Ekki hættur enn...
03. nóvember 2007 | 1 aths.
Líkt og glöggir (og þrautseigir) lesendur hafa kannski tekið eftir hefur ekki verið mikið um færslur hér upp á síðkastið. Til dæmis sýnist mér bara tvær færslur hafa litið dagsins ljós í október, sem gerir víst 2/31 á dag. Sem er... eitthvað frekar lítið.
Þetta stafar þó ekki af fráfalli höfundar né áfalli af neinu tagi, né heldur því að ég hafi ákveðið að hætta dagbókarfærslum.
Ég hef bara ekki skrifað neitt.
Það hefur ýmislegt smálegt á dagana drifið og oft hef ég byrjað að semja dagbókarfærslur í huganum, en einhverra hluta vegna hefur ekkert orðið úr því.
En nú ætla ég að reyna að lagfæra örlítið hina innri skuldastöðu og ryðja út úr mér helstu atburðum októbermánaðar sem ógetið er.
Október í stuttu máli
Af heimilishaldi er það helst fréttnæmt að við erum komin með nýtt svefnherbergi. Veggir, loft og gólf eru þó að mestu hin sömu og áður, nema hvað veggirnir eru ekki lengur í tveimur grænum tónum heldur einum drapplitum.
Við ruddum sem sé út gömlu fataskápunum sem fylgdu íbúðinni (og ég hafði málað í þriðja ljósgræna tóninum), máluðum upp á nýtt og skelltum upp nýjum IKEA skápum.
Sögnin að skella upp er kannski ekki alveg réttnefni, þar sem þetta tók nú drjúga stund af ýmsum orsökum. Þar er helst í frásögur færandi að ég féll á gáfnaprófi IKEA og sendi Alex greyið í leiðangur að útvega fleiri lamir, enda taldi ég á fingrum beggja handa einsýnt að við hefðum fengið rangt talið.
Þegar hún kom svo aftur við illan leik kom auðvitað í ljós að allt var þetta vitleysa í mér og að engin þörf var á því að setja lamir báðum megin á hverja hurð.
Einhversstaðar eru kannski til ljósmyndir frá atganginum sem hugsanlega gætu ratað á netið við tækifæri.
Helgina eftir fór betri helmingurinn á ráðstefnu í hinu stóra útlandi Baltimore og ég notaði tækifærið til að troða upp í Borgarleikhúsinu.
Myndir af ferðalagi Alex eru löngu komnar í myndasafnið og sjálfum gekk mér prýðilega í litlum (en gríííðarlega mikilvægum) rullum í tveimur einþáttungum.
Í vikunni eftir að ég nefndi fund minn með alnafna mínum átti ég fund þar sem annar alnafni var boðaður, en lét reyndar ekki sjá sig.
Annars er fátt fréttnæmt úr vinnunni. Við erum reyndar búnir að vera að opna slatta af nýjum vefsvæðum, t.d. Nóatún.is, nýjan vef Þjóðminjasafnsins, Tanni.is og eitthvað fleira sem ég er að gleyma.
Síðastliðinn þriðjudag tróð ég upp á ráðstefnu um lófatæki (e. mobile devices) á vegum Skýrslutæknifélagsins við gríðarlegar undirtektir. Glærusjóið mitt er hægt að sjá á ofangreindri slóð (en án minnar hljómfögru raddar).
Af vettvangi Hugleiks er helst að ég kláraði að koma í gagnið rafvæddum bókunum á æfingahúsnæðinu, sem hefur bara gengið vonum framar.
Ég er líka búinn að taka að mér að verða sýningarstjóri á sýningum á Útsýni sem verður frumsýnt eftir áramót. Þar mun ég eflaust verða á miklum þönum við að fylla á barinn og ausa vatni yfir leikara.
Jólaklámþátturinn sem ég hafði einsett mér að klára fyrir lok október hefur hins vegar lítið þróast í þá átt. Stefni enn á að taka skurk í honum.
Athugasemdir (1)
1.
Sigga Lára reit 05. nóvember 2007:
Ah. Svo þú færð að blanda Ríbena-ið. Ég held það sé ennþá eitthvað eftir af því á Eyjarslóðinni síðan Ríbena-árið mikla.
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry