Thaigrill úr öskustónni
17. júní 2008 | 0 aths.
Á námsárunum í Kaupmannahöfn (rétt upp úr aldamótunum 1900 ef mig misminnir ekki) lærði ég að meta á eigin skinni kosti þess að hafa skyndibitastaði inni í íbúðarhverfum.
Það var því vel þegið þegar öðlingshjón keyptu rekstur sjoppunnar við hliðina á ísbúðinni á Hagamelnum fyrir nokkrum misserum og fóru að reka þar tailenskan takeaway.
Maturinn var prýðisgóður og á hagstæðu verði.
Svo seldu þau reksturinn og undanfarið hefur Red Chili verið með útibú þar, með einhverju samblandi asískra og mexikóskra rétta. Við prófuðum það tvisvar, en það verður að segjast að sá staður olli okkur miklum vonbrigðum (þótt mér líki ágætlega að borða á öðrum Red Chili stöðum).
Um daginn datt svo inn um lúguna matseðill frá Thai Grill á Hagamel og eitt augnablik hélt ég að einhver mistök hefðu orðið í ruslpóstprentun vikunnar eða óútskýrt flökt í tímarúmssamfellunni. En þegar betur var rýnt í seðilinn var hann með aðeins öðru sniði en ég mundi eftir frá því forðum daga (sama hönnun og lógó en önnnur framsetning á réttunum).
Þetta þurfti auðvitað að rannsaka og vettvangsathugun leiddi í ljós að vissulega er Thai Grill komið aftur, reyndar er húsið enn merkt Red Chili en það er líklega tímabundið. Við fengum okkur einmitt mat þaðan í gærkvöldi og hann bragðaðist prýðlega (rétturinn sem merktur var sterkur reyndist vera það, jafnvel um of).
Ég þori ekki að fullyrða hverjir sjái um reksturinn, en miðað við þann reyting af fólki sem var þarna í gærkvöldi mælist þessi endurkoma vel fyrir hjá nábúendum.
Uppáhaldstilboð mitt, þrennan á fáránlega lága verðinu, er reyndar horfin. En það er kannski ekki við öðru að búast á þessum kreppu tímum tímabundinnar niðursveiflu í hagkerfinu.
Húrra fyrir tæinu.
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry