Heimaleikfimi er heilsubót

Sitthvað sem ég hef verið að fikta undanfarna daga.

Körfuboltaugla

Pabbi og mamma verða 40 ára stúdentar í sumar og hluti af fyrirhuguðu prógrammi er körfuboltaleikur við lið kennara.

Pabbi sendi mér póst um daginn og spurði hvort ég væri fáanlegur til að púsla saman einhverju lógói fyrir þá. Ég tók að mér að græja eitthvað og var með óljósa hugmynd í kollinum að ugluvængjum yfir körfuhring (ugla er tákn MA).

Ég var fljótur að finna SVG mynd af körfubolta og leit að mynd af ugluvængjum á Google leiddi mig að þessari:

Barred Owl
(frummynd)

(Hér hefðu aðvörunarbjöllur um að ég væri að leggja af stað með allt of metnaðarfullar hugmyndir kannski átt að hringja, en það gerðu þær ekki.)

Svo notaði ég Inkscape til að teikna útlínur annars vængsins og spegla hann síðan.

Ugluhöfuðið var hins vegar svolítið vandamál og eftir nokkrar misheppnaðar tilraunir ákvað ég að leita að mynd af meira einkennandi ugluhöfuði. Hornugla lá best við (enda hæfilega illþyrmileg fyrir íþróttalógó) og þessi mynd var nægilega skýr til að amatör eins og ég ætti að geta teiknað eftir helstu einkennum:

Horned Owl
(frummynd)

Það er auðvitað klassískt vandamál að greina á milli aðal- og aukaatriða þegar verið er að teikna upp svona lógó (sér í lagi þegar maður er ekkert allt of lipur á verkfærið sem notað er). Hvort ég valdi endilega réttar áherslur skal ósagt látið, en hér er ugluhöfuðið mitt í endanlegri útgáfu:

Ugluhöfuð

Það að fylla út í vængina reyndist bölvað bras. Frummyndin hér að ofan er augljóslega allt of flókin, en ég var töluverða stund að prófa mig áfram með ólíka möguleika í því að fylla inn í útlínurnar með smekklegum hætti.

Niðurstaðan varð sú að teikna einfaldlega línur sem minntu á lögun fjaðranna og skella svo bara einföldum gradíentum bæði á vængi og bringu. Drapplitirnir voru bara gripnir úr lausu lofti, en virka hæfilega trúverðugir.

Það að græja stafina var svo það fljótlegasta af þessu öllu. Þeir eru bara tvö lög, annað með bláum grunnlit og útlínum - hitt með gradíent frá svörtu yfir í gengsætt og útlínum.

Niðurstaðan varð svo eftirfarandi (og blessunarlega var lítið mál að nota Inkscape til að vista sem PDF þannig að hægt væri að senda myndina út til umsagnar).

Merki MA 68 stúdenta

Það sem ég hef hlerað í tölvupósti bendir til að kapparnir séu mjög ánægðir með lógóið, ég bíð spenntur að sjá hvernig það reynist í prentun (og vonast til að fá kannski eintak af bol).

Hljóðmyndarsmíð

Ég leik í einþáttungi sem heitir Sessunautar í næstu einþáttungadagskrá Hugleiks (á morgun, þriðjudag, og föstudag - ég held að sýning hefjist kl. 21 í bæði skiptin).

Þátturinn gerist í bíósal og það er kommentað á kvikmyndatreilerana sem eru í gangi, þannig að það þurfti augljóslega að búa til einhvers konar hljóðmynd í samræmi við það.

Ég tók að mér að græja bæði nokkra treilera og hljóð fyrir myndina sjálfa sem gæti mallað undir spjalli persónanna.

Reyndar renndi ég töluvert blint í sjóinn, þar sem ég hef aldrei gert neitt þessu líkt áður - en eftir töluverðar tilraunir er ég orðinn mjög sáttur við árangurinn.

Það lá í augum uppi að nota Makkann í þetta, sér í lagi þar sem ég hafði horft yfir öxlina á Hrefnu púsla saman tónlistinni við 39½ viku í GarageBand á fartölvunni sinni. Reyndar komst ég að því að tiltekt mín um daginn hafði verið full brútal og GarageBand kvartaði yfir því að finna ekki tilteknar skrár í Library. Eftir að hafa spreytt mig á því að nota aðrar lausnir datt ég niður á þá snilldarlausn að setja tómar möppur með réttum nöfnum í Library og það dugði til að GB malaði umkvartanalaust.

Fyrsta skrefið var að nota HandBrake til að vista nokkra kafla úr stórmyndinni Sahara (sem er til á DVD hér á heimilinu, án þess að ég hafi nokkurn tíman horft á hana). Síðan fann ég mér forrit sem getur breytt vídeóskrám í .mp3 hljóðskrár og loks annað sem gat unnið með MP3 skrár (meðan ég var ekki búinn að fá GarageBand til að virka).

Ég notaði apple.com/trailers til að fletta í gegnum nýlega trailera og finna nokkra sem pössuðu við textann. Reyndar var aðeins flóknara að vista QuickTime skrárnar en ég hafði gert ráð fyrir. Það endaði því með að ég notaði IMDB síður viðkomandi kvikmynda til að finna treilera á síðum þar sem ég gat halað þeim niður.

Það lá eiginlega í augum uppi að byrja á einum Indiana Jones trailer/teaser með hinu ómissandi og einkennandi stefi. Í handritinu er vísað í að Tom Cruise leiki í einni myndanna og eftir dálitla leit komst ég að því að hann er í smáhlutverki í Tropic Thunder.

Það virðist ekki í tísku lengur að keyra allt of mikið á hinum einkennandi treilera-röddum, en eftir nokkra leit ákvað ég að bæta við treilerum stórmyndanna Chaos Theory og Zombie Strippers (sem lítur út fyrir að vera væntanleg óskarsverðlaunamynd).

Eftir fikt og prufukeyrslur á æfingum er ég orðinn mjög sáttur við útkomuna. Það reyndist lítið mál að nota GarageBand til að fínstilla hvaða búta úr treilerunum ég er að nota (og ég gat leikið mér aðeins með hljóðstyrkinn til að draga fram eða draga úr einstaka hljóðbrotum).

Niðurstaðan eru um 3 mínútur af treilerum og 15 mínútna bútur úr Sahara (verkið er reyndar ekki nema ca. 7 mín. í flutningi - en það kostar ekkert að vera með nokkrar aukamínútur upp á að hlaupa).

Áhugasamir verða svo bara að kíkja á dýrðina í Þjóðleikhúskjallaranum þar sem hljóðmyndin verður flutt af iPod-inum mínum.

Ég treysti á að þetta dugi til að ég fái kredit fyrir hljóðmynd í gagnagrunni Hugleiksvefjarins.


< Fyrri færsla:
Af sitthvoru taginu
Næsta færsla: >
Nýr besti tölvuvinur
 


Athugasemdir (1)

1.

Þórarinn sjálfur reit 15. maí 2008:

Sýningin á föstudag byrjar kl. 22 - ekki 21.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry