Góð hugmynd, en...

Hugmyndin um að taka saman brot af gömlum grínmolum, áramótaskaupum og gamanþáttum úr safni sjónvarpsins, er prýðileg - en mér þótti framsetningin alls ekki vera eins og efnið átti skilið.

Mig minnir að Hjálmar Hjálmarsson hafi verið fyndinn í gamla daga þegar hann var með að byrja með Ekkifréttirnar, en ef marka má þennan þátt er hann það ekki lengur.

Eftir að hafa engst í gengum þrjár fyrstu kynningarnar og fylgst með Hjálmari hlæja tilgerðarlegum hlátri að endurtekningu á eigin atriði, spyrja einhvern utan myndar um það hvernig ætti að haga þættinum auk fleiri tilþrifa í þeim dúr vorum við alvarlega við það að skipta um stöð.

Mér hugkvæmdist hins vegar sú snilldarhugmynd að taka hljóðið af kynningum Hjálmars og setja það aftur á þegar einhver annar birtist á skjánum.

Hafi kynningarnar hans skánað eftir þá þriðju veit ég því ekki af því.

Þótt þátturinn hafi verið nauðaeinfaldur í uppsetningu tók ég eftir því að kreditlistinn var frekar langur. Ég hefði óskað að einhver á þeim lista hefði tekið af skarið og bent Hjálmari á að þessar kynningar hans voru bara ekki að gera sig (a.m.k. ekki þrjár þær fyrstu).

Gömlu atriðin voru hins vegar bráðskemmtileg og mörg þeirra kunni maður næstum orðrétt, enda frá gullaldarárum áramótaskaupanna þegar hópurinn sem síðar varð að Spaugstofunni hélt uppi gríninu og öll myndbandstæki þjóðarinnar stóðu sína áramótaplikt samviskusamlega.

Ég er ekki viss hvort ætlunin er að vera með fleiri svona þætti, en þá vona ég að grínið fái tvöfalt meira vægi og einkaflipp kynnisins skorið niður sem því nemur.

Eftir á að hyggja þá var kannski viss vísbending um efnistök fólgin í dagskrárlýsingunni:

Hjálmar Hjálmarsson kynnir gamanefni úr safni Sjónvarpsins

Þarna stendur ekki að HH muni sýna gamanefni úr safninu, heldur kynna það. Mea culpa.


< Fyrri færsla:
Vasavikan er hafin
Næsta færsla: >
Frumsýning nálgast óðfluga
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry