Völin og kvölin

Á stjórnarfundi Hugleix í gær var glímt við það lúxusvandamál að velja úr mörgum spennandi verkefnum fyrir næsta leikár.

Við vorum nokkuð sammála um gæði verkanna og hver þeirra okkur langaði helst að setja á svið, hins vegar fólst vandamálið í því að fá okkar óskir til að samrýmast veruleikanum. Það eru takmörk fyrir því hvað áhugaleikfélag ræður við að setja upp mörg verk á einu leikári, jafnvel öflugt félag eins og Hugleikur.

Það var ekki fyrr en upp úr miðnættinu að við vorum búin að ræða allar hliðar og komast að sameiginlegri niðurstöðu.

Niðurstaðan varð sú að auk einþáttungadagskráa vetrarins verður sýning í fullri lengd í vor og önnur styttri sem byrjað verður að æfa síðar í haust (spurning hvenær frumsýnt verður).

Nú tekur við að hafa samband við höfundana sem lögðu fram verk og gera þeim grein fyrir niðurstöðunni (og fá blessun fyrir því að setja upp verkin sem voru valin). Þar til því er lokið og niðurstaðan tilkynnt almennum Hugleikurum eru varir mínar (og fingur) innsiglaðar.

Siggi bara allsstaðar

Í fyrsta þættinum af Tekinn með Audda var Siggi Hugleiksformaður í hlutverki manns í hjólastól sem hrekkti Jóa Fel.

Hann stóð sig með prýði (þótt hann hafi reyndar ekkert staðið í lappirnar í atriðinu) og þegar auglýsingahlé kom í miðjum þætti var það enginn annar en áðurnefndur Siggi sem ljáði auglýsingu baðherbergjaverslunar rödd sína.

Duglegur strákur, hann Sigurður.


< Fyrri færsla:
Klikkað á klisjunni
Næsta færsla: >
Buxur á hælum
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry