Hönnun verð launa

Þannig er mál með vexti að á vinnustað Alexöndru, dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, er árlega sérstakur tiltektardagur þar sem ryki er dustað úr skúmaskotum og lagakrókum. Til að koma stemmningu í mannskapinn er búinn til sérlegur stuttermabolur á hverju ári.

Í ár var efnt til samkeppni um bestu hönnunina og verðlaunin gjafabréf á Humarhúsið.

Þótt sambýliskonan sé ekki mikið fyrir sjávarfang, gegnir öðru máli um humar og þegar við bætist óbilandi keppnisskap var ljóst að allt kapp yrði lagt á að vinna til þessara verðlauna.

Af okkar heimili bárust því fimm ólíkar tillögur í keppnina, unnar í mismikilli samvinnu okkar hjónaleysanna.

Tölfræðin var okkur í hag, enda áttum við helming innsendra tillagna, og svo fór að útfærsla að mestu unnin af mér varð fyrir valinu. Þess má geta að hún var að hluta inspíreruð af því að ég hafði fyrr það kvöld horft á heimildarmyndina Helvetica (sem er bráðskemmtileg fyrir hönnunarnörda), en til að flýta fyrir var hún sett upp í Arial Black til að byrja með.

Þegar valið lá fyrir og ég tók að mér að hreinteikna tillöguna kom í ljós að ég átti eiginlega ekki nægilega þykka útgáfu af Helvetica, svo Arial varð niðurstaðan þótt hreintrúaðir kunni að fussa yfir því vali.

Ég held að hugmyndin skýri sig að mestu sjálf, en þess má þó geta að DKM er formleg skammstöfun ráðuneytisins.

Tiltektardagur DKM 2008

Nú er sem sé búið að þrykkja gripinn í ótal eintökum (ég fékk meira að segja einn). Formleg frumsýning verður svo á morgun þegar bolunum verður flíkað í tiltekt - sama dag og leikritið verður frumsýnt.

Generalprufan var núna í kvöld og gekk bara mjög vel. Lofar góðu fyrir frumsýninguna á morgun.

Gjafabréfið á Humarhúsið hefur þegar verið étið og drukkið út með miklum sóma, helst að hægt væri kvarta yfir því að við höfum bæði borðað hressilega yfir okkur.


< Fyrri færsla:
Frumsýning nálgast óðfluga
Næsta færsla: >
Frumsýning að baki
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry