Þriðjaheimslán og laufblaðalógó

Hugmyndin að baki Kiva.org er einföld en snjöll og útfærslan greinilega að falla í kramið því eftirspurnin eftir að lána peninga er meiri en framboð lánþega.

Fyrirbærið gengur í stuttu máli út á það að notendur geta lánað lágar upphæðir (nokkra dollara) til fólks í þriðja heiminum sem vantar fjármagn til að hrinda viðskiptahugmyndum sínum í framkvæmd. Þeir sem vilja lána geta skoðað kynningar á fólkinu sem óskar eftir lánum og fylgst með hvernig gengur. Vextir af lánunum fara til þeirra sem sjá um milligöngu, en höfuðstóllinn er greiddur aftur með afborgunum.

Kiva.org hefur meira að segja fengið svo góðar undirtektir (og mikið umtal) að þeir þurfa reglulega að loka fyrir móttöku fleiri lána þar sem þeir hafa ekki við að finna lánþega.

Hver veit nema maður prófi einhvern tíman að stofna til viðskiptasambands við einhvern frumherja í þriðja heiminum (svona fyrst ekkert varð úr Nígeríuverkefninu mínu)...

Laufblaðalógó

Kiva er eitt þeirra lógóa sem voru tínd til í úttekt Smashing Magazine á tískustraumnum laufblaðalógó, sem þeir tiltaka sem eitt af tískufyrirbærum "Web 2.0" stemmningarinnar.

Laufblöð eru smart, spurning hvort maður eigi að fylgja straumnum og búa til einn laufblaðabol (svona þegar ég er búinn með skriðdýrsbolinn og blómaveggfóðursbolinn). Watch this space.

Annars má alveg mæla með Smashing Magazine fyrir þá sem hafa gaman af vefgrúski og flottri hönnun.

Þessa dagana eru þeir þau í afmælisskapi og standa meðal annars fyrir nýjum "freeware"-fonti, Anivers, sem virðist virkilega flottur. Öfugt við flestar ókeypis leturgerðir er gott úrval af ó-enskum bókstöfum og táknum. Litla ð er reyndar ekki sérlega vel heppnað, en sem skreytifontur er hann vel þess virði að kíkja á.


< Fyrri færsla:
Húsfylli af hálfvitum
Næsta færsla: >
Klikkað á klisjunni
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry