Ekki breyta klukkunni!
18. desember 2013 | 3 aths.
Nú er komin upp eina ferðina enn umræðan um íslensku klukkuna og okkar ranga tímabelti. Einhver þúsund hafa skrifað undir áskorun um að seinka klukkunni um klukkutíma (þ.e. færa okkur á það tímabelti sem Ísland raunverulega liggur næst og færast þannig nær Ameríku í tíma).
Rökstuðningurinn fyrir þessu er að auðveldara verði að vakna í birtunni á morgnana og líkamsklukkan verði í betra samræmi við sólarklukkuna. Gott ef núverandi staða er ekki meira að segja mannréttindabrot.
Í raun myndi slík breyting samt ósköp lítil áhrif hafa á vökubirtu okkar Íslendinga, ég fer kannski yfir rökin fyrir því síðar – en nú ætla ég að leika mér að því að fabúlera um hvernig ná mættiþessu markmiði (þ.e. „leiðrétta“ sólarganginn) án þess að breyta klukkunni.
Ég ítreka samt að ég tel það ekki vera fyrirhafnarinnar virði.
(Skemmtilegt raunar að önnur regluleg umræða snýst um að taka upp sumartíma á Íslandi, flýta klukkunni og færa okkur enn lengra frá réttum sólargangi stóran hluta árs.)
Hvað er svona flókið við það að stilla bara klukkurnar öðruvísi?
Það að breyta klukkunni er allt önnur aðgerð í dag heldur en fyrir 45 árum þegar íslensku klukkunni var síðast breytt (og færð nær þeirri evrópsku).
1968 snerist þessi breyting um að breyta veggklukkum og armbandsúrum. Í dag eru meira eða minna öll raftæki (og þeim hefur fjölgað eitthvað á 45 árum) með missýnilega klukku. Tölvur, símar, sjónvörp, routerar, afruglarar, bökunarofnar og guðmávitahvað. Flest tæki sem ná sambandi við umheiminn (oftast netið) þarf ekki einu sinni að stilla, nema í mesta lagi að segja þeim að þau séu stödd á Íslandi. Þar með veit tækið tímabeltið reiknar réttan tíma út frá staðlaðri heimsklukku.
Ef ákveðið væri að færa Ísland á næsta tímabelti þyrfti annað hvort að handvirkt breyta stillingum allra þessara tækja yfir á tímabelti Azor eyja, eða bíða eftir uppfærslu á viðkomandi stýrikerfi þar sem Ísland hefur verið formlega fært á nýja beltið. Annað hvort þarf þetta því að gerast með mjög löngum fyrirvara eða tímar allra þessara tækja verða meira eða minna sitt á hvað.
Ég ætla ekki einu sinni að reyna að lýsa umstanginu við að uppfæra öll tölvukerfi landsins og tryggja að allt sé örugglega samtíma.
Breytum þessu bara um áramótin!
Miklu auðveldari leið til að ná fram markmiðinu með að vakna klukkutíma seinna á morgnana er nákvæmlega sú; að vakna bara seinna.
Alþingi þyrfti (líklega) ekki einu sinni að setja lög, þingsályktunartillaga dygði líklega til og hún gæti þess vegna tekið gildi strax 1. janúar 2014. Inntakið væri eitthvað í líkingu við:
Allar opinberar stofnanir og fyrirtæki skulu frá og með miðnætti 1. janúar 2014 seinka öllum tímasetningum sem tengjast rekstri þeirra um eina klukkustund frá því sem þær eru nú (2013). Hér undir falla meðal tímasetningar varðandi vinnutíma starfsmanna, kennslu, símsvörun og þjónustu, ferðaáætlanir o.s.frv.
Mælst er til þess að önnur fyrirtæki og rekstraraðilar geri slíkt hið sama.
Þeir sem nú vinna 8-16 vinna þá 9-17 eftir breytingu, þeir sem nú vinna 9-17 myndu vinna 10-18, og svo koll af kolli.
Hádegisfréttir RÚV verða kl. 13:20, kvöldfréttir klukkan 19:00 í útvarpi og 20:00 í sjónvarpi (aftur). Fyrsta kennslustund í HÍ verður 9:20 í stað 8:20. Fyrsta strætisvagnaferð að morgni...
Engum klukkum þyrfti að breyta, öll kerfi virka áfram og það eina sem þarf að gera er að stilla vekjaraklukkur. Ef það skyldi gleymast væri það versta sem gerðist að starfsmaður mæti klukkutíma of snemma til vinnu.
Vissulega þyrftu þjónustuaðilar að breyta skiltum með afgreiðslutíma og túristar yrðu enn meira gáttaðir á því hversu seint Íslendingar fara á fætur, en annars væri þetta ósköp lítið mál – og aðeins brotabrot af vandræðunum við að skipta um tímabelti.
Að því sögðu held ég að við ættum bara að láta þetta allt óbreytt, ávinningurinn verður ekki fyrirhafnarinnar virði. (Ég reyni kannski að útskýra það seinna.)
Athugasemdir (3)
1.
Friðrik Þórðarson reit 19. desember 2013:
Þetta er áhugaverð nálgun sem ég viðurkenni að ég hef ekki hugsað út í en ég hef nú samt á tilfinningunni að þú sért að gera fullmikið úr tæknilegu flækjustigi við að gera þetta.
Eins og þú segir sjálfur í blogginu þá þarf ekki einu sinni að stilla flest tæki sem ná sambandi við umheiminn, þau þurfa bara að vita að þau séu á Íslandi og einhver online þjónusta segir þeim þá hvað klukkan er á Íslandi. Það þarf sem sagt bara að uppfæra þjónustuna en ekki hvert og eitt tæki. Eftir því sem ég best veit þá virka einmitt allar tölvur, símar, routerar og önnur nettengd tæki eða kerfi sem ég hef kynnst nákvæmlega svona. Reyndar hef ég yfirleitt þurft að segja tækinu að ég sé í Casablanca til að klukkan verði rétt (ef tækið fatta ekki sjálft hvar það er) og gæti í sjálfu sér alveg eins sagt því að ég sé á Azor-eyjum.
Í næstu málsgrein á eftir ferðu svo að tala um að það þurfi að bíða eftir uppfærslu á stýrikerfi til að klukkan verði rétt. Það kannast ég síður við. Hvaða tæki eru það sem þetta á við um?
Tækin sem þú nefnir sem dæmi eru "tölvur, símar, sjónvörp, routerar, afruglarar, bökunarofnar og guðmávitahvað". Tölvur, símar og routerar eru undantekningarlítið nettengd og ættu því að uppfæra klukkuna sjálfvirkt í gegnum netþjónustu. Ég hef aldrei átt sjónvarp sem þarf að vita hvað klukkan er en sjónvörp eru þó í auknum mæli að verða nettengd og munu þá falla í sama flokk og tölvur. Afruglarinn minn veit ekkert hvað klukkan er heldur sækir hann tímann í gegnum Sjónvarp Símans. Hvaða bökunarofnar eru með tímabeltisstillingar? Er það krítískt ef klukka í bökunarofni er tímabundið vitlaus? Þá er bara eftir þetta "guðmávitahvað".
2.
Már reit 19. desember 2013:
Það verður flækja í kringum svona klukkubreytingu. Það má eflaust deila um hvort flækjan skuli kallast stór eða lítil, en hún verður alltaf einhver.
Hitt, það að færa bara rútínuna okkar er hins vegar nokkuð sem við getum gert því sem næst ókeypis - þegar okkur hentar, í eins stórum/litlum skrefum og okkur hentar.
3.
Friðrik Þórðarson reit 19. desember 2013:
Rökstuðningurinn fyrir þessari breytingu snýst svo ekki um vökubirtu eða að það eigi að verða auðveldara að vakna í birtunni á morgnana og ekki heldur að láta líkamsklukkuna verða í samræmi við sólarklukkuna. Þetta gengur út á að líkamsklukkan sé einmitt nú þegar í stillt eftir sólarganginum og að það þurfi að aðlaga klukkuna að því. Þannig verður ekki endilega auðveldara að vakna á morgnana vegna þess að það verði alltaf orðið bjart (sem yrði vissulega ekki alltaf með þessari breytingu) heldur yrði auðveldara að vakna vegna þess að líkamsklukkan væri sammála því að það væri kominn tími til að vakna.
Auk þess er verið að tala um ýmis heilsufarsleg vandamál sem gætu tengst þessu misræmi eins og þunglyndi og svefnvandamál og svo skerta framleiðni og neikvæð áhrif á námsárangur.
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry