London, haustið 2001
Ferðasaga
Lundúnaför - upphaf
Við pabbi skruppum í helgarferð til London um miðjan september 2001. Ferðin átti sér nokkurn aðdraganda, en tilgangur hennar var aðallega að lyfta okkur upp og skoða stórborgina.
Hér á eftir fer ferðasagan í máli og myndum.
Eins og venjan er með flug til útlanda krafðist þessi ferð þess að maður vaknaði fyrir allar aldir. Vekjaraklukkan stillt á 5 og ég var merkilega hress þegar ég settist undir stýrið á túrbórauða kagganum og við brunuðum suðureftir hálftíma síðar.
Ferðin var farin fimmtudeginum eftir að farþegavélunum var flogið á skotmörk í Bandaríkjunum 11. september. Keflavíkurvöllur virtist vera með aukið eftirlit, sem aðallega fólst í því að löggur með skammbyssur voru meira sýnilegar og auka vegabréfatékk var við innganginn í vélina. Þetta var einhvernvegin hálf kómískt og sumir voru greinilega ekki alveg með á nótunum hvert hlutverk þeirra væri. Ekki settum við nein vopnaleitartæki í gang og hökutoppurinn sem bæst hafði við 9 ára gamla passamyndina olli ekki teljandi vanda.
Flugið út var tíðindalaust. Við höfðum 3 sæti fyrir okkur tvo þannig að maður gat aðeins breitt úr sér (þótt ég hefði alveg þegið meira fótarými). Vegna meðvinds vorum við frekar fljót í förum og vélin lenti í Lundúnaborg rétt fyrir hádegi að staðartíma.
Ekki var sjáanlegt að Heathrow hefði fríkkað neitt síðan ég kom síðast (og fyrst) til London, í eins dags millilendingu á leið úr skólaferðalagi í Portúgal ´92. Fyrsta skrefið var að prufukeyra salerni innfæddra og þá var hægt að svipast um eftir töskum.
Í stað þess að skrölta í neðanjarðarlestinni alla leið inn í miðborg ákváðum við að vera grand á því og taka ofurhraðlest Heiðrúnarflugvallar á Paddingtonstöðina.
Það er ekki oft sem sveitamennirnir fara í borgina og um að gera að slá um sig og ferðast með stæl. Hraðlestin fer milli Heathrow og Paddington á kortéri sem er ósköp hæfilegt, að minnsta kosti er útsýnið ekki sérlega spennandi (bakgarðar og veggjakrot).
Á Paddington sáust engir birnir, enda eflaust í hádegishléi. Þar keyptum við 10 miða í neðanjarðarlestina sem duga áttu okkur a.m.k. fyrst um sinn - og síðan var stefnan tekin á Tottenham Court Road stöðina sem átti að vera steinsnar frá hótelinu.
Það reyndist og rétt vera, glitti í hótelið um leið og við komum upp úr lestargöngunum og við drösluðum töskunum inn á hótel. Saint Giles Hotel, alveg prýðilegt hótel og frábærlega staðsett.
Þar sem ég hef gaman af því að teikna skýringarmyndir birtist hér skematísk teikning af helstu kennileitum hverfisins. Oxford Street er náttúrulega með frægustu verslunargötum heims, Charing Cross Road er ívið minni en með skemmtilegri verslunum (meira í líkingu við Laugaveginn). Soho hverfið og hverfið austan við Charing Cross eru svo full af skemmtilegum verslunum, drykkjubúllum og veitingastöðum.
Flestir okkar leiðangrar áttu sér miðpunkt á Trafalgar torginu og því er staðsetningu þess skellt með. Suður frá Trafalgar er ekki nema nokkurra mínútna gangur að Thames (við stóðumst freistinguna á að fá okkur morgunsundsprett þar).
Lundúnaför - bókabúðaleitin
Eftir að hafa tékkað okkur inn fórum við í göngutúr um borgina. Pabbi hafði séð í Lundúnahandbókinni okkar að austur af Charing Cross væri mikið af skemmtilegum bókabúðum. Við sáum þar alls konar verslanir og krár, leðurvöru, skó og tískuföt ... en engar bækur. Verandi þrjóskir menn létum við ekki deigan síga heldur örkuðum suður á bóginn þræðandi allar hliðargötur án mikils árangurs.
Við fengum okkur langlokur í litlu kaffihúsi. Þótt ég sé ekki mikill kókþambari tók ég strax eftir því hvað munaði miklu á bragðinu á ensku kóki og íslensku. Samlokurnar voru stórfínar.
Það kom svo í ljós á bakaleiðinni að ekki var þverfótað fyrir bókabúðum efst á Charing Cross sjálfri, þannig að heldur höfðum við leitað langt yfir skammt. Ekki var handbókinni um að kenna því í henni er sérstaklega minnst á bókaverslanir á Charing Cross, ég hef því leiðsögumanninn föður minn grunaðan um misminni.
Þarna suður af er yfirbyggður markaður sem heitir Covent Garden og sést á næstu mynd.
Næst var stefnan tekin á Trafalgartorgið til móts við dúfur og ljón. Þar sáum við glytta í Big Ben og honum var leyft að vera með á einni mynd.
Þar sem enginn þekkir mann,
þar er gott að vera.
Því að allan andskotann
er þar hægt að gera.
Jafnvel dagfarsprúðustu menn stóðust ekki mátið að príla upp á styttu og láta taka af sér túristamynd.
Aftan við ljónið var eitthvað ferðamannsfíbl að flækjast inni á myndinni, hann var snarlega fótósjoppaður burtu!.
Það mun vera bannað að gefa dúfunum á Trafalgar að éta, en líklega hefur gleymst að tilkynna dúfunum það formlega.
Það er kannski eins gott, því ef þær yrðu sveltar gripu þær eftir vill til uppreisnar og hætt er við að ferðamönnum myndi fækka ef dúfurnar færu að narta í þá. Nóg er víst af þeim þarna (bæði ferðamönnum og dúfum).
Næst töltum við okkur niður að árbakkanum, gægðust yfir Thames og pabbi ræddi heimsmálin við annan sfinxanna sem hafa auga með nál Kleópötru og gæta þess að ekki sé sprænt á undirstöðurnar. Engum sögum fer af lyktum þess samtals.
London er ekki borg sem breytist sérlega ört, en eflaust sakna margir þess að löggurnar skuli ekki lengur vera svartklæddar frá hvirfli til ilja. Þær fóru að minnsta kosti ekki fram hjá neinum í skærgulu regnkápunum, hvort sem þær voru fótgangandi eða á ferfættum (jafnvel brynvörðum) skrímslum.
Eftir að hafa þrammað um nágrennið tókum við neðanjarðarlest frá Charing Cross lestarstöðinni í miðri vinnulokaösinni, þar sem þeir sem vinna í miðbænum streyma í lestirnar sem ganga í úthverfin.
Eftir stutta ferð í fullri lest komum við heim á hótel til að taka upp úr töskum og slaka aðeins á. Kveldmatur var svo snæddur í pizzeríu hótelsins og við ákváðum að fara snemma að sofa og láta úttekt á næturlífinu bíða betri tíma.
Ég skaust þó eftir matinn yfir í Virgin Megastore sem er steinsnar frá hótelinu og gerði faglega úttekt á DVD úrvali og kostaboðum ýmsum. Ég keypti ekkert þetta kvöldið, en gat að minnsta kosti skoðað þær myndir sem ég hafði áhuga á til að geta síðar gert verðsamanburð í öðrum verslunum.
Lundúnaför - föstudagsmorgun
Við höfðum ætlað að rísa snemma úr rekkjum og hefja daginn á léttu morguntrimmi um hverfið. Þau metnaðarfullu plön fóru þó út um þúfur af ýmsum samverkandi orsökum.
Í fyrsta lagi sváfum við báðir vel og vöknuðum heldur seinna en við höfðum gert ráð fyrir. Það var þó ekkert stórmál og við bjuggum okkur til afreka. Þegar kom að því að skella vegabréfum og Visakortum aftur inn í öryggisskápinn kom hins vegar babb í bátinn. Bannsettur skápurinn neitaði að lokast.
Okkur hafði gengið ágætlega að virkja skápinn þegar við komum, en nú gerði hann algera uppreisn. Eftir ítrekaðar tilraunir urðum við að játa okkur sigraða, ég fór niður í lobbí og lýsti raunum mínum. Þar var lofað að senda mann á vettvang og hann birtist nokkrum mínútum síðar.
Þetta var greinilega maður með völd og í voða fínum jakkafötum. Hann dró upp kódabók og tókst fljótlega að temja skápinn. Eftir að hafa þakkað honum kærlega fyrir var ljóst að ekki næðum við að viðra okkur áður en morgunmatnum yrði svipt af borðum. Við fórum því óhlaupnir í breakfast, en tókum engu að síður vel til matar okkar.
Næsta mynd sýnir útsýnið út um herbergisgluggann okkar. Við vorum á 11. hæð og eins og sést hafði rignt um nóttina. Turninn vinstra megin er háskólabygging og glerhvelfingin hægra megin er British Museum.
Búið var að auglýsa að England ætlaði að votta virðingu sína vegna árásarinnar á USA með þriggja mínútna þögn. Frekar en að þegja uppi á herbergi röltum við út í sólina og tókum stefnuna á British Museum. Reyndar fórum við ekkert inn þar heldur stilltum okkur upp fyrir framan safnið og lutum höfði. Ekki get ég sagt að London hafi alveg stöðvast, en umferðargnýrinn minnkaði merkjanlega og flestir fótgangandi tóku sér stöðu. Mig grunar að hluti af túristunum sem sækja safnið hafi ekki alveg verið með á nótunum, héldu kannski að menn væru bara að slaka á og njóta veðurs.
Að þögn lokinni röltum við niður á Trafalgar torg með viðkomu á hótelinu. Þá var öryggisskápurinn aftur farinn í verkfall og við enduðum með því að setja helstu verðmæti í vörslu í lobbíinu. Við keyptum okkur farmiða í útsýnisrútu með leiðsögn og rútan lagði svo upp frá Trafalgar um hádegið með okkur á efri hæðinni.
Veðrið var ágætt og gaman að fá leiðsögn um helstu kennileiti. Leið rútunnar var þó ekki alveg samkvæmt áætlun því mikil minningarathöfn var haldin í St. Paul dómkirkjunni þennan dag með ríkisstjórn, drottningu og fleirum. Við þurftum því að leggja lykkju á leið okkar.
Eitthvað hlýtur boðskort okkar feðga að hafa misfarist, þannig að ljóst var að við yrðum að hitta drottningu við annað tækifæri. Ég er nokkuð viss um að hún er Chelsea-bulla þannig að ég vonaðist til að við myndum hitta hana á leik Tottenham og Chelsea.
Þessi mikilúðlegi dreki gætir hinna gömlu borgarmerkja Lundúna, hverfisins sem í dag kallast City.
Lundúnaför - föstudagur í Hyde Park
Eftir dágóðan rúnt stukkum við feðgar niður af efri hæðinni á horni Hyde Park og röltum okkur í gegnum hann í átt að hinu víðfræga Speakers Corner.
Fljótlega varð á vegi okkar berrassaður maður vopnaður sverði og með laufblað millum fóta. Ætli þetta eigi ekki að vera Wellington eða eitthvað ámóta stórmenni?
Þegar við pöntuðum miða á Tottenham - Chelsea átti hann að vera á laugardegi. Okkur varð þó ljóst af lestri staðarblaðanna að leikurinn hefði verið færður yfir á sunnudaginn. Þar sem við áttum flug aftur á klakann á sunnudagskvöld var ljóst að ef leikurinn yrði mikið seinna en klukkan 14 gætum við lent í tímapressu. Miðarnir (með tímasetningunum) voru ekki komnir á hótelið þannig að í Hyde Park hringdi pabbi í ferðaskrifstofuna á Fróni til að tékka á því hvort ekki væri allt í sóma.
Svo reyndist vera og von á miðunum á hótelið seinna um daginn. Þótt við værum í garðinum um hábjartan dag var þar töluvert af fólki og eins og einn rútuleiðsögumanna benti á þá var þetta fólkið sem hringt hafði í vinnuna og boðað veikindi :)
Speakers Corner hefur eflaust einhvern tíman verið fjörugra en þennan dag, svo við röltum upp yfir Oxford Street og fundum okkur efnilegan pöbb í hliðargötu þar fyrir norðan þar sem við fengum okkur samlokur og öllara.
Svo fórum við aftur til móts við leiðsögurútu og kláruðum með henni rúntinn niður á Trafalgar.
Við fórum svo í rólegheitunum aftur upp á hótel með viðkomu í bókabúð þar sem við fengum okkur kökubita og límonaði. Ég ákvað að skella mér á að tína saman 3 bækur af metsölulistanum þeirra sem ég veit ekkert um en fékk á verði tveggja. Ómögulegt að þvælast í allar þessar bókabúðir án þess að kaupa nokkrar áhugaverðar bækur.
Á hótelinu biðu okkar miðarnir á leikinn og í ljós kom að hann átti að hefjast klukkan 14 þannig að við ættum ekki að þurfa að lenda í teljandi stressi við að komast út á flugvöll eftir leik. Það var léttir, enda höfðu spekingar í lobbíinu leitt að því líkum að sunnudagsleikir væru oft seinna á ferðinni.
Kvöldmatinn borðuðum við á Garfunkel rétt hjá hótelinu og röltum svo aðeins um Soho hverfið að skoða mannlífið fyrir svefninn. Þar rakst ég á þetta frábæra veggjakrot sem ég gat ekki stillt mig um að smella mynd af. Kannski dæmigert fyrir stemmninguna sem ríkti víða þessa daga í London vegna árásarinnar (þótt mig gruni að myndin sé frá því "fyrir stríð").
Svo var það bara smá sjónvarpsgláp og farið að sofa.
Lundúnaför - laugardagsmorgun
Á laugardagsmorgninum vorum við ekkert að tvínóna við hlutina heldur skelltum á skeið og skokkuðum í klukkutíma fyrir morgunmat! Við tókum stefnuna á Regent Park og börðum augum helstu byggingar sem á vegi okkar urðu. Ég hljóp ekki með myndavélina þannig að sönnurargögn fyrir þessu afreki okkar eru engin, ég tek þó fram að við vorum ekki á fullu blússi allan þennan klukkutíma heldur brutum við tempóið upp með rösklegri göngu við og við.
Eftir morgunmatinn fórum við enn í útsýnisrútu (allt á sama sólarhringsmiðanum). Að þessu sinni fór hún að St. Paul dómkirkjunni samkvæmt áætlun og við skoðuðum dýrðina.
Á leiðinni ókum við fram hjá þessari ábúðarmiklu konu þar sem hún hafði stillt sér upp á lítilli syllu á annarri hæð. Ég náði ekki að spyrja hana að nafni en sýnist á fótstallinum að þetta muni vera María skotadrottning.
Ekki er leyfilegt að taka myndir innan dyra hjá heilögum Páli þannig að nokkrar dæmigerðar túristamyndir verða látnar duga.
Takið eftir að það vantar höfuðið á eina af skjaldmeyjum Viktoríu drottingar (þessa vinstra megin). Ég vil þó taka skýrt fram að ég kom þar hvergi nærri!.
St. Pauls mun vera með hæstu kirkjuhvelfingu í heimi að frátalinni dómkirkju heilags Péturs í Róm. Auðvitað tókst mér að klúðra því að ná hvelfingunni á mynd - en vísa bara í ferðabæklinga um London fyrir þá sem áhuga hafa á slíku.
Innan dyra var friðsæll helgiblær yfir öllu, blómvendir frá minningarathöfninni deginum áður voru enn bak við altarið og ekki laust við að sumir tárfelldu (þótt auðvitað geti ég ekkert fullyrt um af hverju það stafaði).
Kirkjan sjálf er ótrúlega mikilfengleg og ekki er erfitt að ímynda sér að hún hafi haft mikil áhrif á pöpul liðinna alda. Það er ótrúlegt að aðra eins byggingu sé hægt að reisa úr hlöðnum steini og timbri - hvað þá án nútímatóla á borð við burðarþolslíkön og byggingarkrana. Nútímamanninum þykir mikið til koma - hvað þá með fólk fyrri tíma sem ekki áttu að venjast steypu- og glerhöllum eins og við lítum næstum á sem daglegt brauð.
Frá heilögum Páli gengum við að Museum of London sem er eins konar byggðasögusafn Lundúna.
Talandi um byggðasögu vakti það töluverða athygli okkar hversu víða var verið að byggja ný hús. Á öðru hverju götuhorni voru byggingarlóðir umluktar háum girðingum með háværum vinnuvélum og tilheyrandi ryki.
Á næstu mynd sést leiðsögumaðurinn svipast um eftir leifum af Lundúnamúrnum hinum forna um leið og hann stikar ábúðarmikill til móts við Museum of London.
Lundúnaför - menningarsjokk á laugardegi
Hluti af menningarplönum laugardagsins voru að heimsækja National Gallery til að skoða myndlistarsýningu Vermers nokkurs. Ég get nú ekki sagt mikið um kauða en hann mun hafa verið ítali (?) og liðtækur með pensilinn.
National Gallery er við Trafalgar torg (eins og flest í þessari för okkar) og á leið þangað frá Museum of London smellti ég nokkrum myndum af saklausum vegfarendum.
Ég veit ekki hvort þessi för leiddi í ljós dulda hrifning mín af lögregluþjónum, en þetta er ekki eina myndin af slíkum köppum sem ég tók í ferðinni - í raun fleiri en ég þori að sýna. Þessir voru í mestu makindum að spjalla þegar ég gekk framhjá og smellti mjög leynilega af.
Sýning með helstu verkum Vermeer var sem sé samtíða okkur í London. Hún hafði víst hlotið góðar viðtökur og tekið var að líða að lokum.
Eins og sést á skiltinu var ekki hægt að kaupa miða fyrirfram, en opið yrði til 23 um kvöldið. Við stilltum okkur upp í biðröðinni um tvöleytið og ekki voru sérlega margir á undan okkur - þannig að þetta leit allt saman vel út.
Þegar um 6 manns voru fyrir framan okkur var hins vegar tilkynnt að því miður væri uppselt í dag! Okkur íslendingunum þótti meira en lítið skrýtið að hægt sé að selja upp alla miða á listsýningu níu klukkustundum fyrir lokun. Það er ekki eins og um sé að ræða sæti sem selt er í - en líklega þola málverkin ekki að of margir horfi á þau í einu, það gæti valdið óeðlilegu sliti.
Ekki þýðir að deila við dómarann og hvað þá formfasta löghlýðna borgara í National Gallery. Við sáum því fram á að ekki yrðum við þeirrar gæfu aðnjótandi að berja pensilstrokur meistarans augum. Karl faðir minn reyndi að hughreysta mig með því að á safninu væri indæl kaffitería þar sem við gætum fengið okkur kökubita og notið menningarlegs andrúmslofts.
Til að bæta gráu ofan á kolsvart menningarsjokkið kom í ljós að kaffiterían sem glatt hafði hjarta föður míns fyrr á árum var gufuð upp og í hennar stað komin minjagripaverslun. Reyndar var að finna ítalskan veitingastað í húsinu, en við vorum ekki í stuði til að fara að panta borð.
Nú voru góð ráð dýr og við aðeins farnir að finna fyrir hungri. Til að bæta okkur upp fyrir menningarmissinn ákváðum við að leita okkur uppi notalega krá til að fá okkur bita og ölkrús. Þar sem upp var runninn hápunktur hinnar ensku viku - fótboltatími - hugsuðum við okkur gott til glóðarinnar að tylla okkur einhversstaðar inn og sjá leik dagsins í sjónvarpi.
Eftir að hafa vegið og metið þó nokkra kandídata og fundið alla léttvæga kom að því að við settumst inn á krá sem bæði var opin og með laus borð. Uppi á vegg var sjónvarpstæki sem sýndi einhvers konar boltasprikl þannig að þarna þóttumst við himinn höndum hafa tekið.
Ekki er allt gull sem glóir og boltinn í sjónvarpinu reyndist vera aumt uppfyllingarefni stöðvar sem ekki hafði tímt að borga fyrir útsendingarrétt. Ég skellti mér á barinn og pantaði tvo pintara, en í ljós kom að þar var enga fasta fæðu að fá aðra en salthnetur og Pringles. Við létum okkur þó hafa það að teyga ölið á fastandi maga - og eins og allir vita þarf ekki sérlega mikið til að áhrif ölsins láti á sér kræla þegar maginn er galtómur.
Eftir þessa hressingu vorum við alveg hæfilegir í að hefja lokasprett skylduinnkaupa á minjagripum til þeirra sem heima sátu. Ég held að ég sé ívið betri í innkaupum eftir einn öllara eða svo - ég veit samt ekki hvort buddan myndi þola það að ég legði það í vana minn að þræða Kringluna undir léttum áhrifum alla laugardaga.
Minjagripakaupin gengu misvel eins og gerist, fyrir suma var ekkert mál að velja en aðrir ollu meiri vanda. Spúsur vorar (mamma og Hildur) reyndust einna erfiðastar í vali, en heimsókn í stórmarkað Marks & Spencer bjargaði þeim á tveimur brettum.
Þegar bjórmildið dugði ekki lengur til að fela hungurverkina tylltum við okkur inn á kaffihús og fengum okkur sitthvora súkkulaðitertuna - við áttum það líka fyllilega skilið eftir átök morgunsins og menningarsjokkið.
Þar handan við götuna er að finna hina sögufrægu verslun Liberty.
Við lukum svo innkaupunum á Oxford Street þar sem fyllt var í helstu eyður og maður náði hæfilega að örmagnast eftir allt þrammið. Það var því vel þegið að komast upp á hótel og skreppa í sturtu fyrir kvöldmatinn.
Þar sem um var að ræða síðasta alvöru kvöldið okkar í London hafði pabbi sigtað út ekta enskan veitingastað þar sem hann ætlaði að bjóða upp á alvöru enska stemmningu. Mér leist nú ekki nema hæfilega á titilinn "borð sveitabæjarins" og sá fyrir mér steikta lifur með piparmyntusósu eða ámóta sérenska rétti.
Pabba til sárra vonbrigða (en mér til viss léttis) kom í ljós að klassi staðarins var ekki sá hinn sami og virst hafði þegar rýnt var á glugga. Fyrir vikið olli maturinn ekki straumhvörfum í mínu lífi - en var engu að síður alveg boðlegur. Harmi sleginn leiðsögumaðurinn blés til brottfarar áður en að eftirrétti kæmi og vildi meina að hann hlytum við að geta fengið betri annars staðar.
Veðrið var alveg meiriháttar þannig að við dóluðum okkur um Soho hverfið. Skoðuðum komandi strauma í tískunni og grandskoðuðum afskaplega merkilega bókabúð sem bauð upp á allt milli himins og jarðar á götuhæð en var "barely legal" í kjallaranum.
Astoria tónleikastaðurinn er á þessum slóðum og fína kryddið Victoria var að troða upp þetta kvöld. Ég stóðst freistinguna á að upplifa þá hámenningu - enda eftirrétturinn enn óétinn.
Það fór svo að desertinn snæddum við á kunnuglegum slóðum - í pizzeríunni á hótelinu. Hvort sem ísinn minn var í alvöru ítalskur eða ekki rann hann ljúflega niður og stóðst allar væntingar.
Lundúnaför - Tottenham gegn Chelsea
Á sunnudagsmorguninn pökkuðum við saman og gerðum upp hótelherbergið. Við skelltum töskunum í geymslu og keyptum neðanjarðarmiða til að komast á þá merku járnbrautarstöð Sjö systur.
Í lestinni sáum við þónokkra sem greinilega voru á sömu leið og við og hægt um vik að elta heimamennina þegar kom að því að skipta um lestar og þess háttar.
Þegar upp úr lestarstöðinni var komið vorum við staddir á aðalstræti Tottenhamhverfisins og fólkið flest að tínast í sömu átt og við, ófáir í hvítum treyjum með þýskri bjórauglýsingu á bringunni.
Þess má til gamans geta að hvorugur okkar feðganna smakkaði enskan bjór í ferðinni svo vitað sé, kranabjórinn sem boðið var upp á var næstum undantekningarlaust Foster og flöskubjór á veitingastöðum var þýskur eða austurrískur.
Eftir að hafa þrammað drjúga stund eftir Aðalstræti með millilendingu í matvöruverslun þar sem við keyptum hressingu í formi drykkja og súkkulaðikex blasti dýrðin við, vandlega merkt þýskum íþróttavöruframleiðanda.
Eins og sjá má á meðfylgjandi skýringarmynd sátum við í austurstúkunni (B) og þurftum því að rölta hálfan hring umhverfis bygginguna. Skýringarmyndin sýnir líka að Aðalstrætið heitir í raun High Road, en það er aukaatriði.
Við vorum komnir á svæðið um einum og hálfum tíma fyrir leik. Heimamenn voru að tínast á völlinn, ræða málin og spá í spilin undir vökulum augum lögregluþjóna í gulu og vallarstarfsmanna í rauðu. Fyrir þá sem gleymt höfðu að þvo bolinn fyrir leik var hægt að kaupa sér hreina treyju og jafnvel trefil.
Þessi bíll færði mér heim sanninn um það sem mig hefur lengi grunað. Mister Bean er Tottenham aðdáandi. Ég vek sérstaka athygli á fjarveru framhjóla - þetta er þriggja hjóla tryllitæki!
Við ákváðum að vera ekkert að drolla heldur leita uppi sætin okkar og taka að anda að okkur andrúmsloftinu. Sætin okkar voru á fínum stað í stúku sem mér virtist vera ætluð fyrir ungmennastarfið og túrista (við vorum með Norðmenn fyrir aftan okkur og líklega Hollendinga fyrir framan). Fyrir vikið þótti ekki ástæða til að leita sérlega vandlega á okkur - í raun ekki neitt.
Mér þótti merkilegt að bregða mér á salerni á leið upp í stúkuna. Það var ljóst hvers konar þarfir karlpeningur á svona viðburði hefur, þarna voru 12 hlandskálar, einn klefi fyrir stórvirki og einn vaskur!
Við hlið salernisins var sjoppa þar sem hægt var að kaupa gos og bjór, en stranglega bannað var að taka allt áfengi með upp í stúku - enda alþekkt að bjór í flösku er miklu varasamari heldur en bjór sem kominn er niður í maga.
Til marks um veðurblíðuna þá voru úðarar á fullu við að bleyta völlinn svipað og á gerfigrasi. Þetta var sömu helgi og íslandsmótið í knattspyrnu fauk úr skorðum í beljanda og úrhellisrigningu.
Á risaskjáum var byrjað á upphitun fyrir leikinn, farið yfir úrslit síðustu leikja, rætt við aðstandendur liðsins og sýnd mörk. Við feðgarnir flettum leikskránni og minjagripakatalóg auk þess sem við höfðum keypt okkur tæpt kíló af dagblaði. Síðan tóku kempurnar að tínast inn á völlinn og stemmningin að magnast.
Lundúnaför - Blásið til leiks
Það er kannski rétt að taka fram að ég er hvorki eldheitur Tottenham né Chelsea aðdáandi. Þessi leikur varð einfaldlega fyrir valinu sem mest spennandi Lundúnaleikur þessarar helgar. Svo spillti auðvitað ekki fyrir að eiga kannski von um að sjá "okkar mann" Eið Smára spreyta sig á vellinum. Þegar þessi orð eru skrifuð keppast enskir fjölmiðlar við að níða skóinn af pilti fyrir að hafa fengið sér í tána - en það er annað mál.
Leikurinn hófst á mínútu þögn og það var lygilegt að heyra 36 þúsund manns þegja. Eina hljóðið sem heyrðist á leikvanginum var tíst í farsímum hingað og þangað um stúkurnar. Bandaríski fáninn blakti í hálfa stöng allan leikinn.
Öfugt við leiki hérna heima þarf maður ekki að missa af endursýningu þótt maður sé á vellinum. Risastórir skjáir sýna stanslausa útsendingu af því sem er að gerast á grasinu og endursýna mörk og glæsileg tilþrif. (Við tókum reyndar eftir að ekki voru endursýnd vafaatriði og gróf brot - líklega til að minnka álag á dómurum og hættu á óeirðum).
Maður er orðinn svo mikill sjónvarpssjúklingur að þegar maður studdist við skjáinn (til að sjá hvað var að gerast þegar boltinn var sem lengst í burtu) kom það stundum fyrir að ég gleymdi að líta aftur niður á völlinn þegar fjörið færðist nær!
Eins og áður sagði vorum við feðgar Tottenham-megin og þótt við værum kannski ekki á allra fjörugasta stað tóku margir í okkar stúku virkan þátt í leiknum. Þegar leikmenn voru kynntir til sögu var sönglað lag fyrir hvern og einn - ekki náði ég öllum textum en stór hluti af lögunum virtist sóttur í amerísk jólalög!
Stemmningin náði smám saman að hrífa mann með og ég var farinn að öskra og púa í takt við heimamenn. Að vísu lét ég mér nægja að hrópa á íslensku - en ég held að leikmenn hafi hvort eð er ekki heyrt orðaskil þannig að það kom varla að sök. Ég mun því nota orðið við um það samfélag Tottenham manna sem ég tók smám saman að tilheyra.
Það var ljóst alveg frá upphafi að við vorum mjög á móti Chelsea leikmanninum Petit. Baulið á hann hófst strax í upphituninni og ég hef hann grunaðan um að hafa unnið sér það til óvildar að hafa leikið með erkifjendunum í Arsenal hérna um árið.
Eins og sést á myndinni hér fyrir ofan er ekki sérlega langt frá vellinum að áhorfendum og ég skil vel að erfitt sé fyrir dómara að dæma á heimaliðið með þennan vígreifa múg steinsnar frá sér.
Það var svolítið um það að leikmenn væru að "hnjaskast" svo stöðva þurfti leikinn. Fyrir aftan mig var kempa sem óspart bölvaði því að dómarinn skyldi flauta til stöðvunar þegar heimamenn voru með boltann: "That´s bloody sheit! We had possession!"
Annars var fyrri hálfleikur tíðindalítill. Tottenham menn virtust hálf ráðvilltir og þegar menn höfðu færi á að æða fram var yfirleitt hikað og leitað að einhverjum með "leyfi" til að sækja. Flækjufóturinn Anderton virtist eiga að vera maðurinn sem stjórnaði spilinu en hann var vægast sagt ömurlega lélegur. Sendingar frá honum misheppnuðust oftar en ekki, hann kepptist við að reyna að skjóta út fyrir leikvanginn og missti yfirleitt boltann af sjálfsdáðun áður en vörnin fór að sækja á hann.
Gamli jaxlinn Sheringham bar af öðrum í liði heimamanna, en þegar framherjar gestanna (Zola og Hasselbaink) fengu boltann hélt múgurinn niðri í sér andanum - traustið á vörnina var ekki meira en svo.
Það fór líka þannig að rétt fyrir leikhlé skoraði Hasselbaink með skalla eftir að boltinn hafði þvælst um í teig Tottenham og síðan verið vippað snyrtilega yfir markvörðinn á kollinn á Jimmi Floyd. Við vorum ekki sérlega sáttir.
Þegar flautað var til hálfleiks breiddist reykjarmökkur um leikvanginn. Ekki stafaði hann af reykbombum á ítalskan máta heldur nikotínfíklum sem höfðu verið rettulausir í heil þrjú kortér (fyrir utan einstaka svindlara). Það var eins og þoka hefði skollið á.
Eftir hálfleik voru okkar menn mun sprækari og eftir að hafa átt eitt glæsilegt sláarskot tókst Sheringham að jafna metin. Við glöddumst ógurlega.
Eftir þetta jókst fjörið mjög og dómarinn tók að spjalda helstu ribbalda. Eftir ljót brot réttum við upp höndina til að sýna að við vildum spjald og söngluðum "Off, off, off" því liturinn skyldi helst vera rauður.
Svo bar til tíðinda þegar Jimmy Floyd var að reyna að komast upp að endalínu, að hann rak tána í völlinn og datt á hausinn. Meira að segja ég sá það greinilega uppi í stúku að hann hafði sett tána í grasið, en dómarinn dæmdi vítaspyrnu við lítinn fögnuð okkar. Það má eiginlega segja að við höfum verið alveg brjálaðir.
Ekki veit ég af hverju nafnið Símon varð fyrir valinu, en meðan á þessu stóð söngluðu heimamenn "Cheating Simon! Cheating Simon!"
Eftir að Jimmy hafði skorað úr vítinu breyttist sönglið í "2-1 Referee, 2-1 Referee". Púið sem Jimmy fékk eftir þetta var jafnvel hærra en það sem Petit hafði þurft að þola allan leikinn.
Eini maðurinn á vellinum sem ekki sá að Anderton var alveg úti á þekju var Glen Hoddle, þannig að þegar kom að skiptingum var einhver annar miðjugúbbi tekinn útaf og Rebrov settur inn. Ég hefði fyrir löngu verið búinn að skipta Anderton útaf fyrir Rebrov og setja Sheringham í leikstjórahlutverk.
Sheringham var ekki hættur og jafnaði metin þegar ein mínúta var til leiksloka. Við kættumst mjög og sáum fram á boðleg úrslit.
Maður okkar feðga, Eiður Smári, var þá nýlega kominn inn á en átti engin alvöru færi. Tilkynnt var að bætt yrði við 5 mínútum og Tottenham girti í brók og bjó sig undir að þreyja Þorrann.
Þá kom há fyrirgjöf inn í tóman teiginn og Liverpool-brottkastið Ziege sá sér þann kost vænstann að sparka í horn. Eiður fleytti fyrirgjöfinni áfram og Desailly stangaði boltann í netið. Lítill fögnuður allra nema þeirra bláklæddu sem sátu úti í horni umkringdir lifandi girðingu lögregluþjóna og vallarstarfsmanna.
Úrslitin 2-3 og Chelsea vann enn eina viðureignina.
Við bárumst með straumnum eftir Aðalstræti undir vökulum augum hátt í hundrað lögregluþjóna og þyrlu sem sveimaði yfir. Það var greinilegt að yfirvöld hafa áður þurft að sinna svona leik og neðanjarðarkerfið gleypti múginn án þess að hiksta - með millilendingu á hótelinu vorum við komnir á Paddington einum og hálfum tíma eftir að leik lauk!
Á Heathrow voru heldur auknar varúðarráðstafanir og hvarvetna skilti sem tilkynntu að eldhúsáhöld og naglaklippur hefðu bæst á lista hluta sem ekki mátti bera í handfarangri.
Mér tókst að setja eitt málmleitarhlið í gang og hlaut að launum professional þukl öryggisvarðar sem grandskoðaði mig af mikilli kurteisi. Ekki fundust önnur vopn en smápeningar og beltissylgja, mér var því hleypt áfram.
Aftur sátum við feðgar með þrjú sæti til umráða og mér til mikillar gleði komst ég að því að allir höfuðfónarnir þrír voru meira eða minna bilaðir. Ég varð því að sætta mig við að hlusta á teknópopp í öðru eyranu meðan ég blaðaði í tímariti "for men who should know better".
Í Keflavík var rigningarúði og hæfilega svalt, aksturinn til borgarinnar varð virðburðalítill og það var ágætt að skríða undir sængina.
Sögulok