Hvað er ég?

Ég var aldrei búinn að skrá mig aftur í símaskrá eftir að ég kom heim frá Danmörku. Ég hélt áfram að nota sama Frelsis-númerið mitt fyrir farsímann (enda verðskrá Símans gersamlega óskiljanleg) og er með heimasíma hjá Hive - þannig að það varð ekkert sjálfkrafa ferli til að endurvekja mig í símaskránni.

Hins vegar hef ég orðið var við það upp á síðkastið að menn séu að fletta mér upp á vefnum og ekki finna (t.d. hef ég fengið spurningu um hvort ég væri fluttur). Það eru 6 nafnar mínir sem birtast á Já.is, en enginn þeirra er ég (a.m.k. ekki í þessum rituðum orðum).

Höfuðverkurinn er hins vegar hvað á að titla mig.

Fyrsta skráning mín í símaskrána var sem "nemi". Eftir útskrift breytti ég mér í "efnafr" (ég skráði örugglega efnafræðingur en var styttur niður í "-fr").

Nú er ég hins vegar kominn með MSc gráðu í "upplýsingatækni" og gæti því e.t.v. kallað mig "upplýsingatæknifræðing", en það hefur þann ókost (fyrir utan lengdina) að í hugum sumra gæti það lesist sem "upplýsinga-tæknifræðingur" sem mér þykir síðra.

"Cand.IT" er náttúrulega ógeðslega flottur titill, en líklega óskiljanlegur flestum (sem er kannski bara kostur).

Í vinnunni er ég ekki með starfsheiti heldur verksvið á nafnspjaldinu mínu: "Ráðgjöf og viðskiptaþróun", þannig að ég gæti e.t.v. titlað mig "ráðgjafa" eða "viðskiptaþróara"...

Niðurstaðan varð sú að fyrst um sinn verði ég endurskráður sem "efnafræðingur", enda held ég að það sé sá titill sem auðveldar þeim mest sem til mín þekkja að aðgreina mig frá nöfnum mínum.

En framtíðarpæling er að uppfæra sig í einhvern flottari titil. Fyrirliggjandi kandidatar eru því:

  • upplýsingatæknifræðingur
  • hátæknifræðingur (sbr. Stefán Pálsson)
  • Cand.IT.
  • MSc. í upplýsingatækni
  • ráðgjafi
  • viðskiptaþróari
  • tölvukall
  • vefgúbbi

Huxi hux...


< Fyrri færsla:
Mér langar í
Næsta færsla: >
Virkilega fín Astrópía
 


Athugasemdir (6)

1.

Borgar reit 28. ágúst 2007:

"upplýsingatæknifr"!

2.

hildigunnur reit 28. ágúst 2007:

Cand.IT. er laaaangflottast...

3.

Már reit 29. ágúst 2007:

u.t.fr.

4.

Þórarinn sjálfur reit 29. ágúst 2007:

Fékk svar frá Já um að ég verði titlaður "efnafr" frá og með morgundeginum.

Miðað við fordæmið sem finna má í skráningu frænda míns og nafna, sem er titlaður "íþrótta- og viðskiptafræðingur", hitti Borgar líklega naglann á höfuðið í samtali okkar áðan.

"Upplýsingatækni- og efnafræðingur" er kannski bara málið...

5.

elin reit 30. ágúst 2007:

Efnafr ?! Nei nei, mæli með að breyta því í tölvukall, það er miklu flottara. Það þarf aðeins að poppa upp þessa blessuðu símaskrá

6.

Elli reit 01. september 2007:

"Uppáhalds eldri bróðir Ella"

-öðruvísi
-passlega dúllulegt og væmið.
-álíka lýsandi fyrir vinnuna þína og margar af hinum uppástungunum.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry