Kvistir

Smásaga / Örsögur

Kvistur: Frú Brynhildur

Það er mér minnisstætt þegar ég hitti frú Brynhildi í fyrsta sinn. Við vorum þá nýflutt í íbúð á hæðinni fyrir neðan hana í snoturri blokk í Breiðholtinu.

Ætli við höfum nokkuð verið búsett þarna nema í örfáa daga þegar frú Brynhildur birtist eitt kvöldið og sagði að Tryggur yrði að fara. Það væri stranglega bannað að vera með gæludýr í fjölbýlishúsum og að sonur hennar væri með ofnæmi og hefði legið rúmfastur síðan við fluttum inn.

Hún vildi hvorki þiggja kaffi né te.

Svo fór að lokum að systursonur minn tók Trygg í fóstur. Enn þann dag í dag er það mér dulin ráðgáta hvernig frú Brynhildur vissi að við ættum gullfisk.

Tryggur hefur nú safnast til feðra sinna og búrið stendur tómt.

Kvistur: Árni

Hann Árni hataði alla tíð íþróttir af lífi og sál og enga íþrótt meira en knattspyrnu. Hann hataði íþróttahreyfinguna eins og hún lagði sig og enga meira en KSÍ.

Það varð honum oft að umræðuefni að nær væri að verja fé í Háskólann eða Gullfoss heldur en þessa rugludalla.

Það var honum sem helgistund að mæta á heimaleiki íslenska knattspyrnulandsliðsins til þess að hvetja andstæðinganna af eljusemi og atorku.

Ekki sótti hann síður í leiki kvennalandsliðsins sem hann kallaði "bláa lessuherinn".

Hann missti aldrei úr landsleik, nema þegar hann fékk nýrnasteina og var að gera vesalings hjúkrunarkonurnar á deildinni brjálaðar.

Síðar átti hann eftir að frelsast, leggja skóna á hilluna og gangast Guði á hönd.

Kvistur: Sveppakarlinn

Þegar ég byrjaði að vinna var hann kominn í tvo plastpoka og fyrir löngu orðinn að goðsögn. Það fyrsta sem nýjum starfsmönnum var sagt frá eftir að búið var að kenna þeim á kassann og færibandið var Sveppi gamli eins og hann var kallaður þegar hann barst í tal í kaffitímum.

Sagan sagði að hann hefði byrjað smátt, tínt nokkra sveppi í poka, valið þá af alúð og alltaf talið þá í hálfum hljóðum. Fyrst í stað tók enginn sérstaklega eftir þessu, verslunin var enda hálffull af gamalmennum næstum alla daga. Það var ekki fyrr en hann fór að minnka við sig aðra matvöru og var farinn að kaupa hálfan gegnsæjan poka af sveppum á hverjum fimmtudegi að hann varð að umræðuefni.

Hann virtist alltaf fjölga smám saman sveppunum sem hann keypti og þeir sem höfðu gaman af að velta sér upp úr tölum vildu meina að sveppunum fjölgaði um einn í hverri viku. Einu sinni gerðum við meira að segja tilraun og komumst að því að þetta gæti verið nærri lagi.

Í innkaupakörfunni hans var undir það síðasta ekkert nema sveppir og einstaka sinnum keypti hann stóra flösku af tómatsósu og/eða klósettpappír.

Um hann Sveppa gamla spunnust ótal sögur. Ein sagan sagði að krabbameinssjúk konan hans gæti ekkert látið í sig nema sveppi. Önnur að það hefði verið ekið á hann og hann skaddast á heila.

Ég held sjálf að hann hafi aðallega verið einmanna.

Löngu eftir að ég var komin í aðra vinnu tók ég fyrir tilviljun eftir minningargrein um hann í Morgunblaðinu. Ég þekkti hann af ljósmyndinni sem virtist vera frá því um 1970.

Samkvæmt minningargreininni hét hann Ásbjörn. Hún var skrifuð af sjúkraliða.


Þessi sería var samin um jól, annað hvort ´97 eða ´98.

Væri ég að spilla fyrir lesandanum ef ég myndi ljóstra því upp að þetta er allt uppspuni frá rótum?