Hvað skal kosið?
19. apríl 2009 | 3 aths.
Ég er greinilega ekki einn um að vera efins um hvað skal kosið í þessum kosningum. Af þeim sem ég les reglulega má nefna Jón Heiðar og Hjalla sem hafa farið yfir sviðið - og komast að sitt hvorri niðurstöðunni.
Þegar krafist var "kosninga strax" í vetur var ég ósammála, þar sem ég var viss um að á svo stuttum tíma væri alvöru endurnýjun útilokuð.
Þrátt fyrir allt sem sagt hefur verið og gert undanfarið sýnist mér raunveruleg endurnýjun vera sama og engin. Utan við gömlu flokkana virðist aðeins Borgarahreyfingin eiga möguleika á því að koma mönnum á þing og innan flokkanna er endurnýjunin meira yfirborðskennd en raunveruleg.
Reyndar er það einkennandi á þessum óvenjulegu tímum að flokkarnir virðast eiga erfitt með að ræða alvöru framtíðarsýn. Kosningabaráttan það sem af er einskorðast við gamaldags slagorð og loðnar yfirlýsingar um einhvers konar betrumbætur. Enginn flokkur hefur gefið skýr svör um það hvar þeir sjá þjóðina eftir 5 ár (eða eitthvað lengra en sem nemur hálfu kjörtímabili).
Flokkunum er kannski vorkunn, því þingmennirnir þeirra hafa verið of uppteknir við það undanfarið að setja lög um nektardans og hlusta á Árna Johnsen syngja í pontu.
Í síðustu kosningum kaus ég Samfylkinguna, en hún olli mér töluverðum vonbrigðum með frammistöðu sinni í stjórninni með Sjálfstæðisflokknum. Frammistöðuleysi væri kannski nær lagi. Þau virtust of upptekin af því að verða stór flokkur með því að haga sér eins og hinn stóri flokkurinn og rugga ekki bátnum að óþörfu. Farsinn með að bankamálaráðherranum skuli haldið utan við krísufundi um bankamálin og að hann þvoi svo hendur sínar með því að segja af sér kortéri fyrir stjórnarslit toppaði eiginlega brandarann með aðildina að öryggisráðinu og vindbelgsyfirlýsingar Össurar meðan Ingibjörg var frá vegna veikinda.
Evrópusambandið
Í gær hittum við vinafólk okkar sem býr í Svíþjóð. Þau hafa ekki farið varhluta af kreppuni í Svíþjóð, áhrifin sem þau finna fyrir er að vextirnir af húsnæðisláninu þeirra hafa lækkað um 2/3 á hálfu ári og afborganirnar þar með.
Það er ekki alveg sömu sögu að segja af íslenska húsnæðisláninu mínu...
Í mínum huga er krónan og verðtryggingin stærsta áhyggjuefnið fyrir komandi misseri (fyrir utan skort á trúverðugum stjórnmálamönnum) og þar sýnist mér enginn flokkur vera með alvöru tillögu að framtíðarskipan annarri en aðildarumsókn að ESB.
Ég hef auðvitað ekki forsendurnar á þessu stigi máls til að segja hvort Íslandi er betur borgið innan ESB eða utan, en mér finnast nógu mörg rök hafa komið fram til þess að ástæða sé til að hefja aðildarviðræður og taka afstöðu til þess sem í boði verður í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Í mínum huga er "tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðsluleiðin" undanbrögð stjórnmálaflokka sem ekki geta komið sér saman um stefnu heldur ætla að nota gamla popúlistatrixið að láta skoðanakannanir taka ákvörðun fyrir sig.
Reyndar held ég að í þeim velflestum sé að finna sterka undiröldu í aðildarviðræðnaátt en Samfylkingin virðist sú eina sem er tilbúin að gera það að kosningamáli.
Álraunir
Hitt málið sem allir flokkarnir virðast sammála um að hafa skoðun á er stóriðja, sér í lagi hvort eigi að halda sama striki og byggja enn fleiri álver. Ég hef ekkert á móti því að orka landsins sé nýtt með skynsamlegum hætti en ég er algerlega á móti því að hrúga enn einu egginu í álkörfuna.
Fyrir utan að engum virðist takast að sanna með óumdeilanlegum hætti að við séum raunverulega að hagnast á álverunum (sér í lagi meðan samningar eru enn leynilegir) er ég einfaldlega efins um bissniss sem byggir á því að sigla grjóti með skipum frá Ástralíu og Suður-Ameríku til Íslands til að bræða það hér og sigla til baka.
Þannig að ég er á móti fleiri álverum. Stóriðja, OK, en í guðana bænum komið þá með tillögur að einhverju öðru en enn einni álbræðslunni.
Flokkarnir
Sjálfstæðisflokkurinn er í áberandi vörn núna, enda full ástæða til. Hvað sem líður atburðum erlendis er spilaborgin sem hér hrundi undan gustinum að utan byggð upp undir verndarvæng og eftir forskrift flokksins. Þeirra helsta áhersluatriði í kosningabaráttunni virðast vera dylgjur um að hinir flokkarnir ætli að hækka skatta (og gefa í skyn að það myndi XD ekki gera). Sem er pínu skondið í ljósi þess að flestir reiknarar fullyrða að skattaálögur á launþega hafi í raun aukist í góðærinu undir þeirra stjórn. En ég er a.m.k. ekki að fara að kjósa Sjálfstæðismenn. (Þeir klúðra líka skugganum á bílnum sem á að vera að keyra eftir loftmyndinni sem þeir nota í sjónvarpsauglýsingunum sínum, ég meina kommon...)
Samfylkingin hefur valdið mér vonbrigðum og þótt Jóhanna sé eflaust ágæt (kannski heldur treg við að taka þátt í opnum debatt), þá var farsinn kringum formannsframboðið hins vegar ekki sérlega traustvekjandi. Össur er í mínum augum óttalegur vindbelgur og satt best að segja treysti ég honum ekki fyllilega fyrir því að semja um orkuverð og annað í þeim dúr. Enda virðist það vera meðvituð ákvörðun hjá Samfylkingunni að halda Össuri utan við kosningabaráttuna eins og hægt er.
Framsókn má eiga það að 20% tillagan þeirra er eina róttæka og (að mínu viti) trúverðuga hugmyndin að því hvernig hægt er að vinna gegn þróuninni og koma skriði á málin sem komið hefur fram. (Reyndar, eftir frétt Stöðvar 2 um það hvernig örfáir einstaklingar eiga gríðarlega stóran hluta skulda sem teljast til heimildanna, væri ég til í að sjá þak á því hversu há 20% leiðréttingin getur orðið). Þeir gerðu líka heiðarlega tilraun til endurnýjunar í forystunni, en því miður sýnist mér að gömlu hundarnir séu æ oftar að verða nýja formanninum fjötur um fót í tilraunum hans til að hefjast handa með hreint borð.
Vinstri græn hafa sér það helst til kosta að hafa ekki tekið neinn beinan þátt í ruglinu. Mér finnst Steingrímur hafa komist ágætlega frá þessum vikum sem hann hefur verið við stjórn (þótt á köflum séu Jekyl/Hyde hamskiptin sem orðið hafa á honum dálítið ótraustvekjandi). Hins vegar er nokkuð um fólk í forystusveitinni sem ég hef fordóma gagnvart og treysti ekki fyllilega.
Frjálslynda flokkinn á ég hreinlega erfitt með að taka alvarlega.
Af nýju framboðunum er Borgaraflokkurinn það eina sem ég hef einhverja trú á að geti komið fólki á þing. Hins vegar á ég svolítið erfitt með að átta mig á því nákvæmlega hvar þeir standa og við hverju má búast af þeim. Ég treysti mér ekki til að fella dóm um þá alveg strax, þarf að kynna mér stefnumálin betur - en vissulega kitlar það ef þarna reynist komið afl til að brjóta upp samtryggingarkerfi stjórnmálamannanna og hrista almennilega upp í hlutunum. Ekki veitir víst af.
Fyrir stuttu var staðan sú að ég var helst á því að skila annað hvort auðu eða kjósa Borgarahreyfinguna, en nú er ég hreinlega ekki viss.
Þannig að, summa summarum, ekkert framboðanna höfðar fyllilega til mín - sem er sérlega slæmt þar sem þessar kosningar eru líklega þær mikilvægustu sem ég hef tekið þátt í og ótrúlega margt sem ríður á því sem gerist á komandi kjörtímabili.
En ég hef a.m.k. nokkra daga til að taka ákvörðun.
Athugasemdir (3)
1.
Mummi reit 20. apríl 2009:
Ó hvað ég kannast við þennan þvingandi vafa. Eina sem ég veit er að ég mun hvorki kjósa Framsókn né Sjálfstæðisflokkinn.
2.
hildigunnur reit 20. apríl 2009:
Kjósa VG og strika yfir - ég hef á tilfinningunni að einn frambjóðandinn fái slatta af yfirstrikunum, jafnvel svo mikið að það muni um það...
3.
Már reit 21. apríl 2009:
Sæll félagi, ég sé að við erum ákaflega svipað þenkjandi - eiginlega meira svipað en ég hefði giskað á fyrirfram.
Hjá mér stendur valið milli VG og Borgarahreyfingarinnar, og ég hallast í svipaða átt og þú.
Ég er mjög tvístígandi með ESB málin - skortir enn þekkingu - vil að við förum í aðildarviðræður en finnst afar ósannfærandi málflutningur hjá Samfó að það megi ekki leyfa þjóðinni að kjósa um aðildarviðræðurnar eins og eðlilegt væri í siðuðu ríki. Samfylkingin vill væntanlega með þessum málflutningi veiða sér auka atkvæði með því að stilla málunum upp þannig að eina leiðin til að sýna aðildarviðræðum stuðning sé að kjósa Samfylkinguna - hook line and sinker.
Þótt mér sé ekki illa við samfylkinguna, þá hefur mér þótt hún stunda fáránlega öfgakenndan málflutning í öllu sem tengist ESB. Ég er bara svoleiðis gerður að þegar ég finn að logið er að mér ("Himnarnir hrynja og kettlingar deyja ef við förum ekkí ESB strax á morgun!!! Allt verður betra í ESB! Allt!") þá fer ég sjálfkrafa að efast. Ég hefði talið að Samfylkingin hefði betri málstað en svo að þau þurfi að beita mig hræðsluáróðri og hálfsannindum.
Allavega, ég hef á tilfinningunni að laugardagurinn muni gefa ásættanlega kosninganiðurstöðu, og vona að fólk verði bara þeim mun duglegra að munda útstrikunarblýantinn í kjörklefanum!
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry