Eyrnanag
Smásaga
Sú var tíðin að ég hélt mig hafa upplifað allar verstu martraðir veraldarinnar. Núna veit ég betur.
Það að upplifa allar martraðir veraldarinnar er ekki eitthvað sem maður kaupir í stórmarkaði. Hjá mér kostaði það æsku mína. Öll þessi ár innilokaður í gildru sem ég hafði sjálfur spennt. Öll þessi ár og jafnvel enn fleiri daga. Daga og nætur. Sem runnu saman í eitt. Martraðirnar gátu birst hvenær sem var, hvar sem var. Það var ekki lengur nein undankomuleið, sama hverju mér tókst að redda.
Svo tókst mér að hreinsa mig. Berja af mér djöfulinn. Eða það vonaði ég.
Þessi ár urðu grýla sem ég notaði óspart á sjálfan mig. Eða réttara sagt, minningin um þessi ár urðu grýla. Árin sjálf voru eilíflega glötuð og með þeim æska mín. Aldrei aftur, það var ég sannfærður um.
Ekkert úr þessari fortíð minni hefði þó getað búið mig undir það sem gerðist.
Það spaugilega í þessu, ef eitthvað var, er það að ég sá þetta gerast í sjónvarpi. Einhver lágkúru mynd, landkönnuður í Afríku eða eitthvað svoleiðis. Hann lenti í þessu sama, eini munurinn var sá að hann var heppnari.
Þessi mynd varð mér minnisstæð, eða réttara sagt þetta eina atriði varð mér minnisstætt, því ég gat næstum fundið kvöl hans á sjálfum mér.
Næstum, en þó engan vegin heldur. Eins og ég átti eftir að reyna.
Þarna lá ég, steinsofandi. Eftir erfiðan dag, erfiðan en góðan. Ég hafði komist mun lengra en ég ætlaði, og var jafnvel farinn að gæla við þá tilhugsun að þessu myndi bráðum ljúka. Um leið olli það mér trega, söknuði sem gruggaði upp í tilhlökkuninni. Þessar hugsanir héldu þó ekki lengi fyrir mér vöku og ég var líklega sofnaður áður en ég lagðist út af. Linnilítið suð í skorkvikindunum fyrir utan olli mér engum óþægindum. Mér hafði fyrir löngu tekist að leiða þau hjá mér. Ef ég hefði bara vitað...
Ég rofaði örlítið svefninn til þess að klóra mér í eyranu. Örlítið. Ég var samt djúpt, djúpt í hyldýpinu undir meðvitund. Þeim mun sárara var það þegar ég var rifinn upp, alla þessa leið, á einu augnabliki. Bókstaflega.
Skyndilega hver tilfinningin af öðrum, þær börðu á mér svo skrokkurinn lék á reiðiskjálfi.
Fyrst undrunin, hvað hafði gerst?
Þá gerðist það aftur og viðbrögðin tóku yfir alla rökhugsun. Ekki svo að skilja að hún hefði verið til staðar. Rökhugsunin var enn sofandi. Hún vaknaði aldrei. Í raun mætti segja að hún hafi látist í svefni. Ég tróð litlafingri inn í eyrað til að losna við það sem var að angra mig, rak hann á kaf inn í eyrað.
Fyrst varð fyrir mér eitthvað hart, lítið. Síðan fann ég það hreyfast, iðandi í örvæntingu geri ég ráð fyrir. Þá kom sársaukinn. Það var ekkert sem komst í hálfkvisti við sársaukann, nema kannski örvæntingin.
Örvæntingin helltist yfir mig með hljóðinu. Það var engu líkt, ég fann það meira en heyrði. Taktfast, tryllingslegt. Naghljóð. Höfuðið var fullt af því. Ekkert nema þetta hljóð. Ekkert annað. Aftur aftur aftur.
Þá skildi ég. Það var eitthvað að éta sér leið inn í eyrað á mér. Það var skrýmsli á stærð við tígrisdýr að naga sér leið inni í mig. Höndin sem hélt um eyrað sagði "ekkert". Skelfingin sagði "tígrisdýr". Höndin ítrekaði "það er ekkert hér". Hljóðið. Ekkert nema hljóðið. Skelfingin ítrekaði "það hlýtur að vera tígrisdýr". Yfir, undir og allt um kring um þessa deilu var hljóðið. Nagandi, markvisst, taktvisst. Lamandi. Og með sama takti trylltist upp geðveikin, óx í sífellu. Gömlu djöflarnir. Hljóðið. Hljóðið. Örvæntingin.
Þá linnti lömuninni skyndilega og ég sökkti nöglunum í eyrað. Ein hugsun komst að, ein og aðeins ein. Verð að ná því. Með snöggu átaki tókst mér að rífa af mér eyrað til hálfs. Heitt blóðið spýttist yfir mig. Yfir alla kinnina og inn í það sem eftir var af eyranu. Eina sekúndu, eina örstutta sekúndu linnti hljóðinu.
Einhversstaðar í örvæntingunni reyndi vonin að bæra á sér. Það var búið! Vöðvar læstir í krampa öflugri en hægt er að ímynda sér, slökuðu skyndilega. Það var líklega það sem gerði loks útslagið.
Það kom aftur, það hlaut að koma aftur. Í þetta sinn jafnvel hraðar og miskunnalausar en áður. Þá kom loks náðarhöggið. Um leið og kvikindið komst í gegnum hljóðhimnuna lauk öllu. Sársaukinn tryllti mig, hjartað stoppaði og allt varð svart. Ekki sorti örvæntingarinnar, heldur myrkur svefnsins.
Mín síðasta hugsun var sú að það væri verið að naga á mér heilann.
Og nú horfi ég á lífvana líkamann, brostin augun og blóðugt anditið. Mér hefur tekist að rífa ótrúlega stóran hluta af eyranu af. Það er þó eitthvað. Ég reyndi.
Ég bíð eftir að kvikindið geri vart við sig. Kannski kemur það út sömu leið. Kannski á það eftir að éta sig út um augun. Það gæti orðið fróðlegt. Að sjá loks hvað það var sem drap mig, sjá það þegar það skríður út úr auganu á mér.
Trúlegast er það búið að verpa einhvers konar eggjum inn í heilanum á mér, fóstra líf. Ég vona það eiginlega. Það væri of kaldhæðnislegt ef ég hef dáið algerlega til einskins, ef helvítið var gelt eða drapst sjálft í öllum látunum. Það væri frábært: Bræðrabylta.
Það er ekkert að gera nema bíða. Ég hef nógan tíma. Alla eilífðina raunar. Ég veit ekki hvort ég mun nokkurn tíman komast að því hvort það sem drap mig var lifandi vera eða holdgerfingur djöflanna sem ég ól sjálfur og hélt mig hafa kveðið niður.
Eitt veit ég þó. Ef ég fæ annað tækifæri, þá ætla ég að reyna að gæta betur að eyrunum.
Eyrunum, af öllu!