Gömlu góðu natríumsprengingarnar

Natríum er málmur sem hvarfast greiðlega ef hann kemst í snertingu við vatn. Við efnahvarfið verður til vetnisgas og töluverður varmi losnar, sem aftur getur leitt til þess að vetnisgasið brenni/springi sem veldur meiri hita og eykur yfirborð málmklumpsins.

Með öðrum orðum; ef nægilegt magn af natríum kemst í vatn verður sprenging.

Það var ekkert fiktað með natríum í mínum menntaskóla, en mig rámar í sögur af því að einhverjir á mínu reki í ME hafi stolið stórum klumpi og hent í skúringarfötu fulla af vatni með þeim afleiðingum meðal annars að augabrúnir hafi átt að hafa sviðnað af þeim.

Í háskólanum umgengumst við natríum af töluverðri virðingu, það var helst að það væri notað til að losna við raka úr ákveðnum lífrænum vökvum (sem eru í eðli sínu eldfimir, þannig að þetta þurfti að gerast með varúð).

Hvellir í Kvennó

Í Kvennó var það hins vegar lenska að kennararnir létu smá örðu af natríum í vatn í petri-glasi, gjarnan ofan á myndvarpa þannig að allur bekkurinn sæi hvernig vatnið snarkaði í kringum málminn sem barst um allt.

Ég prófaði mig áfram með þetta og komst að því að ef maður var með natríummola á stærð við baun og hnoðaði saman í kúlu var hægt að fá smell á borð við spottasprengju ef hún var sett í vatn.

Ef molinn var ekki nógu stór varð bara hviss, þannig að maður reyndi aftur með örlítið stærri mola.

Í einum fyrsta bekknum gerði ég þetta og hafði sem betur fer fært mig yfir á borð til hliðar og bannað nemendum að koma of nálægt. Þegar smellurinn kom varð hann á borð við þokkalegan flugeld, glæringar þeyttust upp úr glasinu og stofan fylltist af reyk.

Mér krossbrá, en lét ekki á neinu bera og lauk tímanum og smalaði nemendum út, líka þeim sem vildi meina að það hefði logað í loftinu. Ég veit ekki betur en það séu enn greinilegir brunablettir eftir mig í lofti efnafræðistofunnar í Kvennó, í hátt í fjögurra metra hæð.

Natríum á stærri skala

Um það leyti sem ég var í Háskólanum var drifið í að farga tunnu af natríum sem einhver hafði "gefið" skólanum - og reyndist bjarnargreiði því það voru engin not fyrir allt þetta magn. Ég man ekki neinar tölur um magn, en þetta voru einhverjir tugir kílóa.

Mér skilst að það hafi verið farið með það út á trillu og látið gossa í sjóinn svo úr varð þokkalegur smellur.

Þó varla jafn mikill og þegar 10 tonnum var eytt í Bandaríkjunum eftir seinni heimsstyrjöld:

Fengið af FullyGeek.


< Fyrri færsla:
Endurhönnun nokkurra lógóa
Næsta færsla: >
Bragð af Danmörku
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry