Betra er seint...
25. ágúst 2007 | 0 aths.
Í ferðalaginu austur uppgötvaði Alexandra kosti þess að liggja í hengirúmi í sólinni (og ég rifjaði þá upp). Flatmögun í hengirúmi var fastur liður í sumrum æsku minnar.
Eftir heimkomuna höfum við haft annað augað (eða eitt fjögurra) opið fyrir heppilegu hengirúmi á haustsölum garðhúsgagna.
Það var svo í Byko sem við sáum "ferðahengirúm" sem við eftir dálitla umhugsun festum kaup á.
Aðalkosturinn er samfellanleg grindin sem hengirúmið er hengt á, enda er ekki alveg einfalt að hengja upp "gamaldags" hengirúm hérna á svölunum (þótt nægt sé plássið).
Eftir rigningar undanfarinna daga var gripurinn svo vígður í dag. Hann stóðst prófið með sóma og það er klárlega kostur að grindin skuli vera lág, þannig að maður hefur skjól af svalahandriðinu.
Á móti kemur reyndar að hengirúmið sveiflast ekki í hinum þokkafullu löngu sveiflum sem fylgja því ef langt er á milli krókanna sem það er hengt á, heldur er sveiflutíðni nokkuð hærri og sveiflurnar styttri.
Það kemur svo í ljós hversu mikið við munum ná að nýta græjuna í haust, spurning hvort við eigum ekki eftir að flatmaga þarna í svefnpoka í sólarstillum vetrarins. Hengirúmið verður þó án efa fastagestur á svölunum næsta sumar.
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry