Hálfvasa á morgun

Á morgun er hálf-Vasa gengin. Eftir því sem ég kemst næst eru 11 skráðir Íslendingar í göngunni og pabbi þar á meðal.

Ég hef tekið að mér að halda utan um tíma allra Íslendinganna í hálf- og heil-Vasa í ár á vasa.thorarinn.com. Ég geri það með örlítið betrumbættri útgáfu af vasa-scrapernum sem ég bjó til í fyrra.

Í stuttu máli er ég með lítið forrit sem fer í gegnum lista af þátttakendum, sækir tímatökusíðu viðkomandi og safnar úr henni þeim tímum sem birtir hafa verið (sem gerist sjálfkrafa þegar gengið er gegnum tímatökustöðvarnar). Þetta forrit er keyrt sjálfkrafa á kortérs-fresti og við það uppfærist tafla yfir framvindu keppenda.

Til að minnka líkurnar á að hreinlega verði lokað á mig af Svíunum fyrir að valda óeðlilegu álagi er ég búinn að brjóta upp hópinn í 5 grúppur (þar af 4 fyrir heil-Vasa) og brasaði við það í gær að uppfæra lógíkina fyrir það.

Ég held að þetta eigi allt að virka fínt núna (tók mig smá leit að komast að því hvernig hægt er að setja url-parametra í cron skipun, en það gekk). Ég læt hálf-vasa-sjálfvirknina malla í nótt, mælingar á heil-vasanu ættu svo að hrökkva sjálfkrafa í gírinn um kl. 8 á sunnudagsmorgun (þegar keppendur nálgast fyrstu tímatöku).

En sem sagt, vasa.thorarinn.com er staðurinn.


< Fyrri færsla:
Hin ættgenga klikkun
Næsta færsla: >
Ekkert gabb 2009
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry