Skrópað í stúdentsafmæli
17. júní 2008 | 1 aths.
Í dag eru 15 ár síðan ég útskrifaðist úr Menntaskólanum, 12 ár síðan ég útskrifaðist úr efnafræði í HÍ og samkvæmt fölsuðu dagsetningunni á skírteininu mínu úr kennslufræði eru 11 ár síðan ég lauk henni.
Í MA er hefð fyrir því að afmælisárgangar stúdenta hittist og haldi saman veislu 16. júní. Ég fór norður á 1, 5 og 10 ára afmælinu en sit nú sem fastast hér á mölinni.
Ég hef enga haldgóða afsökun aðra en þá að það náðist ekki upp nein sérstök stemmning fyrir þessu afmæli í árganginum. Eitthvað var reynt að virkja mannskapinn með tölvuskeytum síðla vetrar en boltinn komst aldrei almennilega á skrið. Vonandi verður bara haldið gott partí í haust í staðinn.
Árgangur pabba og mömmu hefur hins vegar ekki átt í neinum vandræðum með að ná upp stemmningu í gegnum tíðina. Ég held að hver einn og einasti 25 ára stúdent (kannski að foreldrum mínum og einstaka kennurum frátöldum) hafi haft það á orði við mig dagana í kringum útskrift hvað ég væri líkur pabba. Glöggir lesendur hafa eflaust áttað sig á því að árgangur foreldra minna á einmitt 40 ára afmæli í sumar.
Það hefur verið margra daga prógramm hjá þeim og ég held ég fari rétt með að mætingin hjá þeim stefndi í að vera einhversstaðar um 80% síðast þegar ég frétti.
Margrét systir er svo 5 ára stúdent í dag, en Sigmar (8 ára stúdent) og Elli (13 ára) munu líklega halda saman upp á stúdentsafmæli sín eftir tvö ár.
Visitasía
Reyndar er það skemmtileg tilviljun að fyrir rúmri viku fór ég dagsferð norður á Akureyri í vinnutengdum erindum, þar sem ég meðal annars vísiteraði MA og snæddi með kennurum á kennarastofunni. Sú ferð verður bara að koma í stað stúdentsfagnaðar að þessu sinni.
Athugasemdir (1)
1.
Margrét reit 18. júní 2008:
Ó þú misstir af svo miklu Dói. Skora á þig að mæta eftir 5 ár, ég mun amk ekki láta mig vanta.
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry