Much ado about nothing
25. janúar 2006 | 2 aths.
Þótt það sé mikið indælt að vera svona mikið sjálfs síns herra eru því frelsi eins og öðrum ákveðin takmörk sett. Það er ljúft að geta kúrt frameftir ef maður sé í þannig stuði, skroppið út þegar mann langar og hagað hlutum algerlega eftir eigin höfði. Þó er ekki víst að endilega verði manni mikið úr verki, en spurningin er hvort er hollara; að stressa sig við að reyna að vera eins duglegur og hægt er, eða að hafa það náðugt í þeirri trú að komi til þess að himnarnir hrynji í hausinn á manni sé það bara eitthvað sem maður tækklar þegar þar að kemur?
Eftir helgina er ég búinn að skrifa bunka af minnismiðum yfir allra handa verkefni og viðvik sem ég á ógerð. Í þann bunka vantar þó næsta skref í ferlinu, sem er að fara í gegnum bunkann og koma verkefnunum þeim í farveg. Ég hef bara ekki verið í stuði til þess upp á síðkastið.
Þannig að ég er í skemmtilegu limbói; búinn að létta af heilaþrýstingi með því að koma verkefnunum niður á blað, en ekki byrjaður að vinna í þeim af hinu gábbulega viti sem mun vera forsenda þess að þau klárist einhverntíman.
Þessi vika er líka á einhvern hátt öðruvísi (svona móralskt séð) en hún hefði verið hefði prófinu ekki verið frestað. Ekki svo að skilja að það próf hvíli á mér af neinu marki, en þetta er samt ekki 100% frívika.
Sjálfur hefði ég ekkert haft á móti því að einhenda mér í mastersverkefnið í vikunni, svona til að komast í gang, en það hefur verið mikið álag á Emilie undanfarið og hún þarf á smá fríi að halda. Eftir skorpu okkar í gær ætlum við næst að hittast á föstudaginn, en þá bara til að skoða nígeríuverkefnið (hið fyrra).
Færðin er heldur ekki heillandi fyrir útihlaup, þannig að fátt er títt af þeim vígstöðvum.
Hálfnuð vikan í löngu máli
Af "vinnuvikunni" það sem af er, er helst títt að mánudagurinn gufaði að mestu "stille og roligt" upp. Þó voru það vonbrigði að komast að því að Ecco sjoppa hverfisins ætti ekki leppa í skóna mína. Þar er komin þörf á innáskiptingu ef ég vil ekki eiga á hættu að gereyðingavopnadeild danska hersins fari að banka upp á hjá mér. Mánudagskvöldinu var svo varið heima við.
En sé eitthvað að marka frétt Moggans um að mánudagurinn hafi verið ömurlegasti dagur ársins verð ég að lýsa yfir nokkurri bjartsýni með að árið 2006 verði bara nokkuð ljúft ;)
Eftir að hafa fært trúnaðarbrest minn til bókar í gær tók ég til við að tölvunördast aðeins. Stefndi að því að græja nýja virkni hér á thorarinn.com.
Það gekk þó ekki alveg sem skyldi. Þegar leið á kvöldið tóku hikst ýmis að gera vart við sig í tölvunni, en í stað þess að taka þau alvarlega og endurræsa vélina þrjóskaðist ég við með þeim afleiðingum að "til sidst" var allt orðið pikkfrosið.
Orsakavaldurinn er líklega minnisleki úr fótósjoppunni sem olli snjóboltaáhrifum. Nördismi þessi verður því að bíða örlítið meðan ég reyni að rifja upp nýsömdu SQL hendingarnar sem týndust í gærkvöldi.
Í morgun vaknaði ég á tilætluðum tíma, leyfði mér að liggja örlítið undir sæng að huxa um lífið og tilveruna, tók hressandi sturtu, rakaði á mér leggina, leitaði dauðaleit að skóburstunargræjum (sem fundust lox þar sem þær áttu allan tíman að vera), þvoði upp og þá var bara allt í einu komið hádegi og vinnuvikan formlega hálfnuð.
Hér hefur snjóað svolítið í nótt, ég veit ekki til þess að það hafi haft merkjanleg áhrif á samgöngur (enda held ég að hitastigið sé hærra en svo að ísing valdi vanda). Hins vegar munu strætóbílstjórar hafa fundið hjá sér þörf í morgun til að stinga saman nefjum og spjalla um vetrarfærðina þannig að því hafa eflaust fylgt einhver öngþveiti.
Uppgötvun daxins það sem af er átti sér stað þar sem ég óð mórauða slabbkrapadrullu á leið minni í grænmetisát í skólanum mínum - ljósar baðmullarbrækur eru líklega ekki heppilegasti klæðnaðurinn á svona dögum.
Ég held því að ég haldi mig bara inni við að mestu í dag.
En það eru auðvitað vel þekkt sannindi að besta leiðin til að virkja sig til dugnaðar er að setjast fyrst niður með tebolla og koldökkt súkkulaði og skrifa langlokur um það sem óunnið er.
Bibbar í vanda
Ég tók nýlega aðeins til í ósýnilega tenglalistanum (sem finna má hér á vinstri vængnum ef vel er gáð). Þar bættust við nokkrir nýir vefir og ég stokkaði upp í "Vinir og kunningjar" flokknum.
Nýi flokkurinn "Hugleikarar" er langt frá því að vera tæmandi listi yfir þá hugleikara sem eru með vefi, en þetta eru þeir félaxlægu pennar sem ég kíki oftast á. Sumir ættu örugglega erindi á þennan lista en eru of pennalatir (já, ég er að horfa á þig Hjalti).
Ég vil sérstaklega vekja athygli á nýjasta höfundarstirni félaxins, honum Bibba (sem mun nú 12,5% úr formlegu leikskáldi). Hann er iðinn við bundinn jafnt sem óbundinn kveðskap og iðulega að finna góð tilþrif í athugasemdakerfinu hjá honum.
Saga vikunnar er af buxnamátun sem olli limlestingum og athugasemd vikunnar er kvæðabálkur mikill sem Sævar orti af þessu tilefni.
Tóndæmi:
...
Lás í renni- vinurinn er voða fastur
veinandi þeir bibbar báðir, bölvað klastur.Jaxlabitinn yfir-Bibbi í efnið tosar
undir-bibbann hetjulega úr helju losar.Öryggi og lás fer stundum allvel saman
en „undirbúningslaust“ þá getur kárnað gaman.
...
Það er svo skemmtileg tilviljun að í Ytri Stakkavíkurhreppi mun "bibbiribb" vera algengasta gæluyrðið yfir æxlunarfæri karlmanna. Sem dæmi endar þúfnavísan fræga í þeirri sveit á hendingunni:
Takt' út á þér bibbiribb
og trodd'onum í þúfu.
PS: Nei, ég raka ekki á mér leggina.
Athugasemdir (2)
1.
Siggi hennar Huldar reit 25. janúar 2006:
Ég mæli frekar með því að þú flaggir nýrökuðu leggjunum en ljósu baðmullarbrækunum í þessari færð, mun auðveldara að strjúka saltskaflinn af leggnum.
Annars ætluðum við nýliðarnir í itu að halda mínípróflokafest á hverfisbarnum þínum nú um 5 leitið. Blessaður eigandinn hefur séð þann kostinn vænstan að rífa niður innréttingar og hurðir og tilkynna lokun vegna breytinga. Þannig að lítið varð úr fagni okkar, en stefnt er á skálun á aussie fredagsbarnum.
Aye mate will you be there throwing another shrimp on the barbie?
2.
Þórarinn sjálfur reit 26. janúar 2006:
Já, ég verð örugglega eitthvað á Aussie barnum.
Stefni að því að mæta snemma, á eftir að koma í ljós hvað ég endist lengi.
Hvort ég er tilbúinn að skella rækjunni minni á glóandi kol... það verður bara að ráðast af stemmningunni.
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry