Er stærra betra?

Fyrir einhverja rælni rakst ég um daginn á færslu þar sem höfundurinn veltir upp þeirri spurningu hvort stækkandi skjáir séu endilega alltaf betri. Plássið eykst klárlega, en um leið þörfin fyrir að raða gluggunum skynsamlega upp og halda þægilegum stærðarhlutföllum.

That's the large display paradox. Having all that space can make you less productive due to all the window manipulation excise you have to deal with to make effective use of it.

(The Large Display Paradox, Jeff Atwood)

Þaðan þvældist ég yfir á t.d. þessa græju frá Matrox sem tengir 2-3 skjái saman þannig að þeir hagi sér eins og einn mjög aflangur skjár. Til að taka ekki allt of mikið pláss á skrifborðinu undir skjáfæturna má svo splæsa í þennan skjástand:

Skjástandur fyrir þrjá skjái

Úr nærumhverfinu

Sjálfur vinn ég með tvo skjái heima (á pésanum); fartölvuskjáinn í 1024 og stakan skjá í 1280. Makkinn er (eðli málsins samkvæmt, enda Mini) aðeins tengdur í staka skjáinn.

Þetta hentar mér prýðilega, yfirleitt er ég með forritið/in sem ég er að vinna í á stærri skjánum, og stillingaglugga, MSN, heimildir eða annað á þeim minni.

Í vinnunni er ég með einn 1600 skjá og líkar það alveg ágætlega, þótt ég sé oft í hálfgerðu brasi með það hvernig ég á að raða gluggunum skynsamlega upp (enda er ég gluggasubbi og hef yfirleitt allt of marga glugga opna, Alt-Tab er mitt helsta haldreipi).

Tveggja skjáa uppsetning er sannast sagna furðu sjaldséð í vinnunni. Það er helst að þeir sem vinna á fartölvur séu með stakan skjá til viðbótar.

Borgar var fyrir helgina að bæta við vinnuvélina sína skjákorti sem styður tvo staka skjái og lagði hald á widescreen skjá sem nýlega var yfirgefinn. Hann er með dálítið óvenjulega uppstillingu, en mér skilst á honum að hann sé ánægður með hana það sem af er:

Vinnuumhverfi Borgars
Vinnuumhverfi Borgars (skematísk mynd).

Mínar pælingar

Þeir skjáir sem ég hef til reiðu núna henta mér alveg þokkalega, en ég held ég freistist til að taka undir með bloggfærslunni sem ég linkaði á hérna efst (a.m.k. eins og ég skil hana) - um að nokkrir minni skjáir raðað hlið við hlið séu líklega skilvirkari en sífellt stærri (stakur) 4:3 skjár.

Líklega væri þörfin fyrir aukið skjárými meiri ef ég gerði meira af því að kóða, hver veit nema löngu fyrirhuguð tiltekt á thorarinn.com verði þess valdandi að ég fari að huga betur að þessum málum (a.m.k. er ég ekki viss hvort makkinn með sinn staka skjá sé það vinnuumhverfi sem verður fyrir valinu).


< Fyrri færsla:
Virkilega fín Astrópía
Næsta færsla: >
Fyrsti bolurinn uppsettur
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry