Stenst ekki kreppumátið

Mánudaginn þegar forystumenn stjórnarflokkanna komu þungbrýnni en allt sem þungbrýnt er af fundi hjá ríkisstjórninni og tilkynnt var um ávarp forsætisráðherra fékk ég hnút í magann.

Þegar forsætisráðherra hafði ábúðarfullur farið þess á leit við almættið að það blessaði klakann, án þess að hafa útskýrt almennilega hvaða vá steðjaði að, né nákvæmlega hvað stæði til að gera af hálfu vorra veraldlegu yfirvalda, magnaðist sá hnútur enn.

Það var eiginlega ekki fyrr en morguninn sem ljóst var að með Kaupþingi væru allir þeir stóru fallnir, enda var einni tegund óvissu þá eytt.

Þessar vikur síðan hef ég heimsótt fréttamiðlana oftar en nokkru sinni fyrr, leitað uppi hvers konar söguskýringar, samsæriskenningar og ábendingar sem stöðunni tengjast. Spurningarnar eru margar, en skýr svör af mun skornari skammti.

Smám saman hefur maður blessunarlega orðið ónæmari fyrir upphaflegu kvíðahnútunum, en víðtæk forvitni og forundran komið í þeirra stað.

Á þessum vikum hefur maður óhjákvæmilega myndað sér einhvers konar skoðanir á því hvað hafi gerst, sé að gerast og þurfi að gerast. Þær skoðanir eru ekki byggðar á neinum faglegum kenningum og fræðum, heldur frekar tilraunum til að fá einhvern botn í þessa hringavitleysu alla.

Mín sekt

Varríus hvatti til játninga í framhaldi af því að Björgólfur eldri skellti skuldinni í flatskjá-kaup almúgans. Jón Heiðar og fleiri tóku hann á orðinu. Ég svaraði reyndar ekki þeirri færslu beint, en vil ekki kannast við að mitt syndaregistur sé sérlega langt.

Vissulega naut ég góðs af hagstæðu gengi krónunnar þegar ég var úti í .dk í námi 2004-2006. Þá seldi ég líka stærstan hluta hlutabréfa minna í Landsbankanum sem ég hafði nokkrum árum fyrr keypt fyrir hálfan skattaskammt (65 þúsund). Þau höfðu í millitíðinni rokið upp og fyrir andvirðið keypti ég mér meðal annars sófa og flutti með heim (að andvirði heilla 120 þúsund króna á þávirði).

Ég skildi eftir 65 þúsund króna markaðsvirði í Landsbankanum, svona til að taka áfram einhvern þátt í leiknum. Þegar bankinn hrundi hafði sá hluti aftur vaxið upp í andvirði eins flatskjás eða svo. Flatskjár hefur hins vegar enn ekki verið keyptur á heimilið og lít ég þar með á þetta tap í Landsbankanum sem mitt óbeina framlag til að sporna gegn viðskiptahalla við útlönd.

Þessi tvö ár sem liðin eru síðan ég kom heim höfum við skötuhjúin farið í þrjár helgarferðir til útlanda. Ég verð að játa að þær ferðir voru líklega ekki til að bæta vöruskiptajöfnuðinn, jafnvel þótt við tvö teljumst nú tæplega stórtæk í útlandainnkaupum á íslenskan góðæris-mælikvarða (a.m.k. ekki að meðaltali).

Mikið lengra náði þátttaka mín í bankaleiknum ekki. Fyrir utan námslán til að fjármagna bjórneyslu og hóglífi erlendis hef ég ekki tekið nein neyslulán. Íbúðin var blessunarlega keypt við upphaf fasteignabólunnar, í árslok 2001, á venjulegum íslenskum verðbólgulánum. Ég kom því aldrei í verk að skuldbreyta húsnæðislánunum í eitthvað meira sexí (t.d. myntkörfulán) og því gæti ég enn átt inni nokkur misseri þar til verðbólgan verður búin að éta upp eignarhluta minn í íbúðinni.

Ég veit ekki hvort það er af því að ég átti svo lítið inni á bók, eða er aftarlega í stafrófinu, en það var aldrei búið að bjóða mér að kaupa mig inn í peningamarkaðssjóði. Blessunarlega slapp ég því við beint peningatap við fallið, að frátöldum hinum ímyndaða Landsbankaflatskjá - enda má líta á það sem platpeninga, ég var löngu búinn að innleysa ágætis ávöxtun af upphaflega 65 þúsund kallinum.

Alexandra getur vitnað um það að ég hef ósjaldan litið til flatskjáanna hýru auga, lesið umsagnir á netinu og stikað ábúðarfullur um sjónvarpsdeildir raftækjaverslana. Stofuna prýðir hins vegar enn hið gamla trausta túbusjónvarp sem hún lagði til búsins (og annað minna hvílir sig í geymslunni).

Á móti stóðum við okkar plikt sem Íslendingar í verðbólgu og stækkuðum við okkur frystigetu heimilisins í framhaldi af fallinu. Litlar frystikistur voru reyndar uppseldar á landinu þegar þar var komið sögu, svo frystigetunni fylgdi nýr ísskápur. Með því lögðum við okkar að mörkum til að halda hinum alræmdu hjólum atvinnulífsins gangandi örlítið lengur. Ísskápurinn var staðgreiddur.

Þessi sami ísskápur kostar nú, þremur vikum seinna, 50 þúsund krónum meira - en það er kannski önnur saga.

(meira seinna)


< Fyrri færsla:
Ekki gufaður upp
Næsta færsla: >
Tveggja ráðherra sýning
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry