Fýluferð(ir) á Subway

Á föstudagskvöldið var ég grasekkill, þar sem Alex var á norðurlandinu að taka út fangaklefa og sniðglíma samstarfsfélaga út í veggi. Ég hafði ekki gert neinar ráðstafanir varðandi kvöldmat, en þar sem ég átti erindi í Nóatún ákvað ég að það væri upplagt að koma við á Subway á rölti mínu til baka.

Þegar þangað kom virtist hins vegar í gangi fermingarbarnamót, í bókstaflegri merkingu því staðurinn var fullur af gelgjum og það sem verra var, allar stóðu þær í biðröðinni og bara ein stelpa að afgreiða.

Ég stillti mér bjartsýnn upp aftast í röðinni og ákvað að gefa þessu séns. Þegar hvergi bólaði á því að neinir aðrir væru að vinna á staðnum og þegar fleiri fermingarbörn rjátluðust linnulítið inn og þvældust einhvern vegin fram fyrir í röðinni undir yfirskini kossa og knúseringa, en ílengdust svo þar, tók minn að ókyrrast.

Ríkjandi ofmeikunarstemmning gelgjanna ýtti líka undir vaxandi ókyrrð mína og ég fékk á tilfinninguna að ég væri fastur í þætti af the twilight zone. Ekki svo að skilja að gelgjurnar væru endilega ofmálaðar, heldur ofmeikaðar. Af hópnum stafaði krípí appelsínugulum bjarma, ekki ósvipað Sigmundi Erni á vondum degi í myndverinu.

Í þessu samhengi minnti þetta mig þó meira á ódýran geimverusjónvarpsþátt heldur en fréttahauka þjóðarinnar.

Ég þurfti alvarlega að vega og meta mikilvægi geðheilsu minnar annars vegar og hungurtilfinninguna hins vegar. Ég var farinn að sjá fram á að þótt ég fengi nú líklega mat að lokum yrði ég þá orðinn nægilega þunglyndur og uppstökkur til að það entist mér vel fram í næstu viku.

Að lokum tók ég ákvörðun, herti mig upp og forðaði mér aftur út í rigninguna.

Þar sem ég rölti fram hjá Hróa Hetti flaug mér í hug að skjótast þangað og fá mér eitthvað í svanginn, en ákvað að þrjóskast frekar við og koma aftur í Subway seinna um kvöldið þegar búið væri að fóðra fermingarbörnin, enda ekki tilbúinn að játa mig sigraðan (a.m.k. ekki gersigraðan).

Eftir að hafa dundað mér um hríð við að endurlífga tölvu foreldranna (maður kann svo sannarlega að njóta tímabundins frelsisins og lifa á brúninni) ákvað ég að skella mér í Subway og reyna aftur. Þá hafði heldur bætt í rigninguna og ég ákvað að vera latur og fara á bíl.

Þegar ég hafði lagt bílnum og nálgaðist fyrirheitna samlokustaðinn sá ég að það myndi ekki langt í lokun þar sem byrjað var að raða stólum upp á borð, en klukkan átti enn eftir kortér í níu þannig að ég þóttist nokkuð seif um að koma ekki að lokuðum dyrum. Bjartsýni min jókst við það að hvergi var að sjá appelsínugulu furðufyrirbærin sem fyllt höfðu staðinn í fyrri atrennunni auk þess sem afgreiðslustúlkurnar voru núna orðnar tvær.

Í góðri trú stillti ég mér því upp á tilskildum stað, þess albúinn að panta mér eitthvað gómsætt, heitt í grófu brauði.

Þess í stað var mér tilkynnt að þær ættu ekki eftir nema hálft brauð. Því til sannindamerkis var mér sýnt umræddur brauðhelmingur, náfölur og vesældarlegur.

Gott ef helvítið var ekki örlítið appelsínugult...

Ég hrökklaðist því aftur út í nóttina og regnið. Matarlaus og miður mín.

Endaði hjá Tomma.


< Fyrri færsla:
Fagurfræðileg ráðgjöf óskast
Næsta færsla: >
Frekar síðbúið plögg
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry