Danir... reykja minna en ég hafði átt von á

Áður en ég fór að heiman hafði ég heyrt skelfilegar sögur af því hvað Danir reyktu mikið og maður væri hvergi óhultur. Það er reyndar rétt að þeir reykja ívið meira en Íslendingar, en munurinn er miklu minni en ég hélt að hann væri. Mín takmarkaða reynsla af dönsku skemmtanalífi er þó sú að hlutfall "sósíalreykjara" sé mun hærra en heima.

Þessa dagana er mikil umræða um reykingar og reykingabann hér í Danmörku. Søndagsavisen (sem er eina dagblaðið sem ég les nokkuð reglulega, enda ókeypis og borið í öll hús um helgar) hefur undanfarið fjallað um fjölgun vinnustaða sem banna reykingar (þar virðist hafa orðið sprenging í sumar) og gert skoðanakannanir um viðhorf almennings til algers reykingabanns. Þar virðist meirihluti þeirra sem tekur afstöðu vera fylgjandi banni, en pólitíkusarnir hafa verið tregir til að láta slag standa og fylgja fordæmi Norðmanna og Íra.

Síðastliðið sunnudagskvöld var innskot í fréttaþátt þar sem gerð var úttekt á reykingabanninu í Írlandi sem verið hefur í allt sumar. Niðurstaða þeirrar óformlegu úttektar virtist koma fréttamönnunum á óvart og mér líka.

Af þeim sem talað var við var stærstur hluti ánægður með bannið. Áður en bannið var sett á voru 40% reykingamanna jákvæðir gagnvart því, en nú er hlutfallið 60%. Rætt var við eftirlitsmann sem ekki hafði orðið vör við eitt einasta brot á reglunum og almennt virtust veitingamenn gáttaðir á því hvað þetta hafi gengið vel (og reynst vel). Sumir telja sig merkja minni veltu en aðrir sögðu að þeir hefðu aldrei haft jafn mikið að gera.

Það er því ákveðin undiralda í gangi gagnvart óbeinum reykingum. Nú reykja um 25% Dana daglega, en var yfir 50% fyrir 20 árum og var hæst rúmlega 60%. (Skv. áðurnefndum fréttaþætti).

Skólinn minn er reyklaus, þ.e. það er bannað að reykja nema í tveimur reykingaherbergjum og á föstudögum er leyft að reykja á barnum (sbr. það sem áður segir um frístundareykingar).

Svo ég hætti mér út á hálan ís þykir mér ég sjá mjög greinilega stéttaskiptingu í reykingum, þ.e. lægri stéttirnar virðast líklegri til að reykja heldur en þeir sem bera með sér að vera menntafólk og/eða þokkalega efnað. Ætli það sé ekki að einhverju leyti þannig heima líka? Spyr sá sem ekki veit...


< Fyrri færsla:
Húsabakkaminningar - lokaþáttur
Næsta færsla: >
Að koma sér fyrir í skápnum
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry