Hin ættgenga klikkun

Líkt og þrautseigir lesendur kunna að hafa tekið eftir hefur föðurfjölskylda mín tekið margvíslegan þátt í hinni árlegu 90 kílómetra Vasagöngu í Svíþjóð.

Sagan hófst þegar pabbi tók þátt 2002 og Halldór bróðir hans slóst í hópinn, án þess þó að ná að klára. Árið eftir skoraði Halldór á alla bræður sína að fylgja sér í mark 2004. Það tókst þeim öllum fimm, þrátt fyrir erfiðar aðstæður. (Sjá Vasabræður 2004).

Í Vasa 2006 var svo komið að minni kynslóð að slást í hópinn. Við bræður tókum reyndar ekki þátt í "múgsefjuninni" og skráðum okkur ekki til keppni. Ég nýtti hins vegar tækifærið, búandi í Danmörku, og stóð vaktina á hliðarlínunni (auk þess að fá nasaþef af stemmningunni). Ekki tókst öllum af minni kynslóð að endurtaka afrek feðra sinna, heldur luku aðeins Hannes Þór og Gunni keppni. (Auk pabba og yngstu bræðra hans, Hjörleifs og Halldórs).

Pabbi hefur farið annað hvert ár síðan 2002 og ætlar núna að ganga Hálf-Vasa. Hann stefnir svo á fullt Vasa á næsta ári og þá ætlum við bræður að ganga með honum.

Örlagaríkt sunnudagskvöld

Fyrir sléttum mánuði hittumst við bræður í sunnudagmat hjá Ella og Halldóru og eftir nokkrar umræður og vangaveltur sammæltumst við um það að skella okkur að ári.

Við vitum vel að þetta verður enginn leikur. Það má gera ráð fyrir að það taki okkur a.m.k. 10 klukkutíma að böðlast í mark og eins gott að maður verði í hörkuformi. Þrek, styrkur og göngutækni verður það sem öllu skiptir.

Ég er líklega í lélegasta forminu af okkur bræðrum (óháð aldri). Elli hefur verið duglegur að halda sér í formi síðustu ár og hefur hlaupið hálfmaraþon í Reykjavíkurmaraþoninu síðustu tvö sumur. Sigmar er í körfuboltaæfingum og prýðilegu formi.

Það vildi svo til að um svipað leyti bauðst mér að taka þátt í vikulegum innanhússfótbolta með Jóni Heiðari, Þorfinni og fleiri köppum. Fyrsti tíminn gaf ekki fögur fyrirheit, en ég hef tekið stórstígum þreklegum framförum síðan.

Ég hef líka reynt að fara út að hlaupa þegar færi hefur gefist til auk þess sem við höfum auðvitað kappkostað að nýta þennan sjaldséða snjó til skíðaæfinga.

Stefni á að skrifa meira um skíðaæfingarnar (og alfyrstu keppnisgönguna mína) seinna.


< Fyrri færsla:
Hin árlega jólakveðja
Næsta færsla: >
Hálfvasa á morgun
 


Athugasemdir (2)

1.

Margret reit 21. febrúar 2009:

Hallo hallo... hvar er systir tin i tessari faerslu? Eg er ad aefa grimmt- i dag i Bangkok og tad er ekki minnst einu ordi a mig!!?
Eg sem helt eg vaeri uppahalds....

2.

Linda reit 23. febrúar 2009:

Ekki spurning að mæta í Vasa!!
Ég böðlaðist þetta í þungu færi í gær og kom í mark eftir rúma 10 tíma. Vanir menn sögðust hafa verið rúmum kl tíma lengur en við bestu aðstæður, þannig að tæknilega séð fór ég þetta á 9 tímum!!

Hlakka til að sjá ykkur bræður í Mora að ári
Kv Linda

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry