Hver stal jólunum?

Eitt af því fáa sem huxandi Íslendingar virðast óttast meira en ævarandi kynjastimpilinn sem fylgir litum barnafatnaðar á fæðingardeildum er hin hatramma herferð gegn litlu jólunum.

Reglulega skýtur það viðhorf upp kollinum þegar rætt er um stöðu trúarbragða og hið títtnefnda fjölmenningarsamfélag að hætt sé við því að "við" þurfum að gefa frá okkur jólahátíðina til að móðga örugglega ekki önnur trúarbrögð en kristni.

Þetta er líklega að einhverju leyti innblásið af umræðu í Bandaríkjunum þar sem réttþenkjendur hafa stuðlað að því að talað sé um "the holidays" frekar en Kristsmessu.

Jólin byggja hins vegar á þrælheiðnum merg og í skandinavíu heldur hin kristna hátíð enn sínu heiðna nafni; jól.

Nú þykist ég ekki vera mikill sérfræðingur í trúarbragðasögu, en veit þó að þegar hin kaþólska kirkja fór að breiða út sína útgáfu af kenningum Krists var hún dugleg við að innlima hugmyndir úr öðrum trúarbrögðum inn í sitt trúboð - þar á meðal aðalhátíð þjóða sem bjuggu norðar á jarðkringlunni, vetrarsólstöður.

Síðan hefur goðsögnin um fæðingu barns í helli auðvitað fyrir löngu drukknað í holskeflu jólagjafa, jólahlaðborða, jólastress, jólasöngvasíbylju Björgins Halldórssonar og feitra manna í rauðum fötum.

Þannig að ef hatrömm samtök ætla nú að stela jólunum af kristninni sem áður stal þeim af heiðingjunum, jólum sem mammon er í raun löngu búinn hafa af kirkjunni, hvert er þá fórnarlambið?

Trölli?


< Fyrri færsla:
Frekar öfgakenndur samanburður
Næsta færsla: >
Rafræn jólakveðja 2007
 


Athugasemdir (1)

1.

hildigunnur reit 06. desember 2007:

hehe, ætli það ekki bara?

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry