Að Vasagöngu genginni - 1

Það var um miðjan janúar á síðasta ári sem við bræðurnir tókum sameiginlega ákvörðun um að feta í fótspor föðurins og taka þátt í Vasagöngunni 2010. Fyrir þá sem ekki þekkja til er Vasagangan 90 kílómetra árleg skíðaganga í sænsku Dölunum, frá Sälen til Mora, sem árlega dregur að sér þúsundir manna sem vilja spreyta sig á þessari sænsku hefð sem mun vera lengsta gönguskíðakeppni í heimi (a.m.k. að sögn aðstandendanna).

Vasagangan skipar ákveðinn sess í okkar fjölskyldu því þegar pabbi gekk hana í fyrsta sinn 2002, í og með til að undirstrika fullan bata sinn eftir krabbameinsmeðferð, slóst yngsti bróðir hans með í för. Pabbi kláraði gönguna á rúmum 10 tímum, en Halldór föðurbróðir fór of hægt yfir og var stöðvaður miðja vegu til Mora. Hann var að vonum ósáttur við þetta og í fertugsafmælinu sínu skoraði Dóri á bræður sína fjóra að fylgja sér gönguna 2004.

Þannig er að keppendur hafa 12 tíma til að ljúka keppni (nýlega lengt í 12,5) og byggt á reynslu eru tiltekin tímamörk á því hvenær keppendur þurfa að vera komnir í gegnum tímatökustöðvarnar 7 á leiðinni. Á ákveðnum tímum eru strengd reipi yfir brautina í tímatökustöðvunum og þeir keppendur sem þá eru staddir röngu megin við reipið eru sendir upp í rútu. Rökin fyrir þessu eru þau að fari keppendur ekki hraðar yfir muni þeir ekki skila sér í mark fyrir lokun.

Markeraður af hinu bláa reipi særði Halldór bræður sína með sér og öllum tókst þeim að böðlast í mark við mjög erfiðar aðstæður, þrátt fyrir að samanlagt næðu þeir fimm ekki þeirri vegalengd sem Svíar miða við sem lágmarksæfingu á gönguskíðum til að geta lokið Vasagöngunni.

Tveimur árum síðar, 2006, hafði mín kynslóð, uppveðruð af afrekum gömlu mannanna, skráð sig til leiks að stórum hluta ásamt fjórum feðrum. Alls voru það 7 systkinabörn sem skráðu sig, en Birna frænka heltist úr lestinni þegar hún sleit krossbönd. Við systkinin létum ekki undan jafningjaþrýstingnum og sátum heima. Þar spilaði örugglega stærsta rullu að við gerðum okkur grein fyrir því hversu mikils undirbúnings væri krafist. Sjálfur var ég t.d. búsettur í Kaupmannahöfn og þar gefast mjög takmörkuð tækifæri til gönguskíðaæfinga.

Hins vegar mætti ég til Svíaríkis til að fylgjast með ævintýrinu af hliðarlínunni og fá nasaþefinn af Vasastemmningunni allri. Ekki gekk minni kynslóð sem skyldi og þrátt fyrir að aðstæður í brautinni væru þokkalegar voru það bara 2 af 6 sem skiluðu sér alla leið í mark - hinir höfðu allir verið stöðvaðir um miðja göngu.

Tengingunum kastað í Hafnarfirði

Þar sem við sátum bræður og spúsur yfir eftirrétti í Hafnarfirðinum tæpum þremur árum síðar var rifjuð upp yfirlýsing pabba (sem hefur gengið fulla göngu annað hvert ár síðan 2002) um að hann myndi taka Vasagönguna 2010 en væri ekki viss hvað yrði eftir það. Ef við ætluðum einhverntíman að spreyta okkur með honum færu því að verða síðustu forvöð.

Eftir að hafa vegið og metið afleiðingar slíkrar ákvörðunar slógum við til með það sem mottó að leggja skynsemina til hliðar. Margréti systur voru send boð til Ástralíu, þar sem hún var stödd á heimsreisu, um að mælst væri til einhverrar þátttöku af hennar hálfu þótt það væri að sjálfsögðu hennar ákvörðun að taka.

Þegar ákvörðunin lá fyrir ræddum við hvað við þyrftum að gera til að eiga möguleika á að ljúka þessu með sóma. Elli bróðir var í besta forminu af okkur þremur og ég því sísta, en óháð grunnformi var ljóst að undirbúningurinn hjá okkur öllum hlyti að miðast við þrennt:

  1. Að bæta þrekið eins og unnt væri
  2. Að styrkja okkur og stæla
  3. Að læra á gönguskíði

Ekki þarf neina sérstaka náðargáfu né djúpa innsýn í heim afreksíþrótta til að sjá að síðastnefnda markmiðið er að mörgu leiti grunnforsenda fyrir því að ljúka lengstu gönguskíðakeppni í heimi.

Þótt við systkinin höfum haft örlítið forskot á borgaruppalin frændsystkin okkar í gönguskíðareynslu úr æsku verður sú reynsla seint talin í frásögur færandi. Það voru til gönguskíði heima á Egilsstöðum og til þeirra gripið nokkrum sinnum á vetri til að brölta nokkra kílómetra frá þjóðveginum niður að sumarbústað ættarinnar þegar veður og snjóalög leyfðu. Ekkert okkar hefur fengið neina kennslu á gönguskíði né mætt á gönguskíðaæfingar. Okkar takmarkaða reynsla fólst í "frjálsri aðferð" og varla hægt að segja að neitt okkar hafi haft reynslu af því að ganga í troðnu spori, hvað þá tekið þátt í keppni.

Eins og alþjóð veit er ekki á snjóþekjuna í Bláfjöllum treystandi, en þarna í fyrravetur vildi svo til að það gaf til skíðaæfinga fljótlega eftir að við tókum þessa ákvörðun og við æddum því í fjöllin við fyrsta tækifæri. Einn af kostunum við það að koma seinna til leiks í svona ættarsporti er sá að víða er að finna í geymslum og bílskúrum búnað sem fáanlegur er til láns.

Við vissum þó að ákveðinn grunnbúnað þyrftum við sjálfir að eiga og byggt á reynslunni af þeim lánsbúnaði sem við höfðum krækt okkur í tókum við saman stóra pöntun í sænska vefverslun. Allir keyptum við okkur stafi og hanska, við Elli keyptum líka skó og Elli splæsti í ný skíði. Góssið var sent á dvalarstað Vasagönguhóps sem spreytti sig það árið (pabbi var með í för þótt oddatöluár væri og gekk hálf-vasa) og þau báru það með heim.

Þar með var okkur ekkert að vanbúnaði að æfa og æfa og æfa. En það er nú eins og það er að halda sér að verki við æfingar á snjólitlu landi og líklega efni í sér pistil hvernig gekk að standa við metnaðarfullar fyrirætlanir.


< Fyrri færsla:
Gagnslaus Vasa-tölfræði
Næsta færsla: >
Aprílgabbið í ár
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry