Makki í megrun
11. febrúar 2008 | 2 aths.
Makkinn minn (Mini, gegnir nafninu Stubbur) er með 55,4 GB harðan disk, og af honum fer um helmingurinn (28 GB) undir tónlistarsafnið. Þótt ég hafi ekki verið að vista stór skjöl á honum svo neinu nemi, var staðan þó sú að í gær átti ég ekki nema um 3 GB laus (um 5%).
Helst vil ég eiga a.m.k. 10% laus, þannig að ég fór í smá tiltekt - sem tókst bara glettilega vel.
Ég á lausan (utanáliggjandi) harðan disk, sem ég tek afrit á þegar ég man eftir en er öllu jöfnu ekki með kveikt á honum. Það kæmi auðvitað til greina að skipta tónlistarsafninu í tvennt og setja "ómerkilegri" hluta þess á lausa diskinn, en ég ákvað að prófa fyrst að láta tónlistarsafnið óhreyft.
Lykilgreinar sem fundust með aðstoð Google:
Fyrstu skrefin voru að tæma allar skrár úr Downloads möppunni minni (þar á meðal slatti af uppsetningarskrám fyrir forrit sem ég er búinn að setja upp), henda út vídeóskrám sem ég er búinn að horfa á og fleira í þeim dúr.
Svo notaði ég WhatSize forritið til að finna út hvað væri fleira að taka upp óþarfa pláss á harða disknum.
Ég er ekki með DVD brennara í tölvunni minni, þannig að ég sé ekki fram á að nota iDVD forritið mikið. Og þótt ég hafi haft lúmskt gaman af síðustu tilraunum við tónsmíðar úr hljóðbútum sé ég ekki fram á mikla notkun á Garage Band.
Ég henti hvorugu forritinu, en þeim tilheyra tæplega 4 GB af "Application Support" skrám, sem ég þjappaði og færði yfir á lausa diskinn.
Stubbur hefur enn ekki verið tengdur við prentara, en Alex á prýðilegan HP prentara sem er hérna á skrifstofunni. Ég þjappaði því prentaraskrám fyrir aðra prentaraframleiðendur en HP og flutti sömuleiðis yfir á lausa diskinn.
Með aðstoð Monolingual forritsins fjarlægði ég svo slatta af tungumálaskrám (þar á meðal fyrir Klingonísku!), held eftir ensku, íslensku og nokkrum lykiltungumálum.
Eflaust munu einhverjir makkafanatíkerar súpa hveljur yfir ósvífninni, en í leiðinni ákvað ég að fjarlægja iWorks forritin, Keynote og Pages með aðstoð CleanApp forritsins. Ég er með Neo Office uppsett og Surtla með MS Office er í 50 cm netsnúru fjarlægð. Ef ég ákveð að kaupa mér iWorks og fara að nota yrði það hvort eð er nýjasta útgáfan (og sú sem fylgdi með tölvunni er orðin úreld).
Til að gæta kosmísks jafnvægis henti ég líka út Microsoft Office Test Drive.
Niðurstaðan? Eftir að hafa keyrt sudo tiltektina eru núna um 18 GB laus, sem er rúmlega 32% af disknum, svo ég get órauður haldið áfram að sækja mér tónlist af eMusic.
Athugasemdir (2)
1.
Adalsteinn reit 13. febrúar 2008:
Tak fyrir thessar gafulegu upplysingar. Eg mun gera mina vorhreingerningu i dag.
kv. Steini.
2.
Þórarinn sjálfur reit 09. maí 2008:
Smá ábending, eftir að hafa hent GarageBand skránum út úr Application Support, hættir það að virka. Hins vegar dugir að hafa tómar möppur þar, sömu möppur og lenda undir /user/Library/Application Support ... (copy paste til bjargar).
Þá fer forritið að virka aftur, en auðvitað án allra lúppa.
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry