Fyllerísraus

Smásaga

Ég veit ekki enn hvernig á því stóð að ég settist einmitt hjá honum, kannski af því að hann leit út fyrir að vera ágætis náungi, kannski var það bara af því að hann átti enn eftir tæplega hálfa viskíflösku á borðinu fyrir framan sig. Á leið inn í eldhúsið leit ég yfir vígvöll gleðinnar og virti fyrir mér eftirlifendur í partýinu sem var óðum að fjara út, þó ekki svo að skilja að það hafi nokkurn tíman náð neins konar hámarki.

Hann virtist hafa hellt sjálfum sér upp á kaffi og sat og sötraði það svart úr mjólkurglasi, í eldhúsi fullu af kaffibollum. Ég ákvað að hann hlyti að vera bóndi eða sjómaður.

Ég settist við borðið hjá honum en man ekki til þess að hann hafi sýnt nein viðbrögð við því, enda hafði ég hugann allan við flöskuna, tólf ára skoskt, hefði þó eins mátt vera heimabrugg mín vegna. Óræða handahreyfingu túlkaði ég sem boð og hellti mér í glas og reyndi að spjalla í staðinn.

Þótt partýin þennan vetur hafi orðið ófá og flest fjörugri en þetta, er þetta samt það eina þeirra sem ég man eitthvað eftir í dag, og það voru orð þessa manns sem brenndust inn í minninguna og allt partýið fylgdi með. Það er samt réttara að segja að það hafi verið alvaran að baki orðunum sem hafði þessi áhrif, og líka það sem hann lét ósagt.

Hann hét Snorri og var ekki skrifstofumaður eins og nafnið benti til, heldur sjómaður, hafði verið það alla sína ævi og margar fleiri þar á undan, ég hváði, hann trúði mér fyrir því að hann ætti minningar frá fjölmörgum tilverustigum og hann hefði alltaf verið sjómaður, um allan heim, fyllti upp hálftómt kaffiglasið með skota, og alltaf drukknað, í hálfum hljóðum. Ég þoli einfaldlega ekki uppáþrengjandi nýaldarpostula, sérstaklega ekki í svona samkomum svo ég ákvað að stinga af þegar hann byrjaði að tala um endurholdgun, en hann greip í handlegginn á mér og bað mig að setjast aftur, ég horfðist í augu við glottandi hauskúpu á vöðvaberum handlegg og hlýddi.

Hann hafði byrjað á sjó átta ára á trillu með pabba sínum og föðurbróður og verið á sjónum síðan, sagðist ekki einu sinni hafa klárað grunnskólann almennilega. Hann hafði lengi vitað að sjórinn væri hans örlög og yrði hans dauði þegar þar að kæmi. Hann hlyti að hafa gert eitthvað af sér forðum, en hvað... auk þess er löngu of seint að bæta fyrir það núna.

Stór sopi.

Ég spurði hvers vegna hann færi ekki bara í land og gleymdi þessu. Hann hafði reynt það fyrir nokkrum árum, fékk vinnu í bænum, reyndi að lifa eins og allir hinir, hafið leyfði það ekki, hann var rótlaus, fór að drekka meira og síðan að éta pillur. Loks dró frændi hans hann hálfdauðan út í línudall sem frændinn var stýrimaður á og bjargaði þannig lífi hans, í bili. Samt var hann viss um að hann hefði aldrei fengið að drepast á þurru landi, hefði kannski rúllað í höfnina, glotti og fyllti glasið aftur.

Þagði lengi, horfði í glasið, hugsi.

Hvað ertu að hugsa? spurði ég. Þögn. Ég er að hugsa um strákana. Strákana, áttu börn? Nei, á bátnum. Þögn. Nú? Mig er farið að dreyma. Dreyma hvað?

Hann svaraði ekki, heldur tæmdi glasið í einum teig og stóð rólega upp og gekk út úr eldhúsinu. Í dyrunum stansaði hann, horfði í dyrastafinn og sagði lágt; Við förum út á morgun.

Ég skildi strax og það fór um mig nístandi hrollur. Hurðin skall í lás á eftir honum. Ég hafði ekki einu sinni rænu á að leggja hald á viskíflöskuna.


Þetta skrifaði ég á fyrsta árinu mínu í Háskólanum, 1994. Mig minnir að hugmyndin sé aðeins eldri en þarna skráði ég hana niður.

Eins og margar af sögunum mínum hefur þessi drungalegan tón. Það er einhvern vegin flottara en sögur af rósrauðum skýjum - meira "rebel".

Snorra vísunin er í ljóð sem ég man ekki lengur hver samdi en er í minningunni nokkurn vegin svona "Einhvern veginn finnst mér að allir skrifstofumenn hljóti að heita Snorri".

Viðbót:
Umrætt ljóð er eftir Einar Má Guðmundsson, heitir "tilfinning" og mér hefur tekist að muna það orðrétt! Að vísu skrifar hann Snorra með litlum staf, en það eru nú bara stælar.