Nördapælingar um vefinn

Eftir ágætt spjall við Borgar um daginn er ég eiginlega búinn að taka ákvörðun um þónokkra stefnubreytingu varðandi framtíðarþróun thorarinn.com.

(Aðvörun, þetta er mjög sjálfhverft og nördísk færsla. Viðkvæmum er því ráðlagt að hætta strax lestri. Nördlæsir eru varaðir við að hér er engan nýjan sannleik að finna, bara ég að huxa upphátt.)

Upphaflega pælingin var að flytja mig alveg yfir í WordPress og ég er búinn að skrifa export virkni sem getur dömpað allri dagbókinni úr heimasmíðaða PHP/MySQL kerfinu mínu (Dvergur CMS) yfir í WordPress RSS format (og þannig hægt að flytja núverandi dagbók með haus og hala yfir í WP. Sömuleiðis er ég byrjaður að berja saman stílblað fyrir heimasmíðað WordPress theme sem yrði þá hið nýja lúkk.

Hins vegar er ég ekki eins sannfærður og áður um kosti þess að færa mig yfir í WP. Í aðra höndina veit ég að kerfið mitt er orðið gamalt og forritað af mjög takmarkaðri þekkingu, í raun mesta furða hvað það hefur lafað lengi án teljandi árása (mér vitanlega). Með WordPress fær maður betur "rýnt" umhverfi, en á móti gefur það kannski ekki sama frelsi til að krukka í innviðunum og míns eigins (þá sjaldan ég finn hjá mér þörf til slíks) auk þess sem maður þarf að vera stöðugt á tánum í vígbúnaðarkapphlaupinu.

Eins og lesendur vita hef ég verið lélegur að skrifa hérna undanfarin ár. Í og með er það vegna þess að viðmótið sem ég nota fyrir nýskráningu er ekki það liprasta (ég skrifa beint html) - sér í lagi þegar lyklaborðið á netbókinni sem ég sit oft með í fanginu er sérlega óheppilegt til html skrifta (þar sem takka með < og > vantar).

Ég hafði séð fyrir mér að WYSIWYG ritill myndi kannski ýta undir meira "spontant" skriftir, en eftir áðurnefnt spjall hef ég velt því alvarlega fyrir mér að bæta við Markdown virkni í kerfið, í þeirri von að þá verði ég duglegri að skrifa. Það er þó rétt að taka fram að ég hef litla sem enga reynslu af Markdown (en þessi færsla er til gamans samin í Markdown gegnum online ritil).

Helstu áskoranir

Nú er ég sem sagt með mitt eigið kerfi og rúmlega þúsund dagbókarfærslur (blogg) í MySQL grunni (geymt sem html kóði og hefðbundið meta-data) auk rúmlega 700 athugasemda sem eru að mestu spam-fríar (þökk sé heimasmíðaðri staðfestingarlógík).

Ég er ekki það púrítanskur að sjái þörf á að converta gömlu html-færslunum yfir í markdown til að eiga einsleitan grunn. Þess í stað sé ég fyrir mér að bæta bara nýjum dálki í gagnagrunninn þar sem ég get frumskráð markdown kóða, auk þess sem ég myndi áfram vista niðurstöðu af vörpun í html í sama dálki og áður.

Núverandi bakendaviðmót byggir á því að skrifa kóða í innsláttarreit, sjá svo "forsmekk" þar sem ég fæ tilfinningu fyrir því hvernig endanlegt útlit verður. Allar vistanir eru svo gegnum forsmekk-sýnina, þ.e. ef ég geri breytingu í kóðanum bið ég aftur um forsmekk til að geta vistað breytingarnar.

Þetta myndi nýtast ágætlega ef ég færi mig yfir í Markdown, þ.e. "preview" skrefið myndi varpa yfir í html og sýna niðurstöðuna áður en vistað er í gagnagrunninn. Til að geta unnið með eldri færslur myndi ég svo líklega þurfa að möguleika á því að geta líka valið að vinna beint í html-kóðanum.

Stóra spurningin í augnablikinu er hvort ég á að setja upp lógík sem hefur auga með því hvort þær færslur sem eiga sér bæði Markdown og html kóða séu "hreinar", þ.e. hvort ég muni hafa þörf fyrir að krukka í html kóðanum sérstaklega og þurfi þá að merkja þær færslur sem slíkar. Ég myndi þá líklega gera það með því að eiga hash-gildi (fingraför) fyrir annars vegar niðurstöðuna úr nýjustu Markdown -> html vörpun og hins vegar html-kóðann eins og hann er í gagnagrunninum hverju sinni.

Líklega er þó best að láta það eiga sig. Ef ég mun einhvern tíman þurfa að gera eitthvað massívt byggt á Markdown kóðanum sem ég hef vistað, get ég alveg eins framkvæmt slíkan samanburð "on the fly". Óþarfi að flækja slíku inn í hina daglegu umsýslu.

Eða hvað?

Næstu skref

Ef ég held mínu striki með þetta plan myndi ég samhliða bæta við Markdown lógík (í gagnagrunn og umsýsluviðmótið) og uppfæra sniðmát og CSS stíla fyrir nýtt útlit.

Þekki ég sjálfan mig rétt mun ég finna hjá mér þörf fyrir að umskrifa eitthvað af dóti sem virkar prýðilega en mér finnst óskiljanlegt og/eða hræðilegt þegar ég reyni að glöggva mig aftur á því hvað gerir hvað (komin 7 ár síðan ég vann bróðurpartinn af þessu). Þannig að það mun örugglega hægja aðeins á mér.

Næsta skref eftir Markdown og nýtt útlit verður svo líklega að bæta "nautheimskri" cache virkni ofan á kerfið með því að láta kerfið skrifa út statískar html-skrár í skráarsvæðið og birta þær (nema um sé að ræða kerfisviðburð sem krefst endurnýjunar, t.d. vistun á nýju kommenti).

Til þess mun ég líklega þurfa að leysa ákveðna hluti með javascript, sem ég leysi nú á servernum (t.d. varðandi comment-smákökur). Það gerist svo vonandi með hinu nördaverkefninu sem ég er með í gangi, þ.e. að kenna sjálfum mér "alvöru" javascript.

Meira um það síðar.


< Fyrri færsla:
Tuðað yfir týpógrafíu
Næsta færsla: >
Leitað að Bygga
 


Athugasemdir (2)

1.

Borgar reit 30. maí 2011:

Markdown er málið. En það verður süper þægilegt þegar að maður hefur on-the-fly preview af því sem maður er að gera. Ég er farinn að skrifa bókstaflega allt í customized Showdown-preview glugga. Sem er pretty much WYSIWYG fyrir nörda.

Þrátt fyrir að ég haldi því fram að eðlilegur fjöldi gagnagrunnsfyrirspurna við að servera blogskjali sé 0, þá er það samt ekki alveg trivial. T.d. ertu með mánaðarlegt archive með teljara hér í hliðardálki: Þú þarft því að óbreyttu að rendera allar færslur þegar þú birtir eina nýja. Eða vera klókur. :-)

2.

Þórarinn sjálfur reit 30. maí 2011:

Þessi Showdown gluggi er snilld.

Já, það eru ákveðnir hlutir sem ég mun þurfa að endurhuxa, t.d. arkívuyfirlitið. Það verður einhver blanda af því að sleppa fídusum alveg og því að skjóta þeim inn með javascript eftirá (þ.e. non-essential upplýsingum á borð við færslufjölda eftir mánuðum).

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry