apríl 2011 - færslur


Beðið eftir pólfluginu

Hér í Noregi magnast spennan eftir því að geta lagt af stað í leiðangurinn á pólinn (þótt blessunarlega sé ég ekki á leiðinni alveg svo langt). Ég hef ekki hitt prinsinn almennilega ennþá, en skilst að hann sé bara nokkuð skemmtilegur.

Eins og fram kom í fréttaskeyti fyrr í morgun er hópurinn enn að bíða eftir að geta flogið yfir á íshelluna.

Vonandi getum við lagt í hann á morgun, á afmælisdaginn minn!

Af öryggisástæðum hef ég lítið rætt þennan leiðangur á netinu, nema bara í lokuðum hópi. En ég er sem sagt með hópi íslenskra kvikmyndagerðarmanna sem fylgja Harry bretaprins þessa daga sem hann fylgir hópi enskra hermanna (núverandi og fyrrverandi) á Norðurpólinn.

Við Íslendingarnir erum strangt til tekið ekki hluti af opinbera hópnum og gætum þess að ekki glytti í okkur í fréttamyndum. Reyndar sést Bibbi í vídeóinu af Harry að svamla í ísvökinni ef menn fylgjast grannt með.

Það er löng saga að skýra hvernig ég endaði í þessum hópi, en í stuttu máli kom nafn mitt upp þegar farið var að leita að Íslendingum sem hefðu reynslu af löngum skíðagöngum og starfi með hjálparsveitum. Þótt ferill minn með björgunarsveitinni fyrir austan hafi verið stuttur, dugði hann þó til að kenna manni helstu grunnatriðin og harkvöðvarnir voru svo þjálfaðir upp í undirbúningnum fyrir Vasagönguna.

Við megum reyndar ekkert birta af myndum eða efni fyrr en heimildarmyndin verður formlega gefin út, en ef einhver hefur áhuga á að fá aðganginn að lokaða vefnum þar sem við setjum grófklippt vídeóefni og ljósmyndirnar sem við erum að taka, má senda mér póst.

Ég fylgist lítið með aðalpóstinum mínum, enda verður bandbreiddin takmörkuð þegar á ísinn er komið, en ég bjó til sérstakt netfang sem ég mun fylgjast með í gegnum gerfihnattasímann:

polar@thorarinn.com

Frekari fréttir síðar þegar ég kem aftur til baka (og fjölmiðlabanninu verður aflétt).