Køben, haustið 2003

Ferðasaga

Kaupmannahafnarferð - aðdragandi

Frá því í vor þegar Hanna Birna birtist sem óvæntur leynigestur í afmæli okkar Óskars hefur það verið í bígerð að endurgjalda heimsóknina og skreppa í þrítugsafmæli hennar í Kaupmannahöfn. Það var svo fastsett þegar hún og Jesper komu á Klakann í tíu ára stúdentsafmælið að klíkunni yrði boðið til afmælis rétt fyrir jól.

Það hentaði mér líka prýðilega að heimsækja Danmörkina þar sem bæði Sigmar og Margrét (systkini mín) eru þar við nám núna. Að auki var alveg kominn tími á utanlandsferð þar sem ég hafði ekki farið utan síðan ég fór til London 2001.

Bylgja barneigna sem gekk yfir klíkuna í sumar gerði það að verkum að ljóst var að ekki ættu allir hægt um vik að skreppa til útlandsins auk þess sem óhjákvæmilega hittust dagsetningar í sumum tilvikum illa á vinnuplön og próftarnir. Það lá því fyrir að út stefndu auk mín, Ólöf og Þorsteinn, Dedda og Ingvar, auk þess sem Siva og Freyja yrðu þessa helgi í Køben með sjúkraþjálfahópnum.

Ég ákvað að fara út á föstudegi og taka nokkra daga í að túristast um Kaupmannahöfn með systkinum mínum, þannig að ég bókaði ferð aftur á þriðjudagskvöldi.

Á þriðjudagsmorgni fyrir ferðina vaknaði ég um morguninn með magann í miklu óstuði og fljótlega varð ljóst að ég væri orðinn veikur. Ég náði að hrista það af mér áður en ég fór út og er afskaplega feginn að ég vaknaði ekki í þessu ástandi á t.d. föstudagsmorgninum. Þá hefði ég skellt skuldinni á ferðafiðring og reynt að pína mig af stað í flug en hefði líklega aldrei komist til Keflavíkur, hvað þá lengra. En þetta slapp allt saman til, þótt ég fyndi á köflum fyrir dálitlu þrekleysi í ferðinni.

Ekki hittist eins vel á hjá Ingvari og Deddu sem urðu á síðustu stundu að aflýsa vegna veikinda Deddu. Það var því ljóst að ég myndi hengja mig á Ólöfu og Þorstein fyrstu dagana.

Ég skaust við í vinnunni rétt fyrir hádegið á föstudeginum (eftir þriggja daga fjarveru vegna veikinda) til að prenta út bókunarupplýsingar um hótelið, taka ljósrit af vegabréfinu og annað smálegt. Vinnustaðurinn hefur hingað til ekki verið frægur fyrir mikið upplýsingaflæði, en það höfðu greinilega allir fengið að vita að ég væri farinn út, því ég fékk þvílíkt spurningaflóð yfir mig þegar ég birtist óvænt hérna megin Atlantsála. Skýringar mínar um að ég væri á leið út eftir augnablik voru þó teknar trúanlegar og ég brunaði af stað suður til Keflavíkur.

Flyvet

Það var vitað að Ólöf og Þorsteinn færu út með sömu vél og ég og við hittumst í Leifsstöð og settumst inn á teríuna að spjalla. Ég hafði mætt aðeins fyrr og var búinn með (örlítil) fríhafnarinnkaup og rúnnstykki, en sat þeim til samlætis og svo röltum við saman út í vél.

Flugið út var með öllu tíðindalaust og við lentum á Kastrup um kvöldmatarleytið að staðartíma.

Eftir að hafa spásserað um stund um flugstöðvarbygginguna (Þorsteinn hélt því fram að við Ólöf hefðum dregið sig nauðugan í villur, en það skal tekið fram að hann var ekkert að skipta sér af áttavali fyrr en ljóst var að við værum á rangri leið og þyrftum að snúa við) komum við út í almenninginn og keyptum okkur klippikort í lestina til að taka á Hovedbanegården.

Við fórum reyndar niður á röngum stað og vorum komin á brautarpallinn þar sem lestar stefndu til Malmö. Aftur hélt Þorsteinn ræðu um skort á rötunarhæfileikum mínum og Ólafar, og aftur tókum við ekkert mark á honum.

Lestarferðin inn á Höfuðbanagarð gekk greiðlega fyrir sig eftir að rétt spor hafði fundist, en ekki var útsýninu fyrir að fara í dönsku kolniðamyrkri.

Á stöðinni skildust með okkur leiðir þegar ég tölti í átt að Istedgade á hótelið mitt, en Ólöf og Þorsteinn tóku stefnu í átt að Tívolí enda væri þeirra hótel nær Ráðhústorginu.

Ég fann hótelið þar sem það átti að vera og bókaði mig inn. Ég hafði eftir nokkra leit ákveðið að bóka mig á hótel sem kallast Absalon Annex og er eins og nafnið gefur til kynna viðhengi við Absalon Hotel. Þar fékk ég hræbillegt herbergi á besta stað, en á Annexinum ríkir heimavistarstemmning með salernin frammi á gangi en lobbí og matsalur er sameiginlegur með hótelinu.

Svolítið lúið, en snyrtilegt og reyndist vel.

Eftir að hafa skutlað töskunum upp á herbergi tók ég stefnuna í átt að Ráðhústorginu í leit að hóteli Ólafar og Þorsteins. Það fannst hvergi á minni leið. Eftir að hafa hringt í skötuhjúin kom í ljós að ég var að leita töluvert langt yfir skammt og að hótelið þeirra var í raun ekki nema steinsnar frá mínu hóteli (ekki nema ein klámbúlla og tveir strípistaðir á milli).

Ég rölti því til baka og fann þau og við röltum af stað út í nóttina að leita okkur að stað til að borða á. Ágætt veður, en léttur úði í lofti. Enduðum á að droppa inn á Hereford steikhús rétt hjá Tívolí, þar var allt troðið og við þurftum að bíða í rúman hálftíma eftir borði, en steikurnar voru alveg þess virði.

Eftir prýðilegan mat var stefnan tekin á Strikið að skoða veiðilendur morgundagsins. Eini fasti liður ferðarinnar var að Ólöf ætlaði í barnafatadeildina í H&M og ég sá fram á að þar væri eflaust hægt að finna eitthvað sætt handa Vilborgu frænku.

Við droppuðum svo inn á skemmtilegt kaffihús á miðju Striki og keyptum danska bjóra á íslensku verði. Þar var lokað á miðnætti og þau skötuhjú höfðu uppi áform um að kíkja á Hvids Vinstue þar sem íslenskir námsmenn hafa í gegnum aldirnar drukkið út vasapeninga að heiman. Ég var hins vegar gersamlega punkteraður og kenni þar um nýliðnum veikindum og léttum svefni næturinnar áður, þannig að ég kvaddi þau og rölti heim á hótel.

Strøget

Eins og oft vill verða fyrstu nótt á nýjum stað var ég lengi að sofna og svaf frekar laust, en vaknaði við vekjaraklukku til að kíkja í morgunmat og bjallaði svo í Ólöfu og Þorstein að því loknu. Við mæltum okkur mót á hótelinu þeirra og lögðum af stað í verslunarleiðangurinn mikla.

Þorsteinn og Ólöf á Ráðhústorginu

Á Ráðhústorginu tókum við nokkrar dæmigerðar túristamyndir áður en við héldum inn á Strikið.

Hvarvetna heyrði maður sænsku og norsku, auk þess sem fjórða hvert samtal virtist fara fram á íslensku. Það hlutfall minnkaði ekki í H&M sem virðist fastur liður í pílagrímaferðum Íslendinga. Ég valdi gríðarkrúttlegan bleikan hettugalla handa frænku í stærðinni 0-1 mánaðar og vonast til að hún vaxi upp í hann innan nokkurra vikna. Í röðinni við kassann var á undan mér (íslensk) kona með mannhæðarháan stafla af barnafötum og að sjálfsögðu hrundi tölvukerfið þegar að því kom að hún ætlaði að sveifla sínu vísakorti. Fyrir aftan mig voru (íslensku) konurnar sem setið höfðu á næsta borði við mig í teríunni í Leifsstöð (og ég varð svo aftur samferða til baka á þriðjudeginum). Ég veit ekki hversu hátt hlutfall Íslendinga var í hinni röðinni þar sem afgreiðslan gekk greiðlega og engin ástæða til að bölva á íslensku.

Ólöf hélt uppi merkjum landa sinna og keypti föt á soninn til næstu ára og ég þvældist úti við á meðan.

Fólk á Strikinu

Íslendingar fjölmenntu út á götur borgarinnar til jólagjafainnkaupa.

Áfram lá leiðin eftir Strikinu með smávægilegum útúrdúrum og snæðingi á dönskum restaurant þar sem maður fékk sér smørrebrødplatta og fadøl. Síðan út á kóngsins nýja torg þar sem þetta glæsilega skreytta hótel bar fyrir augu:

Jólaskreyting

Já, það er skreytt eins og arinn með eldiviði og öllu tilheyrandi!

Af torginu tókum við stefnuna á Nyhavn þar sem verið var að opna jólamarkað með jólabjórssmökkun að dönskum sið. Þar virtust flestöll brugghúsin vera mætt og buðu upp á smakk á jólabjórum. Þegar hér var komið sögu var farið að hellirigna og við gáfum okkur ekki mikinn tíma í smakkið heldur röltum meðfram síkjunum og skoðuðum í jólabása. Yfir öllu lá angandi arinilmur sem kom frá nokkrum strategískt dreifðum "útigrillum" þar sem brennd voru kol og einhverskonar ilmviður sem virkilega kryðddaði stemmninguna.

Jólagrill

Regnið ágerðist stöðugt og við ákváðum því að taka stefnuna aftur í átt að hótelhverfinu til að reyna að þurrka fötin áður en farið yrði í afmæli.

Festen

Eftir stuttan lúr á hótelinu fór ég í smá göngutúr um hverfið og keypti mér smá snarl svo maður færi ekki glorhungraður af stað til veislu. Fyrir tilviljun átti ég leið framhjá lobbýi hótelsins hinum megin við götuna þar sem sjúkraþjálfagengið var að búa sig af stað svo ég heilsaði aðeins upp á þær stöllurnar sem við mig vildu kannast.

Frá hóteli Ólafar og Þorsteins tókum við leigubíl á mótsstað, bílstjórinn var reyndar ekki með aðflugsleiðir alveg á hreinu og tók sér tíma í að skoða legu einstefnugatna á svæðinu áður en lagt var í hann. Sú rannsókn virtist skila árangri, því ferðin gekk greiðlega og við vorum fljótlega komin í afmælið.

Þar voru um 30-40 manns, kannski um þriðjungur Íslendingar, og boðið upp á alveg meirháttar hlaðborð og mikið af øli. Stemmningin var góð, spjallað um heima og geima og leikið á hljóðfæri.

Framan af kvöldi hélt Bríet Bjarnadóttir (Gauks) uppi fjöri með glettnu augnaráði og daðurhæfileika fram í fingurgóma. Þegar hún sofnaði og var borin af velli af móður sinni færðist fókusinn yfir á "Steini from Iceland" sem fór mikinn í sögum af samskiptum sínum við Dani, sögum af drykkjuafrekum sínum og sögum sem enginn skildi, í margslunginni blöndu íslensku, ensku og dönsku. Eignaðist hann þar einlægan aðdáanda, Karsten, sem mátti vart af honum líta.

Þorsteinn og Karsten

Þorsteinn og Karsten kveðjast tárvotum augum.

Um líkt leyti og Karsten kvaddi birtust Freyja og Siva úr sjúkraþjálfaglensi og var þeim vel tekið.

Siva, Freyja og Gaukur

Að íslenskum og HönnuBirnískum sið var leikið á gítar og sungið, aðallega á íslensku og af söngflokkum í ýmsum samsetningum.

Sungið af innlifun

Fjöldasöngur

Glaumurinn stóð fram undir klukkan 3 þegar salnum skyldi skilað. Þá hafði hann uppi um það mörg orð vertinn (sem var afskaplega danskur í útliti) að það væri næstum vonlaust að ná í leigubíl, þetta væri fyrsta helgi í julefrokost og allir bílar bókaðir.

Upphófst mikil reikistefna um það hvernig koma skyldi mannskap og afgangi veislufanga í hús. Gauki var sigað út á götu að reyna að húkka bíl, sem hann og gerði, enda reyndist það vera lítið mál að grípa lausa bíla á nærliggjandi breiðgötu sem voru tómir á leið niður í bæ. Þegar gengið var í málið tók það innan við fjórðung þess tíma sem farið hafði í pælingar, rökræður og tilraunir til simhringinga. Ég varð samferða Freyju og Sivu heim á hótel, Ólöf og Þorsteinn fóru sína leið og þeir mágar Gaukur og Jesper gerðu sig klára í að grandskoða næturlíf borgarinnar.

Søndag

Þar sem ég tímdi ekki að skrölta í 9 tíma í lest fram og til baka til Álaborgar að heimsækja Sigmar, fór ég þá leið að bjóða honum miða til Kaupmannahafnar og fór hann til Margrétar á föstudeginum og var hjá henni um helgina. Við höfðum svo ákveðið að taka sunnudaginn saman.

Eftir að ég var vaknaður og búinn í morgunverði SMSuðumst við á og þau voru þá á leið í lestina til borgarinnar. Eitthvað tafðist það þannig að ég sem var kominn af stað út á lestarstöð tók þess í stað smá rúnt um hverfið mitt og rak meðal annars augun í þessa frumlegu gluggaútstillingu í nálægri gleraugnaverslun.

Gleraugnaklósett

Þau hitti ég svo á brautarstöðinni um kl. 13 og verður að segjast eins og er að heldur voru þau framlág systkini mín og mér skildist að rólega kvöldið sem þau höfðu ætlað að eiga hefði eitthvað þróast á annan veg. A.m.k. voru þau glorhungruð en höfðu ekki áhuga á neinu öðru en kóki, frönskum og meðlæti. Við borðuðum því hádegisverð á brautarstöðinni í formi langloka, franskra kartaflna og kóladrykkja.

Þaðan fórum við heim á hótel að skilja eftir töskur þeirra og afhenda gripi að heiman. Líkt og sjá má á myndinni voru þau geislandi af lífsgleði og æskufjöri:

Sigmar og Margrét í stuði

Hér tók ferðamaðurinn með Lonely Planet handbókina völdin og við byrjuðum á því að arka í Dansk Design Center og skoðuðum þar margt flott og áhugavert.

Við röltum svo í rólegheitum um Strikið og nágrenni þess, verslanir flestallar lokaðar en samt slatti af fólki á ferðinni. Einhver kuldahrollur var í Margréti þannig að við hófum leit að kaffihúsi til að tylla okkur inn á. Þá kom í ljós að það sem Daninn kallar "Restaurant - Café" er yfirleitt ekki ætlað nema fyrir matargesti.

Hommabarinn Heaven var ekki með neina slíka fordóma og tók okkur systkinum opnum örmum með geysilega klisjukenndri diskótónlist og vel útilátu heitu súkkulaði. Heimasætan hafði þegar hér var komið sögu misst áhuga á kaffi og fékk sér í staðinn stórt glas af kók. Heldur þótti okkur bræðrum hennar það lítt gáfulegt meðal við kulda.

Þegar hér var komið sögu var systir vor alveg hætt að vera hress og hröklaðist því heim til að leggja sig. Við bræður fylgdum henni að næstu lestarstöð og röltum síðan heim á hótel þar sem við sátum og spjölluðum þar til tími var til kominn fyrir hann að taka sína lest norður á bóginn.

Þar sem planið hafði verið að verja kvöldinu með litlu systur og Ólöf og Þorsteinn voru farin heim á Klaka voru góð ráð dýr og stefndi einna helst í kvöld heima á hóteli við bókalestur eða annað fásinni. Ég sló því á þráðinn til Hönnu Birnu og Jesper og þar hittist svo á að þau voru heima með Gauki og Bríet, en foreldrar hennar á leið út að borða. Ég tók því lestina í áttina til þeirra og fann húsið eftir leiðbeiningum húsmóðurinnar. Þar var mér boðið í afganga (sem voru töluverðir enda hafði slatti gesta forfallast eftir að veitingar í boðið höfðu verið pantaðar). Okkur Bríeti kom svona prýðisvel saman og vorum í góðum gír þar til reyna átti að koma dömunni í svefn, sem hún reyndist hafa lítinn áhuga á.

Bríet í stuði

Bríet í fangi

Ég sat svo að spjalli við þau fram undir miðnættið þegar ég rölti aftur í lestina til stórborgarinnar.

Syg pige

Á mánudeginum var ætlunin að Margrét kæmi til mín og við tækjum innkaupaleiðangur í sameiningu, kíktum í Tívolí og annað túristalegt. Síðan myndi ég koma til hennar á þriðjudeginum og vera þar fram að flugi. Ég vaknaði hins vegar við SMS um að hún væri orðin hundveik og kæmist ekki fram úr.

Ég fór því einn af stað eftir morgunmat og sturtu, með þau verkefni að kaupa Ecco skó og ferðatösku (og drepa eins og einn dag af tíma) þrammaði fyrst í vesturátt eftir Vesterbrogade og sveigði svo aftur í austur og sikksakkaði um latínuhverfið norðan við Strikið, guðaði á verslanaglugga og étti tyrkneska pítsu í hádegismat.

Töskuleit hófst síðan í ofurmagasíninu Magasin du Nord við kóngsins nýja torg og þar sá ég strax tösku sem mér leist vel á. Hins vegar var dagurinn ungur og margar töskur óskoðaðar þannig að ég rölti eftir Strikinu til baka, skoðaði töskuúrval í öðrum verslunum og keypti mér Ecco skó. Var nokkuð stoltur af því að þau kaup kláraði ég alveg á dönsku (ég nota skó númer fem-og-førre) og án þess að íslenska hópinn sem þarna var á sama tíma hafi grunað að ég væri íslenskur.

Heima á hóteli fékk ég svo leiðbeiningar um það hvaða búss væri best að taka aftur á kóngsins nýja torg, enda orðið ljóst að bestu töskukaupin myndu vera þar auk þess sem það var orðið ljóst að úti væri orðið dimmt.

Í ofurmagasíninu var að auki keypt axlartaska merkt Birni Borg og að sjálfsögðu allt keypt Tax Free.

Bússinn tekinn til baka og samið við Jesper um að kíkja aftur til þeirra um kvöldið. Ég vissi reyndar að það yrði viss bútasaumur enda voru þau skötuhjúin bæði á leið út úr húsi, en ég þóttist vita að það væri samt áhugaverðara en að hanga heima á hóteli.

Eftir að hafa pakkað niður í töskur og snætt steiktan laks á Hovedbanegården (ásamt einum Tuborg Classic) tók ég því lestina til Valby og spjallaði við Jesper þar til hann þurfti að fara í fótbolta. Sat yfir dönsku sjónvarpi (með viðtali við Einar Má og ferðaþætti með einum Monty Python manna) þar til Hanna Birna kom af trommuæfingu. Spjallaði svo við hana þar til Jesper kom aftur af æfingu og tekið var að líða að miðnætti þannig að ég tók einu sinni sem oftar lestina niður í miðbæ.

Þykir hér rétt að birta eins og eina mynd frá títtnefndum höfuðbanagarði sem allar og allra leiðir liggja um:

Mannlífið á Hovedbanegården

Den sidste dag

Á þriðjudagsmorgni fékk ég SMS frá litlusystur um að hún væri risin úr rekkju og orðin spræk. Við sammæltumst um að hún myndi koma til borgarinnar frekar en ég til hennar og ég samdi um það í lobbíinu að fá að skila herberginu á hádegi í stað kl. 11.

Sú stutta mætti rétt fyrir hádegið og við tróðum keramiki, jólagjöfum og öðrum bráðnauðsynlegum óþarfa frá henni niður í hina nýkeyptu tösku og komum svo öllu fyrir í töskugeymslunni.

Líkt og allir leiðangrar hófst okkar á því að rölta eftir Strikinu og kíkja í nokkrar verslanir í leit að spennandi jólagjöfum. Við kíktum á jólamarkaðinn í Nyhavn og fylgdum síðan leiðbeiningum í túristabókinni góðu að konunglega danska bókasafninu sem er í stórglæsilegri byggingu á Slotsholmen. Þar kíktum við inn og fengum okkur heitt súkkulaði. Svo sem ekki í frásögur færandi nema fyrir það að þegar að afgreiðsluborðinu kom sneri konan fyrir framan okkur sér við og spurði mig "Hvort ert þú svo Þórarinn eða Erlendur?" - lítill heimur, Kaupmannahöfn.

Sommerhyggebåd

Á leið vorri sáum við systkin þennan heillandi bát mara við bryggju og höfum ákveðið að taka hann á leigu næsta sumar til að prófa veröndina - not.

Þaðan röltum við í Ny Carslberg Glyptotek sem stendur rétt við Tívolí og er sannast sagna ótrúlegt. Þetta er safn með fornminjum sem gamli bjórbaróninn hafði sankað að sér og hægt er að lýsa í tveimur orðum: "yfirþyrmandi" og "menningarrán". Þarna eru tugir stytta frá Grikklandi, Róm og öðrum fornmenningum auk ótrúlegs magns af gripum frá Egyptalandi. Þar á meðal eru einhverjar 4 eða 5 steinkistur, ein trékista, tvær múmíur, nokkurra tonna úthöggvin grjót og ótal aðrir gripir. Á þrammi um safnið sótti ósegjanleg þreyta að aðalsöguhetjunni (mér) og var mig einna helst farið að gruna að nú væri ég að veikjast.

Ferskt loft og kóksopi dugði þó til að hressa kappann við og næst var stefnan tekin á Tívolí. Þar var jólaopnun í fullum gangi og við keyptum okkur inn með aðgang í öll tæki. Eflaust hafa ævintýragjarnari kempur í Tívolí komið, því þrátt fyrir tilburði litlu systur til að draga mig í einhverjar þeytivindur lét ég nægja að fara í nokkur krakkatæki og parísarhjólið. Einhverra hluta vegna dugði hennar hetjuskapur ekki til að fara ein í tækin, en ég ætla ekki að gera systur minni þann óleik að ræða það neitt nánar.

Ljósin í Tívolí

Ég í Tívolí

Þegar hér var komið sögu var farið að líða að brottför úr borginni og því þörf á að finna stað til að snæða síðustu dönsku kvöldmáltíðina. Við enduðum á þeim þjóðlega stað Hard Rock þar sem íslensk stúlkukind þjónaði okkur til borðs. Ekki voru sett nein hraðamet í framleiðslu það kvöldið og ferðalangurinn tekinn að líta ótt og títt á klukku sína og reyna að reikna út vegalengdir áður en yfir lauk. Eftir að hafa borgað brunuðum við systkin aftur yfir á hótel, sóttum töskurnar og gengum rösklega á höfuðbanastöðina þar sem ég kom akkúrat passlega til að stíga upp í lestina á leið til Malmö (með viðkomu á Kastrup).

Á Kastrup tókst mér að fá Tax Free pappírana stimplaða og kaupa danskt súkkulaði fyrir síðustu dönsku krónurnar. Flugið heim gekk prýðilega og var viðburðalaust með öllu.

Fólkið sem verið hafði mér samferða út og verið í röðinni fyrir aftan mig í H&M var rétt á undan mér út úr Fríhöfninni og í tollinn þar sem það var dregið afsíðis. Sjálfur rölti ég glaðbeittur í gegn og út í íslenska lögsögu.

Úti var allt á kafi í snjó svo ég mátti böðlast með mína töskukerru út á bílaplan í slöku færi og taka drjúgan tíma í að moka/skafa/berja af bílnum áður en ég ók til móts við töskukerruna, skutlaði þeim inn í bíl og tók strikið til borgarinnar. Heim var ég svo kominn um miðnættið og komið að ferðalokum.

Så er det slut.


Eins og fínn maður fór ég til Kaupmannahafnar í þrítugsafmæli og notaði tækifærið til að hitta systkini mín sem voru úti í námi.

Þessi för tókst með þeim ágætum að hún varð kveikjan að því að ég leitaði fyrir mér um framhaldsnám í Köben.