Skyldi hann brosa?

Úr Fréttablaðinu í morgun:

Rúmlega fjögur hundruð manns eiga von á hraðasekt í póstinum á næstu dögum. Hraðamyndavél lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu var sett upp við Hringbraut á miðvikudag og fimmtudag, og festi brot 422 ökumanna á filmu.

Við vorum á leið vestureftir Hringbrautinni á miðvikudaginn eftir sögulegan IKEA leiðangur þegar tveir myndavélablossar komu mér á óvart þar sem við ókum yfir gatnamótin við N1 stöðina.

Ég var á miðju grænu ljósi svo ég vissi að þetta var ekki ljósabrot. Ég hafði svo sem ekki verið að fylgjast sérstaklega með hraðanum, enda var ég inni í bílaröð sem hélt jöfnum hraða, en þegar ég leit niður á hraðamælinn var ég líklega á ca. 73.

Samkvæmt fréttablaðinu var meðalhraði ökuþóra (líklega þeim sem smellt var af) 75 kílómetrar á klukkustund, en hámarkshraðinn er 60.

Það er því ekki ólíklegt að ég eigi von á bréfi á næstunni, aðallega spurning hvort myndin af mér sé góð...

Reyndar flækir það líklega málið fyrir lögregluna að bíllinn er skráður á Alexöndru (en ég geri ráð fyrir að það sé ljóst af myndunum að það er ekki hún sem er við stýrið) og þótt hún eigi að vera skráð til heimilis hérna í blokkinni í Þjóðskrá erum við ekki skráð í sambúð og því gæti þurft örlitla spæjaravinnu til að finna út úr þessu.

Ætli hún fái ekki bréf með spurningu um hver ökumaðurinn sé.

Tómhent úr IKEA

Það sem var sögulegt við IKEA ferð okkar var ekki það að við skyldum hafa farið þangað, heldur það að við komum tómhent til baka.

Það eru ákveðnar hýbýlapælingar í gangi og þetta var könnunarleiðangur því tengt. Hins vegar voru ýmsir smáhlutir sem við höfðum augun opin fyrir og aðrir sem við rákumst á og veltum fyrir okkur. Raunin varð þó sú að það sem okkur langaði í var ekki til, og það sem við rákum augun í var ekki alveg að heilla.

Sænskar kjötbollur voru því eini afrakstur ferðarinnar hvað mig varðar, en þær stóðu vissulega fyrir sínu.


< Fyrri færsla:
Vísindi og tölvuleikir
Næsta færsla: >
Betra er seint...
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry