Frumsýning nálgast óðfluga

Þetta er búin að vera letileg páskahelgi, næstum þannig að maður skammist sín fyrir.

Fjölskyldan hefur öll verið í bænum þar sem pabbi og mamma komu að austan og Margrét er komin til Íslands í um mánaðarfrí frá skólanum. Við Alex buðum öllu genginu í mat á föstudaginn langa og það heppnaðist prýðilega. Annars hefur páskahelgin aðallega einkennst af útsofelsi og rólegri tíð.

Ég manaði mig þó í að kíkja á skattskýrsluna. Sótti um frest.

Í kvöld hefst svo formlega endasprettur æfinga á leikritinu 39½ viku. Það er ýmislegt sem á eftir að smella saman fyrir frumsýningu á föstudaginn, þannig að ég geri ráð fyrir löngum kvöldum næstu daga.

Æfingatímabilið hefur hingað til einkennst af fjarvistum margskonar, það hefur verið hending ef allir leikarar hafa t.d. komist á rennsli vegna veikinda, útlandaferðalaga eða annarra skuldbindinga.

En það hefur engu að síður margt gerst og ég held að við séum þokkalega stödd fyrir lokasprettinn - sem reynslan hefur kennt manni að reynist yfirleitt merkilega drjúgur þegar leikuppfærslur eiga í hlut.

Mín sviðsnærvera er svo sterk að leikstjórarnir hafa lagt á það mikla áherslu á að fjölga senum þar sem mér bregður fyrir. Í stað þess að vera aðeins í tveimur senum eins og upphaflega handritið gerir ráð fyrir kemur kúgaði eiginmaðurinn Guðmundur nú fram fjórum sinnum, auk þess sem ég kem fram í cameo hlutverki grísks flagara - sem er auðvitað klisju-typecast af verstu sort, en ég kann ekki við að kvarta.

Eins og áður segir er frumsýnt núna á föstudaginn og sýningarplanið er eftirfarandi:

  • Fös. 28/03 kl. 20:00
  • Lau. 29/03 kl. 20:00
  • Sun. 30/03 kl. 20:00
  • Fim. 03/04 kl. 20:00
  • Fös. 04/04 kl. 20:00
  • Sun. 06/04 kl. 20:00
  • Fim. 10/04 kl. 20:00
  • Sun. 13/04 kl. 20:00
  • Mið. 16/04 kl. 20:30

Aðdáendum mínum er bent á að ég verð fjarri góðu gamni á sýningunni 10. apríl - enda staddur austur á meginlandinu. Hins vegar sýnir það hversu veigamikið hlutverk mitt er að staðgengill er til taks - en eins og glöggir menn vita er það aðeins fyrir burðarhlutverk sem æfðir eru upp staðgenglar.

Sjáið mig í Möguleikhúsinu við Hlemm eða verið jafnhliða ferhyrningar ella!


< Fyrri færsla:
Góð hugmynd, en...
Næsta færsla: >
Hönnun verð launa
 


Athugasemdir (1)

1.

Óskar Örn reit 25. mars 2008:

Myndi vitaskuld maeta ef landafraedin hamladi ekki. Poj poj!

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry