Virkilega praktísk græja

Eftir ábendingu á 37 Signals blogginu kíkti ég á þjónustuna VectorMagic sem virðist þróuð í Stanford háskóla.

Þetta er ókeypis þjónusta sem tekur bitmap mynd og gerir sitt besta til að breyta henni í vektora sem síðan er hægt að sækja til að vinna með í teikniforritum.

Með því að fara í gegnum einfaldan wizard fást yfirleitt lygilega góðar niðurstöður. Best virðist græjan standa sig í lógóum (kannski skiljanlega), en á þó í ákveðnu basli með gradíenta, þótt því sé auðvelt að breyta í áframhaldandi vinnslu.

Í tilraunaskyni tók ég lógóið af Hugleiksvefnum og prófaði að láta VectorMagic spreyta sig. Frummyndin er ekki nema 70 pixlar á hæð, en vektoramyndin sem út úr þessu kom er lygilega skörp:

Lógó Hugleiks fyrir og eftir vektorun

(Þetta er skjáskot af afrakstrinum í tæpri fimmföldun.)

Ég sé fyrir mér að þessi þjónusta eigi eftir að gagnast mér vel bæði í vinnu og leik, enda merkilega oft sem maður er að fást við mynd í döprum gæðum sem þarf að skerpa eða vinna meira með.

Það verður til dæmis spennandi að bera saman SVG útgáfuna sem ég bjó til þarna á VectorMagic við opinberu SVG skrána sem Siggi formaður ætlar að senda mér svo ég geti krukkað í prentgripum sem ætlunin er að búa til.

Brill.

Ending rafhlaðna

Þessu alls óskylt, í færslu 37 Signals er líka vísað á fróðleik um rafhlöðuendingu. Þar fullyrðir höfundurinn að öfugt við "gamaldags" NiCd og NiMH hleðslurafhlöður, þá eigi að hlaða Li-ion rafhlöður eins oft og mögulegt er og ekki láta þær tæmast.

Þumalfingursreglan er að sívalar hleðslurafhlöður eru annað hvort NiCd eða NiMH, en sérsniðnar rafhlöður eins og í litlum myndavélum, farsímum og fartölvum eru yfirleitt Li-ion.

Beturvitinn ég getur svo skotið því að hér að Tesla sportbíllinn (sem fer 0-100 á 4 sek.) byggir líka á sérþróuðum Li-ion rafhlöðum.


< Fyrri færsla:
Ég sem lektor?
Næsta færsla: >
Facebook á vinnutíma
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry