Leitað að Bygga

Í vinnunni um daginn barst talið einhverra hluta vegna að nýju íslensku morgunkorni úr byggi.

Síðar sama dag var ég staddur í Nóatúni og flaug í hug að hafa augun opin fyrir þessu nýja íslenska dæmi (og mundi þá ekkert hvað það héti). Ég leitaði mest í múslí-enda morgunverðarrekkans en fann ekkert sem gat passað við það sem ég taldi mig vera að leita að.

Fyrir tilviljun reyndist Hrafn vinnufélagi minn (og einn þeirra sem hafði tekið þátt í áðurnefndu tali) í búðinni á sama tíma og ég bað hann um að benda mér á þetta byggdæmi. Hann gerði það og benti á mun stærri kassa en ég hafði verið að skima eftir, inn á milli Cheerios og Kellogs pakkanna.

Það merkilega var að jafnvel þótt hann hefði bent mér á kassann var hann engu að síður næstum ósýnilegur. Það var eiginlega eins og það væri eyða í morgunverðarrekkanum.

Verandi áhugamaður um grafíska hönnun ákvað ég að gera smá fótósjopputilraunir byggðar á kenningu minni um hvernig jafn litskrúðug hönnun gæti verið svona óáberandi.

(TL;DR: Vantar focal point.)

Byggi pakkinn umræddi

Skrautleg pakkning og mikið af litum, en samt...

Samanburður við keppinautana

Stillt upp með dæmigerðum keppinautum:

Byggi, Kellogs kornflögur og Cheerios

Tökum fyrst litina úr umferð:

Svarthvítir Byggi, Kellogs kornflögur og Cheerios

Án litanna verður strax auðveldara að sjá að Bygga blessaðan vantar skerpuna sem hinir hafa. Ef við að auki pírum augun hverfur Bygga nafnið alveg, en það er enn hægt að lesa nöfn hinna:

Svarthvítir Byggi, Kellogs kornflögur og Cheerios úr fókus

Til að sýna að ég er ekki að svindla með því að fjarlægja litina er hér loks útgáfa þar sem pakkarnir eru bara teknir úr fókus en litirnir halda sér.

Byggi, Kellogs kornflögur og Cheerios úr fókus

Meðan Cheerios og Corn Flakes byggja á því að vera Mynd + Nafn, fellur Byggi hönnunin í þá gryfju að gera nafnið að hluta myndarinnar og að auki í svipuðum litatónum.

Nú er ég alls ekki að segja að hönnunin á Bygga kassanum sé ljót eða óspennandi, en við hlið þaulhannaðra umbúða samkeppninnar er hún hins vegar óþarflega flöt og óáberandi.

Með fókus-trixinu sést t.d. að það er ekki nafnið sem er mest áberandi á pakkanum, heldur fánaregnboginn. Sem er ekki alslæmt, það er vissulega sérstaða að varan skuli vera íslensk, en samt...

Eins og meistari Yoda hefði örugglega aldrei sagt; það er ekki litafjöldinn einn sem skapar eftirtektina.


< Fyrri færsla:
Nördapælingar um vefinn
Næsta færsla: >
Minns á Google
 


Athugasemdir (2)

1.

siggi litli reit 01. júlí 2011:

Þetta eru nákvæmlega sömu vangaveltur og ég fór í gegnum þegar ég komst fyrst að tilvist þessa morgunkorns.
Ég ætla ekki að ræða bragðið sem minnir helst á endurunninn pappamassa, sem reyndar rímar mjög vel við áherslur í brandínginu.
Við þessa branding pælingar mætti hinsvegar bæta stórri færslu um vef kornsins.

2.

Hjalti Rögnvaldsson reit 02. júlí 2011:

Sæll, er að lesa eftir þig í fyrsta skipti.

Þökk sé þér veit ég núna um tilvist þessa morgunkorns. Þetta er mjög áhugaverð pæling hjá þér, sérstaklega þegar við spáum í hvað fjöllitur pakkinn á ekki roð í Kellogg og félaga.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry