Ekkert gabb 2009
01. apríl 2009 | 2 aths.
Undanfarin ár hef ég árlega sett upp aprílgabb hér á vefnum, oft nokkuð margslungin.
Eftir að hafa velt því fyrir mér hvað ég ætti að gera í ár (og fengið nokkrar ómótaðar hugmyndir) ákvað ég að láta gabbið eiga sig í ár, enda þarf ég að vera duglegri að skrifa færslur til að keyra upp umferðina áður en brestur á með gabbi. Það er hreinlega of augljóst ef eina færsla ársfjórðungsins er 1. apríl og enginn sem tekur eftir því ef ég breyti eitthvað forsíðunni.
Í alls ótengdum fréttum tókst mér að slíta krossbönd í hné í fótboltanum í gær. Ég fékk skutl upp á slysó og læknirinn sem sinnti mér þar var á því að það væri a.m.k. hálft ár í að ég gæti beitt mér að fullu í Vasaæfingum. Hálft ár sem ég má ekki við því að missa í skíða- og þrekæfingum.
Þar sem það væri synd að láta skráningargjaldið fara til spillis er planið núna að Alex gangi í minn stað með þeim bræðrum mínum. Hún er mjög áhugasöm og við erum búin að vera að skoða búnaðinn. Hún getur líklega æft sig á skíðunum hans Nonna (þótt þau séu í lengsta lagi), en skíðaskórnir eru 10 númerum of stórir og stafirnir hærri en hún.
Ef einhver lumar á gönguskíðaskóm í stærð 35 og keppnisstöfum sem eru 130 cm á hæð má endilega hafa samband við mig í netfanginu thorarinn hjá thorarinn.com
Uppfært: Auðvitað er þetta lygi, ég er vel sprækur.
Athugasemdir (2)
1.
Siggi reit 01. apríl 2009:
Ég á einmitt skó nr. 35 sem enginn notar. Komdu endilega í dag og hirtu skóna.
kv,
Siggi
2.
Óskar Örn reit 02. apríl 2009:
Hmmm! Einmitt það já....
Ljótt ef satt er, eller hur?
Til hamingju með daginn annars! Verðið þið heima helgina eftir páska?
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry