Nokkuð tíðindalítil helgi

Pabbi og mamma voru í borginni um helgina og við Alex buðum þeim, Halldóru og Vilborgu í mat á föstudaginn (Elli í vinnuferð í Svíþjóð). Alexandra galdraði fram kjúklingarétt sem sló í gegn og þótt Vilborgin hafi stundum verið í meira stuði kvöddu allir brosandi.

Á laugardeginum fínpússaði ég svo smá uppsetningarvinnu fyrir Hugleik, bókamerki og nafnlaus "nafnspjöld" með dagskrá leikársins. Ég setti þetta upp í Inkscape, bæði á Stubb og Surtlu (makki og pési). Stubbur er með fleiri leturgerðir en á móti er Surtla með meira skjápláss og þar tókst mér að vista PDF útgáfur (var eitthvað bilað makkamegin).

Síðan komu Már og Jón Heiðar í heimsókn um kvöldið undir yfirskini spilakvölds. Svo fór að við borðuðum saman, drukkum drjúgan slatta af bjór og kjöftuðum um alla heima og geima - en spiluðum ekki neitt...

Sunnudagurinn hefur síðan farið í leti, til stóð að æfa nýjan jólatengdan einþáttung sem ég lauk nýlega við að skrifa - en sú æfing féll niður. Umræddur einþáttungur, Kortér í sex, sem gerist í kynlífshjálpartækjaverslun í jólaösinni verður frumsýndur í Þjóðleikhúskjallaranum á jóladagskrá Hugleiks í byrjun desember - nánar um það seinna.

Innrauðir fingur

Gegnum Adaptive Path bloggið rakst ég á þetta vídeó með snjallri notkun á Wii fjarstýringu til að nema fingurgóma í lausu lofti.

Þetta minnir auðvitað á Minority Report, en rifjar upp fyrir mér leikinn sem félagar mínir unnu sem sérverkefni eftir fyrsta (og eina) Java kúrsinn sinn. Þar notuðu þau venjulega vefmyndavél og rauða hanska til að stýra geimflaug gegnum hlykkjótt göng. Merkilega vel gert á fjórum vikum af byrjendum í forritun.

Nördar rúla.


< Fyrri færsla:
Facebook á vinnutíma
Næsta færsla: >
Lykilorð og friðhelgi
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry