Virkilega fín Astrópía

Ég get alveg mælt með Astrópíu. Við skelltum okkur á hana á föstudag og skemmtum okkur prýðilega.

Að vísu reikaði athygli mín stöku sinnum frá atburðum í forgrunni yfir á aukaleikarana, enda kannast ég við stóran hluta leikarahópsins frá hinum ýmsu áhugaleikfélögum. Til dæmis var ófrýnilegur formaður Hugleiks drepinn í upphafssenunni, og ég glotti reglulega yfir ábúðarmiklum kunningjum í margvíslegum hlutverkum jafnt krimma sem lögreglumanna og fangavarða.

Á almennari nótum þá var myndin öll hin vandaðasta. Teiknimyndagrafíkin var virkilega flott og var skemmtilega notuð, hljóð og lýsing prýðilegt auk þess sem leikurinn var virkilega góður (þótt ég verði að samsinna Alexöndru að Davíð Þór sýndi heldur takmarkaðan leik).

Þegar maður sá fyrstu tíserana fyrir myndina, með bardagasenunum, varð mér á orði að annað hvort yrði þetta virkilega flott eða pínlega hallærislegt. Raunin er sú að heilt yfir eru axsjón atriðin virkilega vel gerð miðað við takmarkað fjármagn. Menn virðast hafa tekið þá skynsamlegu ákvörðun að gera vel það sem hægt væri að gera vel, en leyfa sér að leysa hlutina á einfaldan og húmorískan hátt þess á milli.

Tilvísanir í t.d. LOTR og Shawshank Redemption voru skemmtilegar og örugglega fullt af tilvísunum sem ég var ekki að fatta (enda ekki sérfræðingur í RPG heimum).

Reyndar fannst mér sýningareintakið í Háskólabíói ekki sérlega gott. Mikið af rispum og birtustigið virtist flökta, næstum eins og peran í sýningarvélinni væri að gefa upp öndina. Ég tók ekki eins mikið eftir þessu þegar leið á myndina, en hvort það var vegna þess að ástandið batnaði eða ég gleymdi mér í myndinni skal ósagt látið.

En ég get vottað að það er ekki búið að skipta um sæti í stóra salnum.

Kærastan mín hlutverkanördinn

Samtal í hléinu var þó líklega það eftirminnilegasta frá þessu kvöldi. Alex spurði mig ósköp sakleysislega hvort ég hefði prófað að spila hlutverkaleiki, og ég sagði henni eins og er að þótt ég hafi verið forvitinn um þá eru kynni mín eiginlega bara örstuttar spilasessjónir með bræðrum mínum í íslenska spilakerfinu (sem ég man ekki hvað heitir) sem Sigmar grúskaði í á sínum grunnskólaárum. (Þar lagði ég ríka áherslu á að minn karakter fengi að vera bardagadvergur, enda hafa þeir lengi verið mér hugleiknir.)

Þegar ég ætlaði svo að fara að uppfræða hana um eðli þessara spila með tilvísun í tengingakastið í Risk (sem ég vissi að hún þekkti) stakk hún upp í mig með yfirlýsingunni: "Ja, ég spilaði nú svolítið af Dungeons and Dragons á tímabili..."

Manni er endalaust komið á óvart!

Fransk-kanadískur D and D húmor

Má til með að láta fljóta með link á stuttmynd sem gantast aðeins með Dungeons and Dragons nördaskap og Borgar sendi mér um daginn.

Ég held ég fari rétt með að þetta sé kanadískt. Talið er á frönsku, en enskur texti fylgir.

Farador D&D: Tom et ses chums


< Fyrri færsla:
Hvað er ég?
Næsta færsla: >
Er stærra betra?
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry