Minns á Google

Það að gúggla sjálfan sig er göfug íþrótt og góð skemmtan. Það er ekki endilega alltaf augljóst hvað ræður því hvaða ritháttur skilar hvaða niðurstöðum, og það sem er kannski forvitnilegra er hversu mikill munur er stundum á google.com og google.is.

Eftirfarandi myndir sýna hlið við hlið niðurstöðu sömu leitar á google.com annars vegar (vinstra megin, ljós rönd efst) og google.is hins vegar (hægra megin, dökk rönd). Hægt er að smella á myndirnar til að opna viðkomandi leit og sjá hvernig hún stendur hverju sinni.

Þær leitarniðurstöður sem eiga við mig í einhverri mynd eru gullitaðar.

Thorarinn og Þórarinn

Ég hef verið duglegur að grípa notendanafnið 'thorarinn' hvar sem færi gefst. Þannig á ég thorarinn.com og er thorarinn hjá google, twitter, facebook, linkedin, about.me, og einhverjum fleiri stöðum sem ég er að gleyma.

Þeir nafnar mínir Gunnarsson (höfundarnafn bandarísks rithöfundar), B. Þorláksson og Eldjárn eru yfirleitt ofar en ég hjá Google og eru það líka í augnablikinu. Kannski maður þurfi að skrifa um sig wikipedia færslu?

Leitarorð: thorarinn

Google niðurstaða Google niðurstaða

Sambærilegt er svo uppi á teningnum þegar leitað er með þorni, þ.e. að 'Þórarinn'. En þar virðast 'thorarinn' notendanöfnin mín ekki gagnast mér jafn mikið. Kannski af því að á fæstum þeirra prófíla hef ég skrifað nafnið mitt með þorni (líka).

Leitarorð: þórarinn

Google niðurstaða Google niðurstaða

Við nafnarnir Stefánsson

Mig minnir að síðast þegar ég fletti upp 'Þórarinn Stefánsson' í þjóðskrá höfum við verið af stærðargráðunni 20 alnafnar. Þótt það stríði nokkuð á móti tölfræðinni erum við (a.m.k.) þrír alnafnar sem erum að vinna við vefmál í einni eða annarri mynd. Það eru auk mín, Tóti Stefánsson (oftast kenndur við Hexia) og Þórarinn Stefánsson (NetInternals, Netverk o.fl.). Svo skemmtilega vill til að ég hef fundað með báðum þeirra í tengslum við vinnuna hjá Hugsmiðjunni, þó bara annan í einu.

Þannig að þegar föðurnafnið bætist við þrengist vissulega hringurinn um mig, en þeir alnafnar mínir veita mér harða samkeppni. (Og ekki má gleyma píanóleikaranum sem á eitthvað af þessum niðurstöðum).

Leitarorð: thorarinn stefansson

Google niðurstaða Google niðurstaða

Hér verð ég að þakka Emilie samstarfskonu minni í mastersverkefninu fyrir aukinn sýnileika, þar sem vísindapappírar byggðir á því eru farnir að skjóta upp kollinum með mínu nafni.

Leitarorð: þórarinn stefánsson

Google niðurstaða Google niðurstaða

Ég get svo svarið að það voru Google prófílar mínir og Tóta sem skiptust á um að birtast þegar ég gerði sambærilega leit fyrr í vikunni. Kannski er það aukinn sýnileiki þeirra með "nýja Google" sem breytir vægi þeirra - ég setti t.d. ekki inn ljósmynd á minn fyrr en ég sá að Tóti var búinn að því. En þetta er ss. prófíll NetInternals alnafnans sem þarna birtist. núna

Hvað með Tóró?

Það veikir líklega gúgl-stöðu mína að yfirleitt gegni ég nafninu Tóró í tengslum við vefstúss mitt og því er fulla nafnið ekki að fá sama vægi og ella út frá tilvísunum og umræðum.

Einhverjir markaðsfræðingar myndu líklega vilja meina að ég væri að "útþynna brandið" með því að reyna að hösla mér völl sem 'thorarinn' frekar en Tóró. En þar spilar auðvitað inn í að gagnvart hinum spænskumælandi heimi og nautaötum hans, þeim japanska og túnfisknum, að ógleymdum bandaríska sláttuvélaframleiðandanum má minn Tóró sín lítils einn og sér.

Það er þó við því að búast að leit að 'toro stefansson' ætti að þrengja hringinn nokkuð vel utan um mig. Það er reyndar raunin, en kemur t.d. á óvart að annað sætið (bæði hjá .com og .is) á alnafni minn hjá NetInternals (já ég veit að þetta er dálítið ruglingslegt). Þar virðist það vera föðurnafnið sem ýtir honum upp - nema að mér hafi tekist að koma inn þeirri hugmynd hjá Google að 'Tóró' sé algeng gælunafn fyrir Þórarin?

Leitarorð: toro stefansson

Google niðurstaða Google niðurstaða

Er svo einhver lærdómur af þessu öllu? Nei, líklega ekki. Nema þá kannski að það er áhugaverð tilraun að prófa að koma Þorn-útgáfu nafnsins víðar í prófílunum mínum og sjá hvort mér tekst ekki að krækja betur akkerum í Tóró (svo lengi sem föðurnafnið fylgir með).

Ha? Sjálfhverfur? Ég? Hvenær gúgglaðir þú þig síðast?


< Fyrri færsla:
Leitað að Bygga
Næsta færsla: >
Byggi eykur skerpuna
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry