Dagbókarbrot - líf í vestri

Smásaga

Gengið með regnhlíf

Ég fór nýlega í kvöldgöngu og hélt í vesturátt. Það var farið að kvölda en ég var í upplögðu skapi fyrir smá göngutúr. Þegar ég fór í skóna fékk ég það sterklega á tilfinninguna að nú væri rétt að taka með sér regnhlíf. Það gerist ekki oft hér á Klakanum að veðrið leyfi þessa merkilegu græju en þegar það gerir það getur maður verið stoltur yfir forsjálninni - að vera með regnhlíf.

Það var ekki regnhlífarveður þegar út var komið, hugboðið hafði svikið mig. Það var heldur hvasst og það sem skipti kannski meira máli var að ekki kom dropi úr lofti.

Ég hélt í vesturátt í rökkrinu og skynjaði fljótlega að nú væri ég kominn í hverfi þar sem náttúruöflin láta til sín taka. Götunöfn á borð við Seltugrandi og Eyðisker segja sína sögu. Það lá óræð feigð í loftinu.

Leið mín lá inn á malbikaða stíga sem hlykkjast á milli húsanna. Sumir íbúarnir virðast ekki hafa áttað sig á stígnum, heldur sátu reykjandi við flennistóra glugga, klórandi sér í rassinum eins og simpansar í dýragarði.

Innkaupakerra úr Hagkaup(um?) lá bjargarlaus á hliðinni. Áður hafði ég þóst heyra skrílslæti í strákum á grunnskólaaldri, nú var ég viss. Þetta er hverfi hinna siðlausu gengja, frumskógur í siðmenningunni. Ég leiddi hjá mér hljóðlátt neyðarkall kerrunnar, fikraði mig framhjá henni og reyndi að láta regnhlífina líta út eins og barefli. Þetta gat verið gildra.

Stígurinn tróð sér lengra og lengra inn á milli húsanna. Ég mætti hundi sem var að viðra eiganda sinn. Þegar við mættumst fékk hundurinn SMS - ekki ég.

Smám saman varð það ljósara að ég vissi eiginlega ekki hvar ég var staddur. Kannski hefði verið gáfulegra að taka með sér hanska heldur en regnhlíf. Hvernig skyldi vera að verða úti í vesturbænum?

Ég herti gönguna, en neitaði að fara sömu leið til baka. Hélt áfram inn í óvissuna.

Sá glytta í fána á bensínstöð. Þetta hlyti að vera bensínstöðin við Ægissíðuna, þá næði ég áttum. En þetta var ekki rétt stöð - fánarnir voru bleikir! Ég var komin að Orkunni við Eiðistorg.

Ég fann hroll hríslast um mig. Í myrkrinu hafði ég gengið yfir punktalínuna án þess að taka eftir henni, yfir landamærin. Ég var kominn úr öryggi borgarinnar - yfir í annað sveitarfélag - út í sveitina. Ég tók skarpa beygju til vinstri.

Lögreglan á Seltjarnarnesi ók fram á fótgangandi karlmann síðastliðna nótt. Hann var kaldur og hrakinn og sagðist aðspurður búa í Reykjavík. Spurst var fyrir um hann þar, en án árangurs. Hann er nú í vörslu lögreglunnar og bíður uppboðs óskilamuna.

Það sló aðeins á örvæntingu mína að sjá inn um uppljómaðan glugga hjá fullorðnum hjónum á bæjarmörkunum. Þau sátu í stofu fullri af blómum og viðarinnréttingum. Þarna bjó venjulegt fólk.

Í næsta glugga glytti í hnakka á gamalli konu sem starði á teknó-hringstiga úr krómuðu stáli sem vatt sig niður í miðri stofu. Ég sá það á baksvipnum að hún var innst inni hrædd við þennan óskapnað en reyndi að láta ekki á neinu bera - drakk sitt sherrý án þess að bugast.

Skyndilega kom ég að annarri innkaupakerru sem lá deyjandi við stíginn. Gæti hafa verið sú sama, ég stansaði ekki frekar en áður. Leit til himins. Gerfihnattadiskarnir höfðu snúið sér undan, þóttust vera að horfa á útlendar rásir.

Við eitt húsið stóð bíll merktur "Bílastæðamálun". Skyldi vera hörð samkeppni á þeim markaði? Er ódýrara að mála sér bílastæði heldur en að malbika?

Ég var lox farinn að ná áttum. Sá glytta í háu blokkina bak við mína. Kom að stóru iðnaðarhúsi sem er líka nálægt mér en... eitthvað var athugavert.

Það þyrmdi yfir mig. Nú vissi ég hvar ég var. Þetta var ekki blokkin hjá mér. Ég var röngu megin við KR völlinn! Óskhyggjan hafði hlaupið með mig í gönur. Heimilið var í augsýn en þó svo óskaplega fjarri, handan við völlinn sem um léku naprir vindar.

Ég hef heyrt að á næturna séu mannætuhundar á beit á KR vellinum. Ég tók stóran krók. Hélt niðri í mér andanum meðan ég mjakaði mér meðfram stolti vesturbæjarins - malarvellinum. Erfitt að halda niðri í sér andanum lengi... mann fer að svima.

Sá glytta í blokkina mína og stofugluggann. Fékk stingandi heimþrá. Heima biði mín hlý íbúð, kunnugleiki og kaldur bjór í ísskápnum.

Kannski ég fari aftur á morgun?


Sönn frásögn úr vesturbænum. Skrifað mjög snemma vors 2002.