Húsfylli af hálfvitum

Í framhaldi af kjöri mínu sem varamaður í stjórn Hugleiks, tók ég að mér að vera oddviti í þriggja manna húsráði og þar með sæmdartitilinn húsráður.

Að vísu er ráðið bara tvímennt sem er, en við ráðum nú eflaust bót á því við tækifæri fornu sveitungarnir ég og Sigga Lára.

Á síðasta stjórnarfundi hafði ég orð á því (með embættislegu fasi og virðulegum málrómi) að mér sem húsráði þætti þörf á tiltekt á Eyjarslóðinni. Hjalti tækjavörður og ofurrótari með meiru bauðst þegar í stað til að grípa Hálfvita og Hraunliða hreðjataki og snúa upp á ... handleggina á þeim til að virkja þá til tiltektar, enda væri óreiðan að stórum hluta tilkomin eftir æfingatilþrif hljómsveitanna í sumar.

Tiltekt þessi var svo framkvæmd í kvöld og þegar ég mætti á staðinn var þar húsfylli af hálfvitum og stöku hraunari sem tíndist inn þegar á leið.

Þrátt fyrir anarkíska nálgun að tiltektinni gekk hún glettilega hratt og þegar yfir lauk hafði rými húsnæðisins tvöfaldast (hið minnsta).

Sjálfur gerði ég nú ekki mikið annað en að snúast kringum sjálfan mig (og aðra) og reyndi að vera gáfulegur. Afrekaði þó að troða gríðarlega rykugum netum í ruslapoka og kammóflasj-einhverju sömuleiðis. Einnig skemmdi ég einn skrúfbita í viðleitni við að gera við forláta stólfót. (Reyndar var það frekar stóllinn sem var forláta, en stólfóturinn fylgdi þétt í kjölfarið).

En mér þykir rétt að slútta þessu þvaðri á tveimur plöggum:

Hugleikur er að fara að leiklesa þau verk sem koma til greina sem verkefni vetrarins. Hafi lesendur áhuga á að ganga til liðs við félagið (nú eða bara fá nasaþef af því sem er að gerast þar) má reyna að setja sig í samband við mig og sjá hvort ég fæst til að láta uppi tímasetningar komandi samlestra.

Svo eru Ljótu Hálfvitarnir (nýtilteknir) að fara að troða upp á Nasa næsta fimmtudag ásamt Hvanndalsbræðrum. Sjá Hálfvitavefinn.


< Fyrri færsla:
Auglýsing styður forsíðufrétt
Næsta færsla: >
Þriðjaheimslán og laufblaðalógó
 


Athugasemdir (1)

1.

Siggalára reit 06. september 2007:

Já, mér fannst fínt. Gleymdi að spurja hverju sætti. Mjög þægilegt að vera í húsráði með þér. Maður fréttir ekki einu sinni af aðgerðum fyrr en eftirá. ;-)

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry