Viðmótsrýnt í Meniga
08. febrúar 2015 | 0 aths.
Ég er að reyna að venja mig á að vera duglegri að nota Meniga appið, en það er eitt viðmótsatriði sem hefur truflað mig aðeins og ég ætla að sjá hvort mér tekst kannski að nota þennan vettvang til að koma tillögu að betrumbótum á framfæri.
Áður en lengra er haldið er rétt að nefna að ég er með útgáfu 2.1.0 f. Android.
Ein af skjámyndunum í Meniga appinu býður upp á yfirlit yfir stöðu útgjalda í völdum flokkum og ber hana saman við áætlun (viðkomandi notanda) fyrir hvern flokk.
Hér sést t.d. hluti af niðurstöðum desembermánaðar hjá mér. (Þar sem appið leyfir ekki að tekin séu skjáskot er þessi mynd tekin á gamaldags myndavél (þó ekki filmu)).
Fyrst er rétt að nefna að mínus-tölurnar tákna að um er að ræða útgjöld, ekki hversu mikið farið er yfir áætlun.
Eins og sést fór ég yfir áætlun bæði í matarinnkaupum og skyndibita. En í hvorum flokknum fór ég heilar 394 krónur yfir áætlun?
Birtingarmynd þess að fara yfir áætlun er sams konar rauð lína. Það er vissulega lítið mál að smella á línuna til að fá sundurliðun, en hér væri augljóslega hægt að gera aðeins betur.
Fyrsta útfærsla
Það þarf ekki að vera flóknara en bara að skella prósentutölum ofan á rauðu línurnar til að sjá í hendingu (e. „at a glance“) hversu mikið farið var yfir:
Það var sem sé í skyndibitanum sem ég fór ca. tvær kokteilsósur fram yfir áætlun. Áramótasteikin sprengdi hins vegar innkaupaáætlunina.
Þetta þarf auðvitað ekki að gera við grænar línur, þær gefa með lengd sinni ágætlega til kynna hversu langt er saxað á áætlunina. Sem aftur leiðir mig að annarri betrumbót.
Önnur útfærsla
Ef við horfum á „farið yfir strikið kórónuna“ sem hlutfall af 100% breiddinni, sést að í miðja kórónu eru ca. 6%:
Þannig að í annarri ítrun legg ég til að til verði tvær útgáfur af rauðum línum; önnur fyrir það þegar farið er meira en 5% yfir áætlun og önnur fyrir yfirskot af stærðargráðunni 0-5%. Þá yrðu þessar línur mínar í desember eitthvað í líkingu við:
Niðurstaða
Með einfaldri breytingu (birtingu prósentutalna þegar farið er yfir 100%) er notendum auðveldað að gera sér grein fyrir því hversu mikið þeir hafa farið (eða eru að fara) yfir áætlun.
Með því að eiga að auki aðra birtingu fyrir þau tilvik þegar farið er örlítið yfir áætlun er hægt að gera enn grafískara í skyn hvort yfirskotið er umtalsvert eða ekki.
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry