Púnkteríngar og sírenuvæl

Undanfarnir dagar hafa einkennst af löngum dögum í skólanum og þreyttum kvöldum. Þannig hef ég undanfarna tvo daga punkterast um kvöldmatarleytið og ekki verið til námslegra stórræða eftir það.

Í gær helltist yfir mig heiftarleg þreyta eftir maraþondag í hópvinnu. Ég sá mit óvænna og hrökklaðist heim til að skríða undir sæng og reyna að gleyma mér aðeins.

Ég sofnaði reyndar ekki, en náði að slaka vel á mili þess sem ég hlustaði á sírenuvælið berast inn um opinn gluggann.

Hérna rétt hjá er slökkvistöð þaðan sem slökkvi- og sjúkrabílar eiga það til að bruna með tilheyrandi hávaða. Fljótlega eftir að ég lagðist undir sængurfeldinn upphófst þessi líka ógurlegi sírenukór og ég huxaði með mér að nú hlyti einhversstaðar að vera stórbruni.

Þegar ég var kominn aftur í lóðrétta tilveru tæpum klukkutíma síðar sá ég á textavarpinu að svo var ekki, heldur var þetta skotbardagi í Kristjaníu þar sem einn var drepinn og þrír særðir í vélbyssuskotríð. Huggulegt.

TótiL var staddur í nágrenninu.


< Fyrri færsla:
Vilborg, Vilborg og Vilborg
Næsta færsla: >
1193 grænar 404-flöskur uppi á vegg...
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry