt inn, kemur í ljós að þessi mynd er tekin á stöðinni Boðagranda.

Sorrí, en grafískur hönnuður á að geta gert betur en þetta.

Þetta væri strax skárri nálgun:

Örlítið skárra strætóskýli

Leturbreytinguna á nafninu þyrfti auðvitað að vinna betur, en þetta gefur a.m.k. hugmynd um hvernig mætti láta það skera sig frá hinum stöðvunum.

Eftirfarandi mynd gefur svo hugmynd um það hversu nálægt maður getur komist skýlinu án þess að geta lesið nafnið á stöðinni:

Óheppileg staðsetning nafnaskiltis

Það er ekki bara léleg þjöppun myndarinnar sem veldur því að nafnið er ólæsilegt, heldur er það sjónarhornið:

Óheppileg staðsetning nafnaskiltis

Betur má ef duga skal

Ég vil ekki hljóma allt of neikvæður, þær breytingar sem gerðar hafa verið eru strax til bóta, en það er hægt að gera mun betur.

Það þarf að klára að merkja allar stöðvar, ég myndi mæla með að það verði gert með því að setja nafnaskilti á staurana sem þegar er búið að bæta við allar stöðvar. Þar sem því verður við komið ætti nafnið að snúa þversum á götuna (eða a.m.k. skáhallt móti akandi umferð) þannig að auðveldara sé að fylgjast með því úr vagni á ferð hvaða stöðvum maður er að fara framhjá.

Síðan ætti að vera lítið mál að uppfæra upplýsingaskiltin þannig að hallandi textinn sé ekki svona rangt jafnaður (og láta letur nafns viðkomandi stoppistövar skera sig frá, ekki bara með græna punktinum).

En það verður spennandi að sjá hversu langan tíma það mun taka Strætó að uppfylla öll atriðin í stefnuskránni minni, það eru ekki nema tvö sem eru alveg óuppfyllt...


< Fyrri færsla:
Strætó.is - vefklúður ársins?
Næsta færsla: >
Vísindi og tölvuleikir
 


Athugasemdir (1)

1.

Mummi reit 23. ágúst 2007:

Nei, þú ert ekki sá eini sem sérð "Hringbraut v/JL húsið" út úr þessu. Ég horfði á þetta og skildi varla spurninguna, svo augljóst þótti mér þetta - en svo tók ég eftir þessu með Öldugranda og dró ályktun út frá því.

Magnað.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry