Novavefurinn veldur vonbrigðum
01. desember 2007 | 7 aths.
Ég verð að viðurkenna að ég var ekki alveg að fatta auglýsingarnar um opnun stærsta skemmtistaðar í heimi, Nova. Það var ekki fyrr en í morgun (lesist: fljótlega eftir hádegi) að ég kveikti á því að þetta væri símafyrirtækið Nova.
Nova er búið að vera lengi í fæðingu og lagt mikla áherslu á að ljóstra ekki upp þeim spennandi nýjungum sem þeir ætluðu að bjóða upp á. Eftir að hafa kíkt á vefinn þeirra og lesið þeirra eigin frétt um opnunina virðist nýjungin vera... MSN!
Geðveikt.
Jú og tónlist meðan ég bíð eftir að vinir mínir svari.
Sem vefnörd hafði ég haft pata af því að það ætti að setja upp nýjan Nova vef í SharePoint (Microsoft græja sem var upphaflega ætluð sem skjalageymsla en þróaðist í að vera innrivefs-lausn). Ég var því forvitinn að sjá hvernig til hefði tekist á nýjum vef.
Aðaláherslan virðist vera á sketsa með Þorsteini Gunnarssyni Guðmundssyni. Hann er vissulega fyndinn sem karakterinn sem kann ekkert á netið eða farsíma, en ég er ekki alveg að fatta hvort vefurinn sjálfur á að vera paródía á fyrirtæki sem kunna ekki að búa til vefsvæði.
Forsíðan er Mystery meat splash-flash af bestu gerð. Forsíða sem gengur eiginlega út á það að maður bíði eftir að Þorsteinn klári brandarana í stað þess að hvetja mann til að byrja að gera eitthvað.
Ég sem vefráðgjafi hefði frekar ráðlagt þeim að nota forsíðuna í að útskýra hvað fyrirtækið gerði og hvað ég sem neytandi græði á því að eiga í viðskiptum við þá...
Æi, þetta lyktar af auglýsingastofu flippi.
Tómleg undirsíða
Þegar ég smellti mig fram hjá Þorsteini tók þessi síða við:
Einhvern vegin fékk ég á tilfinninguna að það vantaði þarna eitthvað...
Það var ekki fyrr en á þriðju eða fjórðu tómu síðunni, sem að ég fékk tilkynningu um að ég þyrfti Flash 9 til að opna innihaldið. Einhver hefur gleymt að setja version-detection á hinar síðurnar.
Að því loknu blasir þessi dýrð við:
Aftur fer stærstur hluti plássins í sketsana hans Þorsteins, meðan aðgerðasvæði eru "dulbúin" sem auglýsingar, svolítið í Netvistunarstíl:
Á síðunni "Þjónusta" er slagorðið "Höfuðborgarsvæðið hefur aldrei verið heitara", en ef ég reyni að lesa meira um það fæ ég skilaboðin:
Úps, vefslóðin http://ytri/tjonusta/pages/tjonustuleidir.aspx
er víst ekki virk utanhúss. Soldið pínlegt.
Leiðarkerfið og kúlið
Ég skal viðurkenna að ég er kannski ekki í markhópnum, orðinn rúmlega þrítugur og allt það - en mér finnst að leiðarkerfi eigi að vera skiljanlegt frekar en kúl.
Aðalflokkarnir á Nova.is heita:
Þjónusta | Barinn | Skemmtun | Stóllinn | Baksviðs
Augljóst, ekki satt?
Ef ég fer hins vegar með músina yfir þessa tengla fæ ég "tooltip" sem skýra að þetta er í raun:
Þjónusta | Vefverslun Nova | Skemmtun | Mitt Nova | Um Nova
Ég veit ekki hvort þetta voru flokkanöfnin sem menn ætluðu að hafa en skiptu á síðustu stundu út fyrir eitthvað meira "töff", eða hvort einhver hafði rænu á því að töffaraskapurinn væri kannski ekki skiljanlegur og reyndi að bæta við skýringum um það hvað væri hvað.
Aftur, ég er kannski gamaldags en mér finnst ekkert að því að nota bara orðalagið í þessari neðri línu. Það er svo alveg hægt að kalla "Mitt Nova" líka Stólinn þegar ég kem inn á þann flokk.
Töfludýrð og aðgengileiki
Verandi ekki bara vefnörd heldur líka html-nörd stóðst ég ekki mátið og skoðaði aðeins kóðann sem kemur frá SharePoint.
Eins og frægt er orðið er SharePoint alræmt fyrir að notast mikið við html töflur. Html töflur eru almennt taldar gamaldags og úreldar, enda erfiðar í viðhaldi og gera síður óþarflega þungar.
Nova nær reyndar ekki að toppa Vista vef M$ sjálfs í töflufylleríum, en á tómri síðu eins og þessari...
eru engu að síður 34 töflur. Ég nennti ekki að rýna mikið í það hversu djúpt þær liggja, en það er einhver góður slatti af töflum inni í töflum sem eru inni í töflum...
Ég upplifi líka vefinn allan sem frekar þungan í vöfum sem gæti skýrst af töflunum, en kannski er bara svona mikið álag á vefþjóninum (allir voða spenntir að skoða og svona).
Kóðinn að baki umræddri síðu með 34 töflunum, "Baksviðs", eru rúmlega 35 þúsund tákn, meðan samsvarandi síða á siminn.is eru rúmlega 10 þúsund tákn og án allra taflna. (Þetta er bara quick-n-dirty greining, sem tekur ekkert tillit til hugsanlegra viðhangandi skráa. Síminn sækir t.d. allt Prototype safnið.) Hins vegar er þetta vísbending um að SharePoint sé að skila töluvert "þyngri" kóða en þörf krefur.
Áfram í nördagírnum, ef ég slekk á CSS birtingu fæ ég upp þrjá valmöguleika: Turn on more accessible mode, Skip to main content, Turn off more accessible mode sem greinilega eru ætlaðir fyrir lesvafra sjónskertra notenda.
Hins vegar get ég ekki séð að neitt gerist þótt ég smelli á Turn on..., þótt það ætti að keyra upp hin áhugaverðu javascript föll SetIsAccessibilityFeatureEnabled(true)
og UpdateAccessibilityUI()
.
Auðvitað er ég ekki að nota lesvafra, þannig að það getur verið að eitthvað geðveikt flott sé í raun að gerast bak við tjöldin, en satt best að segja finnst mér það að þessir valmöguleikar skuli vera á ensku benda til þess að þetta sé eitthvað sem fylgir með SharePoint og enginn hafi haft fyrir því að stilla eða nýta.
Játning tuðarans
Ég er meðvitaður um það að á svona stórum vef eru alltaf einhverjir hnökrar við opnun og að alltaf er um að ræða málamiðlun milli markaðsfólksins sem vill eitthvað "flott" og þeirra sem hafa skilning á vefnum.
Hins vegar veldur það mér vonbrigðum miðað við hvað þessi vefur er búinn að vera lengi í fæðingu hversu margir hnökrarnir eru.
Vonandi eru þetta bara smá byrjunarörðugleikar og að innkoma Nova á fjarskiptamarkaðinn eigi eftir að skila sér í alvöru samkeppni okkur neytendum til hagsbóta.
Uppfært: Þegar ég skoða vefinn í glænýja makkanum hennar Alexöndru eru allar milliforsíðurnar tómar, en ég fæ ekki tilkynningu um að nýjasta Flash playerinn vanti. Enda komst ég að því við að kíkja á vef Adobe að hún er með nýjasta spilarann. Feit mínusstig í kladdann hjá Nova.
Athugasemdir (7)
1.
hildigunnur reit 01. desember 2007:
Stendur í alvöru Stóllin, með einu enn-i?
2.
Sigurjón reit 01. desember 2007:
"Æi, þetta lyktar af auglýsingastofu flippi."
Nákvæmlega.
3.
siggi reit 01. desember 2007:
Amen.
úff... Ég er orðlaus, ég var einmitt að skoða þennan vef í gærkvöldi. Það er eitt að búa til vonlausa "flippaða" herferð fyrir fyrirtæki sem er búið að skapa sér nafn, en að ætla að skapa sér nafn og ímynd með þessu. Burtséð frá því að við séum ekki í markhópnum (sem við ættum að vera ef nova vildi græða) þá er þetta eins og þú bendir á gríííííðarlega illa unnið óháð innihaldinu og koseftinu.
Þetta er auglýsingarstofublóðrúnk af verstu sort... Eru "Dagur og Steini" auglýsingastofa (sjá síðu 2-3 í fréttabl. í dag, sem er efni í annan pistil).
ps. Er nova.is vodafone?
4.
Þórarinn sjálfur reit 01. desember 2007:
@hildigunnur: Nei, þetta var innsláttarvilla hjá mér. Stólinn er það.
5.
Þórarinn sjálfur reit 01. desember 2007:
@siggi: Nei, en Vodafone og Nova eru með samstarfssamning, þannig að þau nýta hvors annars símakerfi. Vodafone á 2G kerfi og Nova 3G.
Gott að vita að ég er ekki sá eini sem hangi á netinu á laugardagskvöldi...
6.
Huld reit 01. desember 2007:
Hahaha, nei við erum víst nokkur sem höngum á netinu á þessum helgasta tíma vikunnar... erum við þá ekki í markhópnum?? Nú getum við komist á "barinn" hjá nova.is á laugardagskvöldum... sem er skemmtistaður fyrir fólk eins og okkur!
7.
arnar reit 04. desember 2007:
Er þetta bara ég, eða er DJ Nova léleg útgáfa af SuperGreg sem gerði allt vitlaust í árdögum Netsins?
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry