Okkar leið: Undefined

Í gær átti ég leið framhjá auglýsingaskilti þar sem vonarlandsfaðir þjóðarinnar, Bjarni Ben, stóð keikur (en samt með hæfilegan sársaukasvip á vör) undir slagorðinu "Nýtum auðlindir landsins". Mér brá eiginlega, því í því samansafni innantómra slagorða og fagurgala sem á manni dynur þessa dagana fer þessi setning langt með að toppa vitleysuna.

Hvaða auðlindir eru það sem við höfum ekki verið að nýta hingað til og Sjálfstæðisflokkurinn býr yfir upplýsingum um? Á að fara að veiða fisk í sjónum? Rækta jurtir? Ala búfénað? Hita upp hús með jarðvarma? Virkja fallvötn? Virkja fjármálaþekkinguna?

Á hverju höfum við verið að klikka Bjarni?

Undefined

Í leit að nánari upplýsingum um þetta (og nákvæmu orðalagi svo ég vitnaði nú örugglega rétt í formanninn) þvældist ég inn á XD.is. Þar blasti fyrst við mér alveg glænýtt kosningaloforð sem fangaði athygli mína:

Lækkum afborganir af húsnæðislánum um 50%

Lækkum afborganir af húsnæðislánum um 50% - Það er okkar leið.

Þetta stefnumál hef ég ekki séð áður, en velti því fyrst fyrir mér hvort Sjallar ætli að toppa Frammara með enn meiri afskriftum lána, hvort þetta eigi að gerast með því að lengja lánin upp í 100 ár (eða svo), eða jafnvel í samstarfi við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn. Til að fá nánari upplýsingar smellti ég á borðann.

Þá er mér vísað á slóðina http://xd.is/undefined með skilaboðunum: 404 Not Found - The requested URL /undefined was not found on this server. Þannig að ég hlýt að álykta sem svo að þessi leið Sjálfstæðismanna sé enn óskilgreind. En ég spyr, fara ekki að verða síðustu forvöð að skilgreina hana fyrir kosningar?

(Eða er hún geymd á leyni-server sem ekki er aðgengilegur okkur pöplinum?)

Það virðast nokkrar útgáfur af borðum á vefnum sem birtast af handahófi, en allar leiða þeir á sömu "undefined" síðuna ef smellt er á þá.

Bjarni í bíó

Talandi um Bjarna Ben, þá birtust hann og Þorgerður Katrín í sitthvorri sjónvarpsauglýsingunni í gær. Bæði í sömu umgjörð; standandi teinrétt með glugga í bakgrunni, talandi beint í myndavélina með ábúðarfullu fasi.

Ég veit ekki hvort þetta átti að vera landsföðurslega svipmótið hans Bjarna, en mér fannst helst að honum hlyti að líða hálfilla.

Eiginlega pínu eins og honum væri mál að kúka...

(Því miður finn ég ekki þessa tilteknu auglýsingu á vef XD, bara þá með Þorgerði Katrínu - sem er ekki alveg jafn slæm).

Sjónvarpsauglýsingar hinna

Hinir flokkarnir auglýsa auðvitað líka. Af þeim auglýsingum sem ég hef séð finnst mér teiknimyndaauglýsing Frammara á 20% leiðinni best; afmörkuð (en óneitanlega soldið tæknileg) hugmynd sem er útskýrð með skýrum og skilmerkilegum hætti. "Hin" auglýsing Framsóknarflokksins sem sýnir fólk inni á heimilum undir fagurgala um það hversu helg heimilin séu, þar sem formaðurinn talar lox ábúðarfullur út um glugga er hins vegar ofboðsleg klisja, soldið mikið 2007 fyrir minn smekk.

Vinstri Grænir leggja áherslu á persónurnar í framboði. Ég tek þó sérstaklega eftir því að í mósaík-sjónvarpsauglýsingunni þar sem andlit fjölmargra frambjóðenda birtast, vantar alveg olíuprinsessuna Kolbrúnu Halldórs. Tilviljun? Ég held ekki...

Talandi um andlitsmyndir VG, er það bara ég sem þykja þessar ofurnærmyndir af menntamálaráðherra vorum hálf-krípí?

Ég sá svo í gær auglýsingu frá Frjálslyndum með Sturlu. Hún var frábær, Spaugstofan hefði ekki getað gert betur. Fyrsta auglýsingin sem ég skelli upp úr yfir.

Sem stendur man ég hreinlega ekki eftir neinum sjónvarpsauglýsingum Samfylkingar, sem bendir til að þær séu ekki sérlega minnisstæðar.

Uppfært: Leiðrétti föðurnafn Kolbrúnar.


< Fyrri færsla:
Hvað skal kosið?
Næsta færsla: >
Ó, plöggað aftur
 


Athugasemdir (2)

1.

hildigunnur reit 23. apríl 2009:

Kolbrún Halldórs (ekki Harðar) - já það verða væntanlega nokkrar yfirstrikanir...

2.

Þórarinn sjálfur reit 23. apríl 2009:

Já, ég er búinn að leiðrétta nafnið núna.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry