Buxur á hælum

Á sjónvarpsopnu Fréttablaðsins í dag stendur undir fyrirsögninni Við mælum með:

Everton - Manchester United, Sýn 2 kl. 18.55

Virkilega athyglisverð viðureign. United hefur farið ferlega illa af stað í ár en er búið að fá aftur marga leikmenn sem voru frá vegna meiðsla. Wayne Rooney mætir aftur á sínar heimaslóðir og það verður forvitnilegt að sjá hvaða viðtökur hann mun fá á Goodison Park sem verður að teljast með sterkustu heimavöllum Bretlandseyja.

Stundum fær maður á tilfinninguna að svona "mælt með" klausur séu stundum valdar af algeru handahófi, bara svona til að fylla upp í síðuna. Hér virðist hins vegar vera einhver sem þekkir vel til sem tjáir sig um væntanlegan leik.

Gallinn er bara sá að þessi leikur var sýndur í gær, og þetta er endursýning á Sýn 2. Umfjöllun um leikinn og úrslit hans er meira að segja að finna á opnunni á undan í umræddu sunnudagsblaði.

Til að bíta höfuðið af skömminni var þetta hrútleiðinlegur leikur og alls ekkert til að mæla með. (Og Rooney alls ekkert með.)

Heldur er því boltagrúskari blaðsins að koma upp um sig með þessum klaufaskap - sök sér ef þessi klausa hefði verið með dagskrá gærdagsins, en í dag verður hún afskaplega kjánaleg.


< Fyrri færsla:
Völin og kvölin
Næsta færsla: >
Fagurfræðileg ráðgjöf óskast
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry